Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 16:28:26 (4754)

1997-03-20 16:28:26# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[16:28]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spyr hvernig ég ætli að réttlæta það að þessi mikla uppbygging fari fram þarna og væntanlega með starfsemi sinni auki mjög svo á þann útblástur sem nú þegar er fyrir. Ég var að reyna að lýsa því aðeins að mínar áhyggjur eru náttúrlega miklar yfir því hvað áformin eru mikil. Við erum ekki bara að tala um áform uppi í Hvalfirði. Við erum að tala um áform annars staðar og þess vegna tel ég að ef það verður raunin að við náum ekki þessum markmiðum sem um er talað í alþjóðasamþykktum, þá verðum við að krefjast þess að þessar verksmiðjur setji upp vothreinsibúnað. Það er ekki komið í ljós enn þá að mínu viti hvort við náum þessum markmiðum eða ekki. Eigi að síður er ljóst að við munum fara yfir mörkin með sama áframhaldi. Þess vegna tel ég það einn möguleikann að við áskiljum okkur rétt til þess að vothreinsibúnaður yrði settur upp á þær verksmiðjur sem þegar eru.

Ég skal ekki segja hvernig við gerum það. Ég hef ekki kannað það. En eigi að síður, við setjum lög í þessu landi og við hljótum að hafa allan rétt til þess ef það er eina leiðin sem við getum farið til þess að uppfylla kröfur á alþjóðavettvangi. Aðrar leiðir höfum við rætt og hv. þm. þekkir þær allar jafn vel og ég og hugsanlega miklu betur enda mikill sérfræðingur í öllum þessum málum. En við eigum báðir sæti í hv. umhvn. og þar höfum við rætt þetta lítillega hvað varðar alþjóðasamþykktir og í tengslum við þessar umræður sem hafa farið fram um álverið á Grundartanga, hefur þetta mikið verið til umræðu. Ég sé þetta sem einu leiðina ef við sjáum okkur fara fram úr þessum mörkum, þ.e. að skilyrða vothreinsibúnað á það sem fyrir er.