1997-03-20 13:53:07# 121. lþ. 95.95 fundur 262#B réttur alþingismanna til upplýsinga um fyrirtæki og stofnanir í ríkiseigu# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[13:53]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Mér heyrist á öllu að hæstv. samgrh. sé hér á vitlausum fundi. Það er ekki verið að spyrja um þau mál sem hann var að reyna að rekja áðan. Um það var spurt í skriflegri fyrirspurn sem hann svaraði ekki. Betur væri að hann gerði yfirbót og endurbætti þau svör sem engin voru. Hér erum við hins vegar að ræða stórpólitískt mál sem lýtur að samskiptum þings og framkvæmdarvalds.

Ég verð að segja eins og er að það olli mér vonbrigðum að hæstv. forsrh., sem er vanur því að höggva á hnúta þegar ástæða er til, skuli láta nægja að lesa upp úr lagatexta en reyna ekki á nokkurn hátt að taka á því pólitíska álitaefni sem hér er uppi. Með öðrum orðum: Er það fyrirliggjandi að um leið og hið háa Alþingi samþykkir að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög, þá lokist á allar dyr, þá sé þingi ekki lengur heimilt að spyrja um einstaka þætti í rekstri viðkomandi fyrirtækis? Þetta er okkar viðfangsefni í dag. Ef lagatextar í hlutafélagalögum eða öðrum lögum eru óskýrir í þessum efnum þá þurfum við að taka hér pólitíska umræðu um það hvort ástæða sé til að breyta því. Mitt sjónarmið er alveg skýrt í þessum efnum. Það fullkomlega af og frá að með því einu að breyta ytra formi ríkisfyrirtækja verði skorið á öll tengsl þings við viðkomandi fyrirtæki. Það er fullkomlega fráleitt. Við hljótum að komast að pólitískri niðurstöðu um þau mál. Ég fer þess á leit við hæstv. forsrh. að hann svari því fyrir fullt og fast út frá pólitískum forsendum hvert hans sjónarmið er í þeim efnum. Við erum með hér á borðum okkar þingmanna frv. til laga um hlutafélagavæðingu bankanna og við verðum að fá skýr svör um þetta álitaefni áður en frá þeim verður gengið.