Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 17:55:59 (4779)

1997-03-20 17:55:59# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[17:55]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst nokkuð leitt til þess að vita hvernig hæstv. umhvrh. bregst við þessu máli. Ástæðan er einfaldlega sú að það eru umhverfismálin sem eru umdeild í sambandi við verksmiðjuna á Grundartanga. Menn geta sagt ýmislegt um rammasamninginn eins og ég sagði hér í dag, en í grófum dráttum þá held ég að það megi fara yfir hann með hliðstæðum hætti og ég gerði og iðnn. gerir. Í öðru lagi eru það skattamálin, þau eru eins og þau eru. En staðsetningin er umdeilt mál. Og mér finnst ekki nóg fyrir hæstv. umhvrh., með fullri virðingu fyrir meiri hluta umhvn., að meiri hluti hennar sýkni ráðherrann í málinu. Ég mundi í sporum ráðherrans gera meiri kröfur vegna þess að hann verður auðvitað að styðjast við fagleg álit í þessum efnum og hérna er auðvitað bersýnilega um að ræða pólitíska niðurstöðu að talsvert miklu leyti, því miður, hjá meiri hluta umhvn.

Ég tók t.d. eftir því að þingmenn Vesturlands, einir tveir hér í dag, töluðu mjög vel um þetta mál. Ég heyrði engan þingmann Kjósarsýslu tala sérstaklega um þetta mál, heyrði þó aðeins lauslega orð hv. þm. Kristjáns Pálssonar. Ég held að menn þurfi að gera sér grein fyrir því að hér er um grafalvarlegt mál að ræða. Annars vegar þessi framtíðarsýn hæstv. iðnrh. sem gerir ráð fyrir því að álverksmiðjan á Grundartanga verði þrefölduð að stærð til ársins 2005 og hins vegar það sem hæstv. umhvrh. er að gera í umhverfismálum. Það er bara allt annað mál. Það eru gjörsamlega tvær stefnur sem þessir flokksbræður ætla sér að fara að framkvæma. Og það er leiðinlegt að hæstv. umhvrh. skuli ekki nota þingsköpin til að tjá sig um málið. Ég verða að segja það, eins og ákveðinn maður mundi hafa sagt af þessu tilefni.