1997-03-20 13:48:00# 121. lþ. 95.95 fundur 262#B réttur alþingismanna til upplýsinga um fyrirtæki og stofnanir í ríkiseigu# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[13:48]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds er yfirskrift þessarar umræðu og ekki að ástæðulausu. Að undanförnu hafa fjölmörg tilefni komið upp þar sem þingmenn hafa kvartað undan því að spurningum þeirra sé ekki svarað og á það jafnt við orðaskipti í ræðum um þingmál og um skriflegar fyrirspurnir. Sjálf hef ég kvartað vegna fyrirspurnar sem ég lagði fram um fátækt á Íslandi og nýlega fékk ég svar frá kirkjumrh. um stöðu jafnréttismála innan þjóðkirkjunnar þar sem svarið við fyrstu spurningunni er svo ófullnægjandi að ég neyðist til að leggja fyrirspurnina fram aftur.

Þó að Alþingi hafi eftirlitshlutverki að gegna gagnvart framkvæmdarvaldinu þá er stærsta hlutverk þess að vera löggjafinn en á því sviði er staða þess gagnvart framkvæmdarvaldinu einnig mjög veik. Í fyrsta lagi vegna þess að öll stjórnarfrv. eru flutt af fulltrúum framkvæmdarvaldsins því að þeir eru jafnframt þingmenn og vegna þess að þingmannafrv. og tillögur fá yfirleitt lítinn tíma, litla umfjöllun og sjaldnast afgreiðslu. Ég vil minna á þá afstöðu okkar kvennalistakvenna að ráðherrar eigi ekki jafnframt að vera þingmenn eins og reyndin er t.d. í Noregi. Það er trú mín að staða þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu styrktist verulega við það en lágmarkskrafa hlýtur þó að vera að við munum að innan þingsins eru ráðherrar fyrst og fremst með stöðu þingmanna. Sú sætaskipan sem hér tíðkast er því í raun fáránleg. Það væri mun eðlilegra að ráðherrar dreifðu sér um salinn og væru hér sem hverjir aðrir þingmenn. Að mínu mati eru samskipti þings og framkvæmdarvalds mjög óeðlileg að mörgu leyti. Stjórnskipulega er staða þingsins önnur en hún er í framkvæmd og þessu verður að breyta. (Forseti hringir.)

Því miður voru svör hæstv. forsrh. ekki mjög skýr, en ekki var hægt að draga af þeim aðra ályktun en þá að heimilt sé að svara ekki fyrirspurnum af því tagi sem framsögumaður tók til umræðu og það vekur spurningar í ljósi upplýsingalaga.