Helgidagafriður

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 18:51:53 (4795)

1997-03-20 18:51:53# 121. lþ. 95.6 fundur 31. mál: #A helgidagafriður# (heildarlög) frv., Frsm. VS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[18:51]

Frsm. allshn. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 784 um helgidagafrið. Nefndarálitið frá hv. allshn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorstein Geirsson, Benedikt Bogason og Þórhall Ólafsson frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Elínu Vígdísi Hallvarðsdóttur, fullrúa lögreglustjórans í Reykjavík, Ingibjörgu R. Guðmundsdóttur frá Landssambandi íslenskra verslunarmanna, Jónas Hvannberg frá Sambandi veitinga- og gistihúsa, Björn Inga Hrafnsson frá Sambíóunum og Guðmund Sigurðsson frá Samkeppnisstofnun. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá lögreglustjóranum í Reykjavík, Landssambandi íslenskra verslunarmanna, Félagi starfsfólks í veitingahúsum og Valbirni Steingrímssyni. Einnig studdist nefndin við umsagnir sem henni bárust um málið á 120. löggjafarþingi.

Frumvarpið felur í sér allnokkra rýmkun á heimildum til ýmiss konar starfsemi á helgidögum og hefur verið rætt ítarlega um það í nefndinni hversu rúmar slíkar heimildir eigi að vera og á hvaða dögum þær eigi að gilda. Komu þar helst fram þau sjónarmið að leitast við að tryggja friðhelgi heimila og helgihald jólanna eins og frekast væri unnt, en hafa víðtækari heimildir fyrir ýmiss konar starfsemi um páska, en það er sá tími sem algengt er að fjölskyldur nýti til ferðalaga og afþreyingar.

Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum sem gerð er tillaga um á þskj. 785.

1. Með breytingartillögu við 2. gr. er lagt til að jóladagur til kl. 6.00 að morgni næsta dags falli undir 3. tölul. 2. gr. ásamt aðfangadegi í stað 2. tölul. áður. Jafnframt er lagt til að mun þrengri undanþágur frá helgidagafriði verði heimilaðar á þessum helgidögum þjóðkirkjunnar en á helgidögum skv. 2. tölul.

2. Nokkrar breytingar eru lagðar til við 5. gr. frumvarpsins. Miða þær m.a. að því að þrengja undanþágur á aðfangadegi jóla og jóladegi. Vegna þessa er lagt til að þær undanþágur sem fram koma í 1. mgr. nái aðeins til helgidaga skv. 2. tölul. og jafnframt að ný málsgrein bætist við greinina þar sem taldar eru undanþágur frá helgidagafriði á aðfangadag og jóladag. Þær undanþágur heimila lágmarksgrunnþjónustu og er þar sérstaklega tekið mið af þörfum ferðamanna. Með þessari breytingartillögu er verið að tryggja helgihald jólanna, en þær víðtæku undanþágur sem gert er ráð fyrir í 1. mgr. 5. gr. þykja ekki samræmanlegar því markmiði.

Í 1. tölul. 5. gr. er lagt til að felld verði niður heimild til að hafa verslanir með neyðarbúnað opnar, en ekki þykir ljóst við hvaða verslanir er átt.

Loks er lagt til að undanþága 3. tölul. 5. gr. verði ekki bundin við listviðburði sem hafa sígilt listrænt gildi, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Mat á gildi listviðburða er væntanlega mjög erfitt í framkvæmd og hætta á að misræmi skapist milli byggðarlaga, auk þess sem ekki þykir ástæða til að gera tegundum listsköpunar mishátt undir höfði. Einnig þykir nefndinni rétt að undanþágan nái einnig til kvikmyndasýninga þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að leiksýningar verði heimilaðar og ekki þykja rök fyrir því að gera upp á milli þessara listgreina.

Sólveig Pétursdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir nefndarálitið rita auk þeirrar sem hér stendur Hjálmar Jónsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Árni R. Árnason, Jón Kristjánsson, Ögmundur Jónasson, Kristján Pálsson og Guðný Guðbjörnsdóttir.