Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 12:35:21 (4824)

1997-03-21 12:35:21# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[12:35]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Þessi umræða er fyrst og fremst um breytingar á fæðingarorlofi gagnvart fjölburum og veikindum og það er mjög brýnt og mjög nauðsynlegt að það nái fram. Ég gleðst yfir þeim stuðningi sem hv. formaður heilbr.- og trn. hefur lýst hér yfir, þ.e. að hann muni veita þessu máli framgang í nefndinni og koma þar fljótt fram með niðurstöðu. Umræðurnar hér hafa spunnist nokkuð mikið um jafnrétti karla og kvenna. Og þó að það sé kannski ekki alveg skylt þessu máli þá er það að sjálfsögðu skylt fæðingarorlofinu sem slíku og ég hef margoft bent á það.

Jafnrétti karla og kvenna byggir fyrst og fremst á réttlæti. Okkur þykir slæmt að misrétti skuli vera milli fólks. Við karlar hugsum til systra vorra, mæðra og dætra og við viljum ekki að þær lendi í þeirri stöðu að þeim sé synjað bara vegna kynferðis.

Hins vegar hef ég svo sem oft bent á að þetta er ekki spurningin um jafnrétti milli karla og kvenna og kannski að sú pólarísering eða það að benda á það atriði, kannski villir það um fyrir mönnum í því að við erum í rauninni að tala um misrétti milli fólks. Sú umræða hefur komið upp undanfarna daga í fjölmiðlum að það sé lagalega í lagi að mismuna á milli tveggja karla og það sé í lagi að mismuna á milli tveggja kvenna en það megi ekki mismuna á milli karls og konu. Þetta er náttúrlega dálítið undarleg niðurstaða en þetta orðin niðurstaðan.

Það eru fleiri þættir í sambandi við jafnrétti heldur en bara réttlæti. Við erum að berjast við fordóma og það eru fordómar, eins og ég hef margoft nefnt, karla gagnvart konum, kvenna gagnvart konum og gagnvart sjálfum sér. Og þessir fordómar eru svo harðir að þó að karlmenn eigi rétt til fæðingarorlofs í dag þá taka þeir það ekki, þeir nýta ekki þennan rétt sinn heldur er það nánast undantekningarlaust að konur taka fæðingarorlofið.

Áhrif fæðingarorlofs á jafnrétti karla og kvenna og þá er ég að tala um launajafnrétti, eru eftirfarandi: Nú skulum við, hv. þm., setja okkur í þau spor að við séum að ráða fólk í vinnu, 27 ára gamalt fólk nýkomið úr háskóla. Þau sitja þarna fyrir framan okkur, kona og maður á þessum aldri, og við förum að hugleiða að ef við ráðum konuna þá eru svona 70--80% líkur á því að hún muni fara í fæðingarorlof, sex mánaða fæðingarorlof, á næstu fimm árum og það kostar fyrirtækið, sérstaklega lítil fyrirtæki, lifandis býsn að missa manneskju úr starfi í sex mánuði, þurfa að endurmennta nýjan starfsmann o.s.frv. Þannig að við munum ráða karlmanninn frekar, bara út af efnahagslegum ástæðum. Við ráðum karlinn frekar vegna þess að hann mun verða ódýrari til lengdar út af fæðingarorlofinu. Við vitum að hann fer ekki í fæðingarorlof. Þetta hefur óneitanlega og örugglega áhrif á mismun launa hjá konum og körlum.

Hvernig lögum við þetta? Nú, að sjálfsögðu með því að láta karlmenn taka hluta af fæðingarorlofinu líka. Það er bara hrein og klár rökrétt afleiðing að við þurfum, ég vil kannski ekki segja að þvinga karlmenn, en gera það svo aðlaðandi fyrir hjónin eða parið að karlmaðurinn taki sinn skerf af fæðingarorlofinu. Þegar sú staða er komin upp að atvinnurekandinn á von á því að það séu jafnmiklar líkur á að hvort um sig fari í fæðingarorlof þá mun sá þáttur í launamisrétti kynjanna hverfa.

Þriðja atriðið sem kannski er mikilvægt í sambandi við það að karlar fari í fæðingarorlof er að þeir kynnast börnunum sínum og það er mjög verðmætt. Það er verðmætt fyrir börnin og það er sérstaklega verðmætt fyrir föðurinn því karlmenn kynnast börnunum sínum mjög lítið og ekki þá fyrr en á seinni stigum þegar börnin eru orðin eldri og það held ég að sé mjög neikvætt. Það yrði miklu betra í öllum skilningi að karlmenn kynntust börnum sínum fyrr og ættu þátt í því að móta þau á fyrsta ári lífs þeirra.

Herra forseti. Nefnd er að störfum um þessi mál og þess vegna vonast ég til að skriður komist á þau fljótlega. En ég vildi benda á eftirfarandi. Í fyrsta lagi: Hvernig getum við breytt þjóðfélaginu þannig að báðir foreldrar geti séð um börnin? Það er svona hugljómun sem ég ætla að útlista hér. Það væri t.d. fólgið í því að atvinnulífinu yrði skipt þannig að dagvinnutíminn væri miklu sveigjanlegri en hann er nú.

Ég get alveg séð fyrir mér að annað foreldrið vinni frá segjum kl. sjö að morgni til tólf á hádegi og þá sé vinnudeginum lokið og hitt foreldrið taki þá við og vinni frá tólf til sjö og þannig sé búið að skipta vinnudeginum upp og þau séu heima hjá börnunum afganginn af vinnudeginum. Á þessum tíma gætu þau hugsanlega afkastað nánast jafnmiklu og þau gera nú allan vinnudaginn. Þetta yrði þjóðhagslega mjög hagkvæmt vegna þess að þá þyrftu menn ekki barnaheimili í sama mæli og nú og barnaheimilin yrðu þá meira til þess að kenna börnunum heldur en til að geyma þau. Það mundi mjög margt vinnast með þessu, betri nýting á vélum, tækjum, skrifstofuhúsnæði og öðru slíku þannig að ég vildi að menn horfðu á það hvort þessi möguleiki sé til staðar.

Svo er spurningin, herra forseti: Af hverju viljum við jafnrétti? Er þetta bara ekki ágætt svona, að hafa bara misrétti á öllum stigum eins og er í dag að það er mismunað milli karla, mismunað á milli kvenna og mismunað á milli karla og kvenna. Er þetta ekki allt í lagi? Nei, það er ekki allt í lagi vegna þess að þjóðfélagið tapar á mismununinni. Þegar ráðinn er óhæfari einstaklingur en annar sem er hæfari til að stýra fyrirtæki eða gegna einhverri stöðu, þá tapar fyrirtækið örugglega á því. Fyrirtækið og þar með þjóðfélagið tapar á misréttinu og þess vegna er mjög brýnt og það má segja að það sé þáttur í lífskjörum þjóðarinnar, að laga jafnréttið milli fólks almennt, ekki bara milli kynja. Og þáttur í því er að breyta fæðingarorlofinu þannig að karlmenn taki það til jafns við konur. Það er þáttur í að bæta lífskjör þjóðarinnar.