Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 11:32:47 (4809)

1997-03-21 11:32:47# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., SF
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[11:32]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég fagna því frv. sem við erum að ræða alveg sérstaklega og þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að hafa komið því fram. Þrátt fyrir að ekki sé búið að taka á sjálfstæðum rétti feðra, þá er engin ástæða til þess að bíða eftir þeirri niðurstöðu og mjög gott að fá þetta fram núna og taka þetta í skrefum.

Hér er að sjálfsögðu um mikla réttarbót að ræða fyrir þó nokkurn hóp foreldra og barna. Í þessu frv. er tekið á sex atriðum má segja. Það er m.a. verið að lengja fæðingarorlofið ef um alvarlega sjúkdóma barns er að ræða, einnig ef móðirin er alvarlega veik. Það er verið að auka rétt þeirra sem taka börn sem eru yngri en fimm ára í fóstur og það er einnig tekið hér á skilgreiningu varðandi andvana fædd börn.

Þau atriði sem mér finnst kannski merkilegust hér eru þau sem snúa að fjölburum og fyrirburum. Í frv. kemur fram að fyrir hvern fjölbura á maður ekki að fá einn mánuð aukalega eins og er í dag heldur þrjá mánuði, einnig ef um fleiri en eitt fósturbarn er að ræða. Við getum tekið dæmi af tvíburum. Í staðinn fyrir sjö mánuði eins og er í dag, þá verður fæðingarorlof níu mánuðir eftir að frv. verður að lögum. Ef um þríbura er að ræða þá er það átta mánuðir í dag en mundi verða eitt ár verði frv. samþykkt. Að vísu liggjum við langt á eftir öðrum Norðurlöndum varðandi fæðingarorlofið. Í Svíþjóð t.d. mundi móðir þríbura fá þriggja ára fæðingarorlof. Hér er það einungis ár þó að við séum samt að bæta réttarstöðuna talsvert.

Varðandi veik börn, þá er samkvæmt frv. verið að leggja til að ef börn þurfa liggja umfram sjö daga á spítalanum muni fæðingarorlofið lengjast hlutfallslega miðað við innlögnina í allt að fjóra mánuði, sem þýðir að t.d. foreldrar fyrirbura sem þurfa að vera talsverðan tíma inni á sjúkrahúsi geta fengið upp undir eitt ár í fæðingarorlof. Þetta er afar mikil réttarbót vegna þess að hér hefur fjölburafæðingum verið að fjölga mjög mikið. Það hefur komið fram í skýrslum að á árabilinu 1985--1990, sem sagt á fimm árum, voru tvíburafæðingar hér á Íslandi 242. Hins vegar fjölgaði þeim stórlega eftir 1990 og á fimm ára tímabili frá 1990--1995 voru þær orðnar 361. Það er kannski enn þá meira sláandi að skoða þríburafæðingar. Á fimm ára tímabili frá 1985--1990 voru þær sex samtals, en á fimm árum þar á eftir, þ.e. 1990--1995, urðu þær 16 þannig að þeim fjölgaði úr 6 í 16. Þetta hefur að sjálfsögðu gerst að mestu leyti vegna starfsemi glasafrjóvgunardeildarinnar en árangur þar hefur verið afar góður, mun betri en gengur og gerist erlendis. Sá árangur náðist strax við opnun deildarinnar. Það þurfti ekki mikinn aðlögunartíma þar og reynslutíma. Þjónustan þar er afar góð og árangur eftir því.

Vegna þessarar fjölgunar í fjölburafæðingum hefur álagið verið miklu meira núna hin seinni ár á vökudeild Ríkisspítalanna heldur en áður af því að fjölburar verða oft fyrirburar því að konurnar ganga ekki fulla meðgöngu með fjölburana. Álagið á vökudeildinni hefur aukist stórlega. Við erum með eina bestu vökudeild í heimi, hún hefur náð bestum árangri í heimi. Þar er ungbarnadauði afar lágur og allur árangur mjög góður sem undirstrikar kannski það sem oft hefur verið rætt í þinginu, hvort sameina eigi Sjúkrahús Reykjavíkur og Ríkisspítalana. Það hefur verið mín skoðun að það væri æskilegt að gera það til þess að spara fjármagn í heilbrigðisþjónustunni en það hefur ekki verið pólitísk samstaða um slíkt. Vökudeildin hefur enga samkeppni. Þetta er eina deildin í landinu. (Gripið fram í: Einkavæðum hana.) Og þó að hún hafi ekki samkeppni, þá er hún ein sú besta í heimi. Þannig að mér finnst að þau rök að hér verði að vera tveir stórir spítalar á höfuðborgarsvæðinu sem þjóni landinu vegna þess að þá tryggjum við samkeppni og góða þjónustu falli um sjálf sig þegar maður skoðar vökudeildina og árangurinn sem þar er náð.

