1997-03-20 14:06:06# 121. lþ. 95.95 fundur 262#B réttur alþingismanna til upplýsinga um fyrirtæki og stofnanir í ríkiseigu# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[14:06]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hv. 8. þm. Reykv. sagði hér að það er til bóta að láta gera lögfræðilega greinargerð um þessa hluti vegna þess að það er að færast í vöxt að eignarform ríkisins sé með öðrum hætti en áður hefur verið og því sé það til stórra bóta og æskilegt og ég skal stofna til þess að gerð verði greinargerð sem menn geti á byggt og treyst um hvernig málum er þá komið þegar rekstrarform og eignarhaldsform ríkisins á fyrirtækjum hefur breyst.

Ég vakti athygli á því í svari mínu að það kunna að vera örlítið mismunandi úrlausnir í máli þessu eftir því hvort ríkið á eitt allt hlutaféð eða ríkið á hlutaféð með öðrum. Það gefur auga leið. Ríkið gæti átt 1% hlutafjár. Skyldi sá hlutafjáreigandi, ríkið og þingmennirnir í gegnum það, eiga miklu meiri rétt heldur en hinir hluthafarnir, 99%? Það er enginn vafi á því að ef það er kominn blandaður réttur, þá eiga hluthafarnir allir sama rétt, það er jafnræðisreglan sem gildir. Og við erum að breyta þessum fyrirtækjum, eignarforminu, í hlutafélög til þess að gera þeim kleift að starfa á samsvarandi grundvelli og einkafyrirtækin. Það er hugsunin, það er mergurinn málsins í öllu þessu dæmi.

Á hinn bóginn telji þingið, löggjafinn að framkvæmdarvaldið fari að með einhverjum hætti sem ekki sé heppilegt, þá er kjörið tækifæri til að breyta reglum sem gilda um þessi félög og hafa þá sérreglur um hlutafélög sem ríkið á algjörlega eða verulegan hluta í, meiri hluta eða verulegan hluta, ef menn kjósa það. En þá eru menn heldur ekki að ákvarða að þessi fyrirtæki skuli vera jafnsett öðrum fyrirtækjum á einkamarkaði. Menn verða að vita nokkurn veginn hvað þeir eru að gera í þessum efnum. Þannig að ég tel ekki, svo að ég svari spurningunni sem ég átti ósvarað, nauðsynlegt að breyta stjórnarskrá eða þingskapalögum. En vilji menn hafa aðrar reglur þá breyta þeir lögunum um þessi fyrirtæki og eins og bent hefur verið á eru lög um bankana hér til umræðu o.s.frv.