Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 12:29:50 (4821)

1997-03-21 12:29:50# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[12:29]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Nú er það að vísu svo að ég tek undir það sem hv. þm. sagði um hv. þm. Guðna Ágústsson. Hann er eins og ég kominn af fátæku tómthúsfólki á Eyrarbakka þar sem fjölskyldurnar voru barnmargar og skilur þess vegna e.t.v. betur heldur en margar konur í Framsfl. eðli jafnréttisbaráttunnar. Það er nefnilega að koma í ljós hér á þessum morgni að karlarnir hér í salnum skilja eðli baráttunnar betur heldur en konurnar í Framsfl. En það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að koma hingað upp og monta sig af því að hafa náð í gegn einhverri áætlun um jafnrétti kynjanna innan Framsfl. Við félagar hennar hér í salnum höfum ekki séð mikil merki þess af framgangi kvenna innan Framsfl. og skiptir kannski ekki miklu máli.

Hv. þm. spurði: Hvað gerði Össur Skarphéðinsson þegar hann var umhvrh. í síðustu ríkisstjórn? Það er rétt að rifja það aðeins upp. Hv. þm. getur farið yfir það sem fyrrv. umhvrh. gerði varðandi ráðningar embættismanna og hann getur borið saman hlutföll kynjanna meðal t.d. þeirra yfirmanna sem þáv. umhvrh. skipaði yfir stofnanir ráðuneytisins og hann getur borið það saman við yfirmenn stofnana sem framsóknarmenn hafa skipað á þessu kjörtímabili. Ég held ég yrði giska glaður yfir niðurstöðu þess samanburðar.

En að öðru leyti, herra forseti, hvað gerði fyrrv. umhvrh. í tíð síðustu ríkisstjórnar? Hann studdi t.d. núv. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í baráttu sinni fyrir því að koma í gegn áætlun, áætlun sem m.a. fól það í sér að á framkvæmdartíma áætlunarinnar yrði hrint í framkvæmd fæðingarorlofi feðra. Það var hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sem kom því í gegn, það var Alþfl. sem kom því í gegn, en það er Framsfl. sem er að gera þetta merka frumkvæði að engu á þessu kjörtímabili eins og svo mörg önnur kosningaloforð Framsfl. sem eru að falla í glatkistuna og verða að engu vegna þess að það er leitun að því loforði sem Framsfl. hefur efnt og ætlar að efna.