Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 15:19:10 (4741)

1997-03-20 15:19:10# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:19]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það var vel gert af hv. 11. þm. Reykv. að benda okkur á þessa ritvillu sem hér er, en hann veit jafn vel og við hvaða tíma við höfðum til að skila þessu áliti og þetta er afleiðing næturvinnunnar. Þarna á að sjálfsögðu að standa umhvrh. og verður það leiðrétt í skjalinu þegar það verður prentað.

Það væri ágætt ef hv. þm. gæti bent okkur á fleira en þetta sem hann sér auðvitað að er prentvilla.

Hvað varðar skipulagsmálin sem vísað var til hér, þá mætti sjálfsagt margt fleira koma fram í þessu áliti. Ég held að allt það ferli hafi kannski markast af því að margir hafi ekki gætt að sér að koma á framfæri athugasemdum og mér finnst engin ástæða til þess að gera lítið úr því. Þegar unnið var að skipulagningu iðnaðarsvæðis á Grundartanga, þá reiknuðu t.d. flestir því að þarna væri á ferðinni svæði undir smærri iðnað. Því var breytt á seinni stigum og það hefur verið gagnrýnt harðlega og þeir hafa gagnrýnt það helst sem hafa verið andbýlingar þessa svæðis, ef svo má segja, þ.e. Kjósverjar og Kjalnesingar, þar sem þeir höfðu ekki sömu möguleika til þess að koma að því máli. Það höfum við gagnrýnt að þeir skyldu ekki hafa getað átt hlutdeild í svæðisskipulaginu því þetta kemur þeim svo sannarlega við. En við teljum að Hvalfjarðarsvæðið hefði átt að skipuleggja sem heild en ekki að sleppa þeirra hlut í þessu svæði.