Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 17:38:57 (4772)

1997-03-20 17:38:57# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[17:38]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Þessi síðasta ræða mín við 1. umr. er nú til komin vegna þess að ég náði ekki að svara öllum þeim fyrirspurnum sem til mín var beint fyrr við umræðuna og átti algjörlega eftir að svara fyrirspurnum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.

Hv. þm. spurði í fyrsta lagi hvert orkuverðið væri og hvort það væri svipað og hjá Ísal. Ég hef reyndar áður sagt að orkusamningurinn sem slíkur, orkuverðið, er trúnaðarmál milli stjórnar Landsvirkjunar og kaupenda sem eru í þessu tilfelli bandaríska fyrirtækið Columbia Ventures Corporation. Hins vegar er óhætt að fullyrða að orkuverðið í þessum samningi er hærra en það verð sem Ísal er að greiða. Það kemur m.a. fram í því að arðsemin af þessum samanlagða orkusamningi Landsvirkjunar við járnblendið og eins við álverið skilar okkur arði upp á 6,85% en við settum arðkröfu Landsvirkjunar, eins og mönnum er enn í fersku minni, 5,5%.

Áhrif á raforkuverð til almennings. Í lögunum um Landsvirkjun er gert ráð fyrir að iðnrh. eigi að skrifa upp á samning sem Landsvirkjun gerir um stóriðju og þar þarf að hafa eitt að leiðarljósi og það er að ekki séu gerðir samningar sem leiði til þess að orkuverð til almennings muni hækka. Það er klárt að gengið er alveg úr skugga um það að þessi samningur mun ekki leiða til þess að orkuverð til almennings muni hækka heldur hið gagnstæða að með samningnum gefst kannski enn frekar tækifæri, a.m.k. örugglega tækifæri til þess að framfylgja þeirri orkuverðslækkunarstefnu sem eigendur Landsvirkjunar hafa mótað og hefur áður verið tekið hér fram --- óbreytt orkuverð að raungildi fram til aldamóta, lækkar um 2%--3% á ári til ársins 2010. Þannig að þetta gefur enn frekara svigrúm til að ná þessu markmiði, ekki síst í ljósi þess að arðurinn af þeim samningum er meiri en sú arðkrafa sem við gerum í sameignarsamkomulaginu. Og þá svara ég um leið þriðju spurningu hv. þm. --- áhrifin á gjaldskrá Landsvirkjunar eru sem sagt engin, þ.e. að þetta mun ekki leiða til þess að gjaldskrá Landsvirkjunar hækki heldur geti skapað svigrúm til frekari lækkunar.

Hv. þm. spurði í fjórða lagi um skiptingu á framkvæmdakostnaði, þ.e. fjárfestingarkostnaði. Eins og kom fram í upphafi ræðu minnar er fjárfestingarkostnaðurinn í kringum 36 milljarðar kr. Álverið er með í kringum 11 milljarða, rétt rúmlega, og járnblendifélagið með rétt tæplega 3 milljarða og Landsvirkjun þar af leiðandi með 22 milljarða.

Hv. þm. spurði um lán á framkvæmdatímanum sem Landsvirkjun þyrfti að taka. Gert er ráð fyrir því að lántaka Landsvirkjunar verði 18 milljarðar kr. af þeim 22 sem fara í framkvæmdirnar, með öðrum orðum 4 milljarðar kr. koma af eigin fé Landsvirkjunar sem er í kringum 28% og þar af leiðandi 72% lántaka, kringum 30% eigið fé í þessu og það telst vera, held ég, mjög vel viðunandi.

Niðurskurður á opinberum framkvæmdum --- kemur hann til? Niðurskurður á opinberum framkvæmdum kemur ekki til umfram það sem búið var að ákveða og þegar menn tóku þá ákvörðun við lok afgreiðslu fjárlaga að lækka þann fjárlagalið sem hægt er að flokka undir opinberar framkvæmdir þá var það m.a. til komið vegna þess að menn áætluðu að ráðist yrði í þessar framkvæmdir og menn þyrftu þess vegna að skera niður. Þannig að það verður ekki um frekari niðurskurð að ræða.

Afgangsorkan? Ef ég skildi hv. þm. rétt þá er hv. þm. að miða við að garðyrkubændur rækju bú sín á afgangsorku. Það er ekki rétt. Þeir eru með forgangsorku. Þetta mun ekki hafa nein áhrif fyrir garðyrkjubændur. Það er hins vegar alveg ljóst að allir þessir samningar sem verið er að gera munu takmarka orkuna enn frekar í kerfinu.

Í áttunda lagi spurði hv. þm. hvað liði úrvinnslu á áli sem lofað var við umræðuna um stækkun Ísals. Ég skipaði fljótlega, eftir að sú umræða fór fram, nefnd til þess að kanna möguleika á nýtingu á áli hér á landi. Formaður þeirrar nefndar er hv. þm. Hjálmar Árnason. Sú nefnd er að störfum og hefur m.a. fengið í heimsókn erlenda aðila frá Þýskalandi til þess að kanna með hvaða hætti væri hægt að standa að þessu. (Forseti hringir.) Sú vinna er í fullum gangi og að því er unnið eftir því sem nokkur kostur er. Hver niðurstaðan af því starfi verður veit ég ekki nákvæmlega en verið er að kanna tækifæri.