1997-03-20 14:01:54# 121. lþ. 95.95 fundur 262#B réttur alþingismanna til upplýsinga um fyrirtæki og stofnanir í ríkiseigu# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[14:01]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil í tilefni af þessari umræðu hvetja hæstv. forsrh. til þess að láta fara fram sérstaka óháða lögfræðilega úttekt á þessu máli. Ég tel að þó að það sé út af fyrir sig ágætt að komið hafi svör frá ráðuneytinum, þá hafi menn vafalaust vandað sig, þá held ég að málið sé það mikilvægt að það eigi að efna til sérstakrar rannsóknar á því. Það mætti hugsa sér að það yrði gert á vegum þingnefnda. Það má auðvitað líka hugsa sér að það gerist á annan hátt en það er greinilegt að það er engin sátt um þau svör sem komið hafa, hvorki frá hæstv. forsrh. né frá þeim hæstv. tveimur fagráðherrum öðrum sem um þessi mál hafa fjallað. Það er líka greinilegt að svartilraunir hæstv. samgrh. skvetta yfirleitt olíu á eldinn ef einhverjir aðrir hafa þó reynt að slökkva hann eða lægja. Þess vegna hvet ég til þess að slík óháð athugun verði látin fara fram. Ég held að það væri til bóta í málinu.

Ég bæti því svo við að hér í morgun vorum við að ræða um frv. um álver á Grundartanga. Þar er gert ráð fyrir því að raforkuverð sé trúnaðarmál, það sé lokað og það sé leyndarmál. Þó er það þannig að allir þeir sem kunna þríliðu, sem er þjóðkunn reikningsaðferð, geta nokkurn veginn reiknað þetta verð út, en menn leggja ekki af stað í þann leiðangur. Ég held að það sé samt sem áður nauðsynlegt að halda því til haga við hæstv. forsrh., ef hann fengi einhvern tíma frið fyrir ritstjóra Alþýðublaðsins hér í salnum, hvort hann teldi ekki að það væri ástæða til þess að athuga það líka hvort það stenst anda eða efni upplýsingalaga að opinbert fyrirtæki neiti að veita upplýsingar um verð á rafoku eins og Landsvirkjun hefur gert í einum samningi og ætlar að gera í öðrum.