1997-03-20 14:00:07# 121. lþ. 95.95 fundur 262#B réttur alþingismanna til upplýsinga um fyrirtæki og stofnanir í ríkiseigu# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[14:00]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég var ekki ánægður með svör hæstv. forsrh. þó svo að rökstuðningur hans hafi verið miklu skýrari heldur en kom fram hjá hæstv. samgrh., í skriflegu svari hans. Það er alveg ljóst að það er ágreiningur milli samgrh. og viðskrh. um þetta mál og hæstv. forsrh. skar ekki úr um hvor afstaðan væri réttari. Það hefur komið hér alveg skýrt fram að hluthafi getur fengið hjá stjórn félags þær upplýsingar sem hér er beðið um. Það þarf að fara fyrir hluthafafund sem samgrh. sem hinn eini hluthafi hefur vitaskuld engin vandkvæði með.

Það kom fram í umræðunni að viðskrh. mun veita slíkar upplýsingar við samsvarandi fyrirspurn ef hún kemur fram eftir að búið er að breyta viðskiptabönkunum í hlutafélag. Það er meginmálið í þessu. Það ríkir óvissa um hvernig ráðherrarnir eiga að taka á fyrirspurnum um þessi efni. Úr því að hægt var að veita þessar upplýsingar fyrir formbreytinguna, þá er ekkert í hlutafjárlögum sem bindur eða hindrar þá sömu upplýsingagjöf til alþingismanna eftir formbreytingu. Hæstv. forsrh. mun vafalítið koma inn á það í svari á eftir því að ein spurningin var hvort hann teldi að það þyrfti að setja skýrari reglur um þennan þátt. Eins og hæstv. forsrh. svaraði þessu áðan þá ríkir sama óvissa fyrir okkur alþingismenn að vita hvers við getum krafist með eðlilegum hætti af ráðherrum framkvæmdarvaldsins. Það er staða sem er ekki viðunandi í þessu máli.