Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 15:21:33 (4742)

1997-03-20 15:21:33# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:21]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fékk engin svör við því misvægi sem kemur fram í minnihlutaálitinu um skipulagsþáttinn sem virðist vera samþykktur og lítt eða ekki gagnrýndur og því mikla vægi sem síðan er varið í aðra hluti, svo sem þá að sýna fram á mengun álversins. Ég skora á hv. þm. að koma hér og nefna einhverja þá rannsókn eða einhverjar þær staðreyndir sem ég og þingheimur getur tekið mark á um að þau stóriðjuver sem hér hafa verið starfandi hafi haft skaðvænleg áhrif á lífríkið umhverfis sig. Hér hefur verið starfandi álver við Straumsvík frá 1969 og járnblendiverksmiðja á Grundartanga frá 1979. Það skal viðurkennt að auðvitað hefði mátt rannsaka betur umhverfi stóriðju. Það hefur aðeins ein rannsókn mér vitanlega komið fram sem hefur sýnt fram á skaðvænleg áhrif frá Straumsvík en það er óbirt rannsókn frá 1985 þegar álverið var með minni hreinsibúnað. Annað hefur ekki komið fram. Hvorki hafa menn séð það né getað staðfest það. Við höfum hins vegar rannsóknir sem sýna að kerbrotin valda ekki mengun, að ekki er súrnandi jarðvegur eða grunnvatn umhverfis verksmiðjurnar og gildi þungmálma í Hvalfirði mælist það sama og allt umhverfis Ísland annars vegar og reykurinn sem kemur frá járnblendiverksmiðjunni Grundartanga er ryk sem ekki mengar meira en venjulegt ryk þó að menn hafi haldið annað.

Með þessu er ég ekki að segja að ekki sé mengun frá stóriðju. Ég tek undir með þingmanninum og ég ítreka þau orð sem ég sagði hér um þá umhverfisstefnu sem þarf að móta og ég er ekki að mæla stóriðju bót með neinum sérstökum hætti. En við skulum heldur ekki í einhverjum trúarlegum hita, eins og virtist koma fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrr í dag, meiða sjálf okkur eða ganga nær okkur heldur en við þurfum í að hefta hér framrás atvinnulífsins. En ég skora á hv. þm. sem hér talaði á undan að leggja fram staðreyndir máli sínu til sönnunar um að stóriðjuverin hafi mengað. Það er ólygnasta niðurstaðan.