Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 18:38:52 (4789)

1997-03-20 18:38:52# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[18:38]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki reynt að fría mig neinni ábyrgð á þessu máli. Ég hef verið að reyna að skýra út hvað felst í úskurði um mat á umhverfisáhrifum og aðkomu umhvrn. og umhvrh. að því leytinu til. Ég á auðvitað sæti í þessari ríkisstjórn og tek þátt í afgreiðslu og ákvarðanatöku þar og síðan í mínum þingflokki og að lokum á hv. þingi á þeim málum sem þetta varðar, þessu máli sem hér er sérstaklega til umræðu. Ég þekki auðvitað ekki nákvæmlega það ferli sem er aðdragandi að ákvörðun um staðsetningu. Við vitum að það eru nokkrir staðir þar sem hefur verið talið að ásættanlegt væri að hafa stóriðju og síðan hefur verið leitað eftir því að fá hingað erlenda fjárfesta og þeim trúlega verið bent á það hvar slík staðsetning kæmi til greina. Þegar síðan kemur að ákvörðun um það að skoða nákvæmlega hvort viðkomandi starfsemi geti farið fram á þessum stað sem hér er til umræðu --- getur álver verið starfrækt á Grundartanga? --- þá fer það í mat á umhverfisáhrium og eftir það þekkja menn ferlið. Þessu hef ég verið að reyna að lýsa.