Orkulög

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 18:43:33 (4791)

1997-03-20 18:43:33# 121. lþ. 95.4 fundur 412. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rariks í félögum) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[18:43]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á orkulögum, nr. 58 frá 29. apríl 1967, með síðari breytingum.

Tilgangur þessa lagafrumvarps er að afla lagaheimildar fyrir Rafmagnsveitur ríkisins til að stofna eða kaupa hlut í félögum með það meðal annars að markmiði að ná með sem skilvirkustum hætti að nýta þá þekkingu og búnað sem Rafmagnsveiturnar búa yfir til eflingar útflutningi á sérþekkingu í þágu fyrirtækisins sjálfs og til eflingar atvinnulífi í landinu. Hafa Rafmagnsveiturnar, bæði einar sér og í samstarfi við aðra, staðið að markaðssetningu á íslenskri sérþekkingu tengdri orkumálum en ástæða er til að opna fyrir þann möguleika einnig að Rafmagnsveiturnar geti stofnað félög eða tekið þátt í félögum um tiltekin verkefni, bæði vegna samstarfs við aðra aðila og ekki síður til takmörkunar á áhættu þar sem það á við. Þá er það einnig mikilvægt að Rafmagnsveiturnar geti staðið að og tekið þátt í rannsóknar- og þróunarverkefnum með sama hætti.

Með frv. er lagt til að með nýrri málsgrein í 61. gr. orkulaga verði Rafmagnsveitum ríkisins heimilt að hagnýta þá sérþekkingu og þann búnað sem fyrirtækið ræður yfir á sviði orkumála til útflutnings sem ekki eingöngu nýtist fyrirtækinu sjálfu heldur einnig þeim öðrum aðilum sem eru og hafa verið í samstarfi við Rafmagnsveiturnar.

Fyrirtækinu verður heimilað að selja tækniþekkingu og aðra sérþekkingu til aðila hér á landi og erlendis með því að stofna og eiga hlut í félögum.

Gert er ráð fyrir að verkefni, sem fyrirtækið ræðst í á grundvelli lagaheimildarinnar, stuðli að hagkvæmari rekstri fyrirtækisins og skili því arði.

Þar sem Rafmagnsveiturnar eru ríkisfyrirtæki og lúta umsjón ráðherra samkvæmt orkulögum er talið rétt að leita þurfi hverju sinni heimildar hans til að stofna félög eða kaupa hlut í félögum. Jafnframt þykir rétt til að stuðla að samræmi að leitað sé álits fjármálaráðherra hverju sinni.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frv. verði vísað til iðnn. og það verði afgreitt á þessu þingi.