Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 16:36:19 (4757)

1997-03-20 16:36:19# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[16:36]

Ólafur Örn Haraldsson:

Herra forseti. Sú umræða sem hefur farið hér fram í dag hefur væntanlega orðið til góðs og hjálpað þeim sem munu fjalla um frv. þegar það kemur til nefndar. Eins og fram hefur komið þá liggur fyrir vönduð og umfangsmikil skýrsla frá umhvn. og með hana í farteskinu ætti iðnn. að geta tekið afstöðu til þess þáttar.

Meginatriði mengunarmálanna eru þau að við Íslendingar setjum okkur þau markmið sem við erum sammála um að séu nægjanleg og sem við treystum. Og í öðru lagi að þau stóriðjufyrirtæki sem við heimilum hér á landi séu þá innan þessara marka. Eftir vandlega skoðun hjá umhvn. er niðurstaðan sú að þetta sé allt innan þeirra marka sem við getum búið við.

Kröfurnar til mengunarvarna væntanlegs álvers á Grundartanga eru strangari en þær kröfur sem eru gerðar til nýja hlutans í álverinu í Straumsvík og þær eru strangari en þær kröfur sem væntanlega átti að gera á Keilisnesi. Hér er því um að ræða ströngustu mengunarvarnakröfur sem við höfum sett fyrirtæki af þessu tagi. Vísindamenn okkar, og við þá höfum við í umhvn. rætt, fullyrða að vothreinsibúnaðar sé ekki þörf og að mengunarkröfur til álversins á Grundartanga séu nægjanlegar. Við hljótum að spyrja okkur: Treystum við þessum vísindamönnum eða treystum við þeim ekki? Við í umhvn., alla vega meiri hlutinn, höfum talið að við yrðum að treysta vísindamönnum okkar, bæði heilindum þeirra og þekkingu þeirra til þess að gefa okkur þessar upplýsingar. Við getum ekki gengið gegn þeim og kallað þá annaðhvort ósannindamenn eða hrakið niðurstöður þeirra ef við höfum ekki önnur betri rök. Sú hlálega staðreynd blasir við að um leið og Íslendingar hafa þessa hreinu og góðu orku sem býr í fallvötnum og jarðvarma, þá stöndum við frammi fyrir því að geta ekki nýtt þessa hreinu orku ef við um leið ætlum að útiloka stóriðju sem mengar á borð við álverið á Grundartanga. Ég er ekki að segja að það sé afsökun en það er samt sem áður einföld staðreynd að ál sem framleitt er á Íslandi með þeirri orku sem hér er unnin, þ.e. með fallvötnum að mestu leyti, mengar að mér er sagt tíu sinnum minna en ál sem framleitt er með jarðefnum, þ.e. kolum og olíu. Það gerir í sjálfu sér okkar hlut ekki betri því að auðvitað erum það við sem völdum menguninni. En þegar horft er til málsins í hnattrænum skilningi ber þó að líta til þessara staðreyndar.

Ég hef sagt það fyrr hér í dag að reynsla okkar sjálfra hlýtur að vera ólygnust og við hljótum að líta til þeirra stóriðjuvera sem hér eru starfandi, þ.e. álversins í Straumsvík og járnblendiverksmiðjunnar. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að rannsóknir hefðu mátt vera mun meiri. En það hafa þó verið gerðar rannsóknir á flúor frá 1968 í nágrenni álverksmiðjunnar í Straumsvík og niðurstaðan er einföld: Það var veruleg flúormengun frá álverinu enda lét það frá sér um 20--25 kíló á hvert tonn sem framleitt var, enda voru þar engar mengunarvarnir hvað flúor varðar. Núna eftir að mengunarvarnir eru komnar þar í gott lag er flúormagnið 1,2 kg á hvert tonn. Ég endurtek þessar tölur. Allt að 25 kg var það áður en núna er það 1,2. Gert er ráð fyrir því að flúormagnið á Grundartanga verði 0,6, en það álver mun væntanlega eins og önnur ná betri árangri en lágmarksviðmiðunarmörkin segja til um og verðum við að vænta þess að það setji sér þau markmið að verða í 0,4.

