Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 14:08:57 (4733)

1997-03-20 14:08:57# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[14:08]

Hjörleifur Guttormsson (frh.):

Virðulegur forseti. Þegar ég gerði hlé á ræðu minni var ástæðan sú að hæstv. umhvrh. var ekki viðstaddur umræðuna og ég undrast það að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa tryggt það að geta verið viðstaddur alla þessa umræðu, svo mjög sem umhverfismálin snerta það stóriðjuver sem hér er rætt um og frv. liggur fyrir um. En það er líklega rétt, virðulegur forseti, að ég lesi hér upp smátexta, sem mætti kannski vera texti dagsins, en hann má lesa í skýrslu sem umhvrn. gaf út 1995 undir fyrirsögninni Ástand og þróun umhverfismála. Þar stendur, með leyfi forseta, og ég bið hv. þingheim að taka eftir þessum orðum, þessum texta dagsins:

,,Lögð er áhersla á að Ísland verði um næstu aldamót fyrirmynd annarra vestrænna ríkja í umhverfismálum eða með öðrum orðum að Ísland verði þá án nokkurs vafa hreinasta land hins vestræna heims og ímynd hreinleika og sjálfbærrar þróunar tengist allri atvinnustarfsemi í landinu.``

Þetta er eitt meginþema í riti sem umhvrn. gefur út 1995. En það er dálítið leitt að líta á þessar yfirlýsingar í ljósi þess sem hér er lagt fyrir og þess máls sem við ræðum hér og fleiri mála þeim skyldum sem því miður vekja ekki vonir um að ráðuneyti umhverfismála sé að vinna að því að uppfylla þær eðlilegu kröfur sem til þess eru gerðar og að standa við yfirlýsingar sem frá því hafa komið.

Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að niðurstaða meiri hluta umhvn. sem liggur fyrir hér í skýrslu veldur mér og vafalaust mörgum fleirum miklum vonbrigðum. Það var að frumkvæði fulltrúa úr meiri hluta umhvn. að nefndin tók málið til sérstakrar athugunar og það var þakkarvert að gera það. En niðurstaðan er jafnraunaleg sem lesa má í áliti meiri hlutans: ,,Það er ekkert við þetta mál að athuga.`` Það er ekkert við málið að athuga. Það er skrifað upp á þetta í hólf og gólf og síðan eru svona fáeinar slaufur um að hér þyrfti að verða myndarleg stefnumótun í umhverfismálum og menn eru að rétta fram boð um það að taka þátt í að fara nú loksins að móta stefnu í þessum málum.

Það er eitt sem vekur athygli í nefndaráliti meiri hlutans, virðulegur forseti, og ég leyfi mér að vitna til, með þínu leyfi:

,,Skiptar skoðanir [stendur þar] komu fram í nefndinni hversu ákjósanleg staðsetning álversins á Grundartanga væri en enginn taldi hana beinlínis hættulega.`` En þá væntanlega óbeinlínis.

Þessi texti og þessar áhyggjur eru komnar úr meiri hluta umhvn., hefði vafalaust getað fengið góðan stuðning frá þeim sem skila hér minnihlutaáliti ef eftir hefði verið leitað. Þetta vekur athygli. En ég ætla ekki að eyða meiri tíma í það, virðulegur forseti.

Ég sagði í andsvari í morgun að málafylgja stjórnvalda í sambandi við undirbúning þessarar álbræðslu væri einhver hin sóðalegasta embættisfærsla sem ég hef orðið vitni að og það ekki einangrað við umhvrn. Er vissulega af allmörgu að taka í Stjórnarráðinu og gerðum þess á undanförnum árum sem ég tel mig hafa sæmilegt yfirlit yfir. Og ég ætla hér að nota mínar mínútur að þessu sinni öðru fremur til þess að vísa á við hvað er átt þgar svo stór orð eru mælt úr þessum ræðustól.

