1997-03-20 13:55:26# 121. lþ. 95.95 fundur 262#B réttur alþingismanna til upplýsinga um fyrirtæki og stofnanir í ríkiseigu# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[13:55]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegur forseti. Í mínum huga snýst þetta mál ekki um launakjör einstakra starfsmanna hjá Pósti og síma. Reyndar get ég tekið undir það með hæstv. forsrh. að þegar fyrirspurn eins og þessi er lögð fram þá verður í svari að reyna að greina á milli einkamálefna og þess sem lýtur að upplýsingaskyldu gagnvart þinginu.

Í mínum huga snýst þetta um grundvallaratriði. Þetta snýst um samskipti þings og framkvæmdarvalds, hvernig þeim skuli háttað, og hver eftirlitsskylda þings eigi að vera gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það finnst mér vera grundvallaratriði í þessari umræðu og hins vegar hvort formbreytingin ein og sér hafi það í för með sér að framkvæmdarvaldið þurfi ekki lengur að veita þinginu upplýsingar. Þetta eru grundvallaratriði þessa máls. Það er nákvæmlega þetta sem verður að taka á. Þess vegna olli það mér verulegum vonbrigðum, virðulegur forseti, þegar hæstv. forsrh. flutti sína tölu, sem reyndar var mjög erfitt að átta sig á og erfitt að skilja, en ég skildi hana þannig að hann hafi nánast verið að líkja hv. þingmönnum við hluthafa á aðalfundi. Að þeir hefðu sambærilegan rétt til upplýsinga og hluthafar á aðalfundi. Ég gat ekki betur skilið hann en svo. En ég vænti þess að hann svari því hér á eftir hvort þessi skilningur minn er réttur. Ef svo er þá er þetta mun pólitískara mál heldur en ég kannski nokkru sinni gerði mér grein fyrir því það getur ekki verið að þar sem kveðið er skýrt á um upplýsingarétt þingmanna í stjórnarskránni og hins vegar sú grundvallarhugsun sem stjórnarskráin byggir á um eftirlitsskyldu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu að sú eftirlitsskylda sé orðin þess eðlis eftir formbreytingu einstakra fyrirtækja ríkisins í hlutafélög að réttur þingmanna sé orðinn sambærilegur og hluthafa. Það getur aldrei staðist, virðulegur forseti.