Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 16:59:08 (4763)

1997-03-20 16:59:08# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[16:59]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir vænt um að hv. þm. sem hér veitti andsvar hefur lesið skýrsluna enda þótt hún hafi ekki verið tilbúin fyrr en nú í morgunsárið. Þetta er rétt, skýrsla umhvn. er gagnrýnin og hún á að vera gagnrýnin vegna þeirra miklu breytinga sem nú eru að verða og hafa orðið m.a. og þeim hefur hraðað vegna þeirrar umræðu sem hefur orðið um fyrirhugað álver á Grundartanga.

Það er eðlilegt að það sé hlutverk umhvn. að vera gagnrýnin og reyna að marka stefnu eftir því sem hún frekast getur verið. Ég dreg ekkert úr þeirri gagnrýni sem kemur þarna fram og þeim ábendingum þar sem horft er til framtíðarinnar. En við verðum um leið að viðurkenna þau lög og þær venjur og reglur sem við vinnum eftir og sem fyrirhugað álver á Grundartanga og undirbúningur þess er unninn eftir. Það liggur fyrir ákveðið ferli sem á að fara í gegnum hvað skipulags- og mengunarvarnamál varðar og á því sviði hefur ekki komið fram gagnrýni um málsmeðferð í meirihluta\-álitinu. Hins vegar er það rétt sem þingmaðurinn segir að meiri hluti nefndarinnar er að hvetja til stefnumótunar þar sem þessir þættir eru teknir til greina sem þingmaðurinn svo ágætlega benti á. Ég ætla ekki að telja þá aftur en þeir eru í skýrslunni.