Ég tel, virðulegi forseti, og við sem myndum minni hluta í umhvn. varðandi það álit sem liggur fyrir þinginu og dreift var í dag, að það verði að teljast vafasamt að við mat á umhverfisáhrifum hafi verið farið að lögum. Og það er fyrst og fremst þáttur Markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar sem við er átt þegar þessi orð eru mælt því að öll sú málafylgja og allt það upplegg er með þeim hætti að það er siðlaust frá upphafi til enda og hlýtur að þurfa athugunar við hvort þessi málafylgja stenst lög um mat á umhverfisáhrifum. Ég spyr hv. þingheim: Hvernig telja menn það geta viðgengist og verið réttlætanlegt að skrifstofa, sem lýtur stjórn iðnrn. og Landsvirkjunar gangi að fullu og öllu inn í hlutverk framkvæmdaraðilans Columbia Ventures Corporation, áður Aluminium Corporation, gangi inn í hlutverk þessa framkvæmdaraðila samkvæmt lögum, gerist þar athugasemdaaðili og kæruaðili, umsagnaraðili um kærur annarra o.s.frv. en lögin heimila varðandi framkvæmdaraðila, tekur að sér að borga uppleggið alveg í heild sinni? Eina skilyrðið eru 24 millj. kr. samkvæmt upplýsingum sem umhvn. fær sem þessi markaðsskrifstofa reiðir af höndum varðandi undirbúning málsins, þar á meðal greiðslu fyrir mat á umhverfisáhrifum upp á um 8 millj. kr. og eina skilyrðið, eini möguleikinn á endurgreiðslu eru þessar 8 millj. af 24, skilyrt ef álbræðslan rís á Grundartanga. Halda menn að það sé forsvaranlegt með tilliti til m.a. 2. og 9. gr. laga nr. 63/1993 að svona sé haldið á málum fyrir utan það að aðili sem á að vera ráðgjafaraðili stjórnvalda og Landsvirkjunar varðandi samninga um orkusölu, gerist sérstakur handlangari þess sem á að kaupa orkuna og sé háður honum hagsmunalega eins og hér blasir við og einnig fjárhagslega? Ég bið hæstv. ráðherra um að reyna að réttlæta þennan subbuskap sem hér liggur fyrir og ég er viss um að það eru margir sem bíða eftir svari við því af hálfu jafnt hæstv. umhvrh. og iðnrh.

[14:15]

Þá kemur að hlut umhvrh. í sambandi við matið á umhverfisáhrifum sem verður til með þeim hætti sem ég nefndi hér. Matið er unnið eða lagt upp í hendurnar á embætti Skipulags ríkisins, skipulagsstjóra, sem kveður upp sinn úrskurð í ljósi þeirra athugasemda sem fram hafa komið og þess sem fyrir liggur í skýrsluformi í nafni framkvæmdaraðilans og heimilar framkvæmdina með mörgum skilyrðum. Þessi úrskurður er kærður af líklega sjö aðilum og sú kæra er í höndum hæstv. umhvrh. Slíkar kærur ganga til hans samkvæmt lögunum. Og hvað gerir umhvrh.? Hann fellst á allar kröfur framkvæmdaraðilanna, Landsvirkjunar og markaðsskrifstofunnar fyrir hönd hins erlenda fyrirtækis og heggur í spað niðurstöðu, úrskurð skipulagsstjóra ríkisins sem að mínu mati er byggður á vandaðri vinnu af hálfu þess embættis þar sem embættið reyndi að verja sig gagnvart þessu gerræði af hálfu ráðherrans með því að vísa til þess. --- Ég leyfi mér að vitna hér til umsagnar sem kom inn í kæruferlið gagnvart umhvrn. af hálfu skipulagsstjóra þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Það er mat embættis skipulagsstjóra ríkisins að ekkert nýtt hafi komið fram er breyti fyrri úrskurði embættisins. Mikilvægt er að litið sé á úrskurð skipulagsstjóra sem eina heild. Verði skilyrðum breytt og/eða þau alfarið felld úr gildi breytast forsendur úrskurðar sem kallað gætu á endurskoðun á málinu í heild.``

Ekkert er hlustað á þetta. Hæstv. umhvrh. gerist handlangari framkvæmdaraðilanna í þessu máli og félaga síns, iðnrh., til þess að þrýsta fram þessari framkvæmd sem þannig er staðið að varðandi þennan grundvallarþátt, matið á umhverfisáhrifum. En þar er ekki allt með talið.

