Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 14:50:43 (4737)

1997-03-20 14:50:43# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[14:50]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekkert svar, ekki orð um spurninguna um gróðurhúsalofttegundir. Viðhorfið til alþjóðasamningsins, skuldbindandi. Ekki orð, engin skoðun. 30--40 ára gamlir Íslendingar eiga ekki að ganga atvinnulausir. Já, það er alveg rétt það er dapurlegt hlutskipti að vera atvinnulaus í þessu landi. (Gripið fram í.) En er sú atvinnustefna að koma hér upp fyrirtækjum sem kosta 100 millj. kr. eða þar um bil á starfsmann leiðin til lausnar í sambandi við atvinnusköpun í landinu? Það þurfa margir að segja mér það áður en ég trúi að það sé leiðin til að vinna bug á atvinnuleysi hér á Íslandi.

Ég undrast það, ég undrast þá skammsýni sem fram kemur í máli talsmanna Alþfl. í sambandi við þessi efni. Það er verið að koma hér upp fyrir tugi milljarða kr., eru það ekki á milli 30 og 40, virðulegur forseti, þessari álbræðslu, 60.000 tonna álbræðslu uppi á Grundartanga á sama tíma og ekki er hugsað fyrir því að veita fé til rannsókna- og þróunar í landinu til að sækja í þá möguleika sem kannski geta leyst atvinnuleysisvandann en það á að vera viðfangsefni okkar. Þetta er afar dapurlegt og að þetta skuli koma fram undir merkjum flokks sem kennir sig við alþýðu landsins og ætti að vera framsýnn en ekki að rembast hér við að styðja ákvarðanir sem eru jafntvísýnar og við höfum rætt hér varðandi umhverfi landsins. Ég endurtek spurningar mínar: Hvert er viðhorf þingmannsins varðandi samninginn um loftslagsbreytingar inn í það samhengi sem hér um ræðir, losun á 373.000 tonnum af góðurhúsalofttegundum árlega sem einhvern veginn verður að bregðast við? Á það að gerast með því að skera niður í ferðaþjónustu? Á það að vera með því að parkera bílunum? Á það að vera með því að binda fiskiskipaflotann við bryggjur?