Fyrir stuttu síðan kom grein í Morgunblaðinu varðandi einn fyrirbura. Það er léttasti fyrirburinn sem hefur komist af hér á Íslandi, Saga Einarsdóttir sem fæddist á síðasta ári. Reynsla vökudeildar varðandi hana sýnir hvað starfið þar er mikilvægt. Stúlkan vó 524 grömm, hún var rúmar tvær merkur og þetta er allra léttasta barn sem hefur komist af hér á Íslandi. Það er að sjálfsögðu einungis vegna þess hvað við höfum bæði fullkomin tæki þar og góða lækna. Þó að aðstaðan sé að vísu mjög þröng, þá höfum við náð þessum árangri. Í þessu viðtali í Morgunblaðinu er rætt við foreldra stúlkunnar og þar kemur mjög sterkt fram að þeim finnst að það verði að marka betri stefnu gagnvart fyrirburum og fæðingarorlofi þeirra sem eignast fyrirbura. Þau segja, með leyfi forseta:

,,Okkur finnst eðlilegt að sú stefna verði mörkuð og foreldrar fyrirbura fái t.d. árs fæðingarorlof enda hvetja læknar fyrirburaforeldra til að vera sem lengst heima með börnunum.``

Í þessu frv. er einmitt verið að leggja til að slíkir fyrirburar geti verið heima í upp undir eitt ár eftir því hvað þeir eru lengi á sjúkrahúsinu.

Það er líka ánægjulegt að sjá að í frv. er ákvæði til bráðabirgða þannig að það er afturvirkt. Þau réttarkjör sem í frv. eru eru afturvirk þannig að þeir sem voru í fæðingarorlofi um áramótin síðustu eiga rétt á að fá þessa réttarbót ef frv. fer í gegn. Mér barst einmitt bréf frá þremur konum sem eiga fyrirbura og eru núna í fæðingarorlofi. Þar biðja þær hæstv. heilbrrh. að gera þetta afturvirkt og þær segja, með leyfi forseta:

,,Meðfylgjandi er bréf sem sent var til ráðherra frá þremur fyrirburamæðrum og værum við þakklátar ef þú hefðir tíma til að lesa það og mundir gefa okkur stuðning þinn við umfjöllun þessa mikilvæga máls.``

Það er einmitt búið að gera það í þessu bráðabirgðaákvæði sem er afar jákvætt. Ég býst við að þetta frv. fari hér í gegn þar sem mér heyrist að allir hafi tekið mjög vel undir það. Ég vil þakka sérstaklega hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að hafa sagt að hann muni beita sér sem formaður heilbr.- og trn. til að koma þessu máli hratt og vel í gegn og það er vonandi að það eigi við um fleiri stór hagsmunamál sem liggja inni í heilbrrn. þingsins nú um þessar mundir, eins og réttindi sjúklinga og frv. um áfengis- og vímuvarnaráð.

Varðandi fæðingarorlofið almennt, þá er það alveg rétt sem hér hefur líka komið fram að þetta er einungis skref í áttina, ágætt skref að vísu en það þarf miklu meira til. En nú eru kjarasamningar og eitthvað hefur gengið illa að semja, en maður hefur svo sannarlega heyrt afar lítið fara fyrir því að þeir sem eru að semja um kaup og kjör séu að ræða um fæðingarorlof. Það hefur eiginlega ekkert heyrst um það. Það hefur heldur ekki heyrst mikið um launajafnrétti kynjanna. Að vísu hefur þetta verið svona hingað til, en þetta er afar svekkjandi fyrir konur sem vita að þessi mál eru ekki í nógu góðum farvegi, hvorki fæðingarorlofið, þar þarf að gera miklu betur, né launajafnrétti kynjanna. Það er 11% kynbundinn launamunur á vinnumarkaðnum. Allar rannsóknir hafa sýnt það en samt virðast aðilar vinnumarkaðarins ekki hafa tekið þetta neitt sérstaklega upp.

Ég vil að lokum þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að hafa komið með þetta mál inn í þingið þrátt fyrir það að vinnan sé ekki búin að öllu leyti.