Hæstv. umhvrh. gerir sig beran að því á þeim tíma sem málið er til meðferðar stjórnskipulega að gefa út og verja reglugerð sem markar meðferð þessa máls, starfsleyfisins, gefur út reglugerð sem reynist vera lögleysa og ráðherrann neyðist til að draga reglugerðina til baka eftir að umsagnarfresti lýkur, 22. janúar, en umsagnarfresti lauk 13. janúar. En þá tekst ekki betur til en svo að hin nýja reglugerð að því er mér virðist er heldur ekki í samræmi við lögin. Ég ritaði þann 13. mars sl. stjórn Hollustuverndar ríkisins svo sem lagaheimildir standa til bréf þar sem ég óska eftir því að athugasemdir sem ég set þar fram um málsmeðferð verði teknar til úrskurðar hjá stjórn Hollustuverndar ríkisins á grundvelli 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Þetta er stóralvarlegt mál, virðulegur forseti. Þessi embættisfærsla, þessi subbuskapur er með þeim hætti að ég hef satt að segja aldrei séð annað eins og ég skil ekki hvernig hæstv. umhvrh. gengur fram í þessu máli því að ég hafði ekki ætlað annað en ráðherrann væri vandvirkur, vildi vanda sig en lætur slík afglöp henda sig aftur og aftur og auðvitað er öll málsmeðferðin í uppnámi í ljósi þess sem hér liggur fyrir. Hæstv. ráðherra getur að sjálfsögðu ekki sóma síns vegna og vegna stöðu málsins gert annað en að taka alla þessa málsmeðferð upp í heild og væri sæmstur að því að beita sér sjálfum fyrir því að heildarathugun fari fram á þeirri embættisfærslu sem þarna hefur átt sér stað og þeir sem teldust ábyrgir fyrir henni fyrir utan ráðherrann sjálfan væru dregnir til ábyrgðar í sambandi við málið.

Þetta, virðulegur forseti, taldi ég óhjákvæmilegt að kæmi fram í sambandi við þessa umræðu vegna þess að þetta varðar stöðu okkar hér á Alþingi, allra þingmanna en einnig almennings í landinu til þess að koma með eðlilegum og lögboðnum hætti að þessu máli á undirbúningsstigi áður en afgreiðsla fer fram og ákvarðanir eru teknar. Ég harma það, virðulegur forseti, að svona skuli vera gengið til verka og það ber því miður ekki vott um góðan málsstað þegar Stjórnarráðið og hæstv. ráðherrar haga sér með þeim hætti sem hér um ræðir, loka augunum fyrir lagabókstafnum, ætla sér að setja leikreglur í krafti reglugerða sem stangast á við lög, fyrir svo utan það siðleysi sem ég hef rakið varðandi Markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar og þann ljóta leik sem þar hefur verið leikinn.

Virðulegur forseti. Minni hluti umhvn. hefur gert margar mjög alvarlegar athugasemdir í áliti sínu við fram komnar tillögur að starfsleyfi fyrir álbræðslu á Grundartanga. Ég mun víkja að þeim þætti í nokkrum atriðum síðar við þessa umræðu því að ekki er tími til þess að gera það að umtalsefni frekar í þessari ræðu. En ég vil undirstrika að þar er margt mjög alvarlegt á ferðinni. Það er alveg sérstaklega alvarlegt í ljósi þess sem gefið er í skyn af stjórnvöldum að hér sé gætt ýtrustu aðgæslu í sambandi við mengunarvarnir og meiri hluti umhvn. tekur undir þessar yfirlýsingar af hálfu ráðherranna sem því miður lítil innistæða er fyrir. Þetta er mjög alvarlegt, þegar verið er að flytja þau boð út í samfélagið að hér sé staðið eðlilega að hlutum að því er snertir umhverfishagsmunina og þá um leið framtíð okkar hér á Íslandi um þau efni sem kannski mestu máli skipta og mölur og ryð ættu ekki að fá grandað, þ.e. heilbrigt umhverfi í landinu, verndun þeirra gæða sem verða dýrmætustu gæði fyrir Íslendinga í framtíðinni ef þeir bera gæfu til þess að standa um þau vörð. Og skiptir þá litlu þær krónur og aurar og gullkálfar sem reynt er að reiða fram og er beitt til þess að ryðja úr vegi hindrunum sem settar eru hér upp í góðri trú, jafnt af Alþingi Íslendinga sem annars staðar, leikreglur sem ættu að leiða til annars heldur en þess sem hér stefnir í, því miður. Að þeim þáttum, virðulegur forseti, mun ég koma síðar í umræðunni.