1997-03-20 13:57:47# 121. lþ. 95.95 fundur 262#B réttur alþingismanna til upplýsinga um fyrirtæki og stofnanir í ríkiseigu# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[13:57]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það hlýtur að teljast eðlilegt viðhorf að eigandi fyrirtækis eigi rétt á öllum venjulegum upplýsingum úr því og þar á meðal um launakjör æðstu yfirmanna stofnana, ráðuneyta, fyrirtækja og annarra rekstraraðila sem eru á vegum ríkisins. Ég get ekki fallist á að það eigi að afmarka svarskyldu ráðherra gagnvart Alþingi við hlutafélagalög í þessu tilviki sem hér er tilefni umræðunnar. Þvert á móti eigi ráðherrarnir að hafa hugfast að það er þjóðin eða eigandinn sem á rétt á upplýsingunum og það hefur ekkert breyst við það þó svo að formið verði annað en áður var.

Hins vegar er athyglisvert að ráðherrarnir nota formbreytinguna til að gera breytingu á upplýsingaskyldunni. Til að gera breytingu á þann veg að setja kjörin meira í þoku en áður var. Það er rétt að ráðherrar Sjálfstfl. svari því hvers vegna þeir tengja saman einkavæðingu ríkisrekstrarins og leynd yfir nauðsynlegum grundvallarupplýsingum um störf þeirra sem fara með fjármuni ríkisins. Það er nauðsynlegt að þeir svari því.

Ég er þeirrar skoðunar að almennt eigi að gilda að launakjör æðstu embættismanna ríkisins séu gagnsæ, þau eigi að vera opinber, bæði laun og önnur starfskjör. Vegna þess að þær upplýsingar veita aðhald. Þær veita þessum æðstu embættismönnum þjóðarinnar nauðsynlegt aðhald fyrir græðgi í launamálum sem við þekkjum á almenna vinnumarkaðnum. Að því marki sem laun æðstu embættismanna ríkisins endurspeglast af launakjörum í sambærilegum störfum á almennum vinnumarkaði þá veitir þessi sama upplýsingaskylda líka aðhald út í þjóðfélagið. Og það eigum við að nota til grundvallar til þess að stuðla að því að hóf sé á flestum hlutum.