Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 11:43:30 (4810)

1997-03-21 11:43:30# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[11:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 4. þm. Reykn. fyrir framsögu hennar um fæðingarorlofsmálin og það að hún telji að þetta sé aðeins skref í áttina sem ég held að við séum alveg sammála um. En ég vil gjarnan fá álit hv. þm., varaformanns heilbr.- og trn. og 4. þm. Reykn., á því atriði sem ég nefndi áðan sem eru ferðareglur fyrir foreldra sjúkra barna eða fyrirbura. Telur hv. þm. það eðlilegt að greidd sé ein ferð í viku? Nú veit ég að máli sambærilegu því sem ég lýsti áðan í ræðu minni, um að fá greiðslur daglega fyrir að heimsækja barn einmitt úr kjördæmi hv. þm., þ.e. frá Keflavík, hefur verið áfrýjað til tryggingaráðs en ekkert svar fengist. Bæði dæmin sem ég nefndi áðan voru einmitt þaðan. Það voru um það bil 100 km á dag sem foreldrarnir þurftu að fara og meira, því að t.d. tvíburamóðir sem er með annað barnið á vökudeild og þarf að sinna því og gefa því mjólk reglulega þarf að fara oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á dag til Reykjavíkur til þess. Því vil ég gjarnan fá það fram hér hver afstaða hv. þm. er til þess að nauðsynlegt sé að breyta þessum reglum og hvort við eigum að taka það upp í heilbr.- og trn. í nefndaráliti að það verði gert samfara því að við samþykkjum þetta frv. heilbrrh.