Það er hins vegar alveg deginum ljósara og það má ekki lesa mín orð svo, né held ég nokkurs annars sem hér hefur talað í dag, að menn segi: ,,Það er engin mengun frá stóriðju.`` Stóriðja mengar. Hún mengar staðbundið og við sem höfum skrifað upp á meirihlutaálitið segjum að sú staðbundna mengun sé fyllilega innan marka. En hún mengar líka í hnattrænum skilningi, hún mengar líka á jarðarmælikvarða og þar höfum við Íslendingar verk að vinna, þ.a. að uppfylla þær skuldbindingar sem við setjum okkur og munum endanlega staðfesta í framtíðinni um losun gróðurhúsalofttegunda. Ríkisstjórnin hefur lagt fram áætlun um slíkar varnir þó að þær hafi ekki orðið að umræðuefni hér. Þessi umræða má ekki fara þannig fram að menn láti eins og það sé ekki unnið gegn þessu, enda kemur það fram í meirihlutaálitinu að meiri hlutinn hvetur ríkisstjórnina til þess að taka koltvíoxíðmálið föstum tökum.

Fáir hafa komið að þættinum sem snýr að íbúunum sjálfum í Hvalfirði, enda eru mörg af þeim málum og margt af því sem ónáðar menn hvað álverið fyrirhugaða á Grundartanga varðar, hlutir sem ekki koma fyrir í starfsleyfi eða eru lögbundnir til umfjöllunar. Þetta eru mál sem varða ímynd, mál sem varða ásýnd landsins og annað sem varðar tilfinningar fólks. Þetta eru einfaldlega staðreyndir. Þetta eru jafnvel einmitt þeir hlutir sem fólk verður allra sárast út af og setur sig sem allra mest á móti. Samt sem áður er ekki rúm fyrir þetta í löggjöfinni enda eru allir mælikvarðar sem snúa að fegurð, tilfinningum, ásýnd og ímynd, mjög erfiðir viðfangs. Það sem einn telur vera ljótt, þar segir annar að sé búsældarlegt. Hér hefur ekki verið fjallað um það, enda mun tími gefast til þess seinna, hvernig álverið kemur við sumarbústaðaeigendur, hvernig það kann hugsanlega að þrengja að kostum landeigenda og hvaða ímynd og ásýnd blasir við ferðaþjónustu. Þetta eru allt efni sem við hljótum að þurfa að ræða þó svo við finnum ekki mælikvarðann fyrir það í þeim starfsleyfum sem hér eru. Þetta eru einfaldar staðreyndir.

[16:45]

Sú umræða sem hefur verið vakin af íbúunum, ég vil endurtaka það sem ég sagði um það, ég tel að þó hún hafi oft verið byggð á miklum tilfinningum og mönnum hafi verið heitt í hamsi þá hefur sú umræða orðið til góðs. Hún hefur fleygt okkur fram á við, hún hefur veitt stjórnvöldum aðhald og hún hefur vakið okkur til þess að vanda lagasetningu til þess að vanda lagasetningu sem er fram undan og hún er að mörgu leyti, tel ég, grunnurinn að því að verja hagsmuni íbúanna eftir því sem nauðsynlegt er. Þetta er allt af hinu góða og við eigum að fagna þessu. Við eigum hins vegar ekki að játa á okkur einhverjar þær vammir eða skammir eða þá mengun sem við samkvæmt bestu þekkingu okkar vísindamanna og sem við eftir samviskusamlega skoðun í umhvn. höfum komist að að sé innan þeirra marka sem við getum búið við. Við erum ekki sammála, minni hluti og meiri hluti nefndarinnar, hvar eigi að draga þessi mörk. En við erum hins vegar öll sammála því í umhvn. að móta þurfi framtíðarstefnu í umhverfismálum og stóriðjumálum og virkjunarmálum, stefnu sem tekur mið af því að nú eru hraðfara breytingar í viðhorfum almennings á þessu sviði. Þessi umræða öll sem hér hefur orðið og á eftir að verða er einn af þeim steinum sem mun gera þá byggingu traustari.