Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 12:45:57 (4828)

1997-03-21 12:45:57# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[12:45]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu sem hefur nú tognað töluvert úr. Menn eru farnir að tala um sinn reynsluheim og kannski megum við þakka fyrir að ekki eru fleiri karlmenn í þingsalnum ef þeir ætluðu allir að tjá sig því þá tæki þetta nokkurn tíma. Áður en ég fer yfir þær fyrirspurnir sem fyrir mig hafa verið lagðar vil ég segja að við erum að stíga hér mikið framfaraspor. Það hafa allir verið sammála því og það er það sem skiptir máli. Við getum alltaf gert betur. Við getum alltaf gengið lengra en á meðan við stígum engin skref þá erum við ekki á réttri leið.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði áðan hvort það sé rétt að fæðingarorlof geti orðið allt að 13 mánuðir. Það er rétt og fæðingarorlof getur orðið lengra en 13 mánuðir vegna þess að ef um fjölburafæðingu er að ræða þá getur þessi tími verið lengri. Almenni rétturinn er sex mánuðir, fyrir fyrirbura eru fjórir mánuðir og vegna veikinda móður eða barns geta verið þrír til fjórir mánuðir. Ef um tvíbura eða þríbura er að ræða þá getur þessi réttur verið enn lengri.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði líka hvernig liði endurskoðun á hinum almenna fæðingarorlofsrétti. Því er til að svara að að því máli verða stéttarfélögin að koma aftur eins og þau hafa áður gert. Það er mjög nauðsynlegt og auk þess aðilar vinnumarkaðarins. Hvort stjórnmálamenn koma að því, þá koma þeir ekki að því í upphafi heldur þegar málið er komið lengra, en það hefur verið stefna mín að stjórnarandstaðan sé í sem flestum nefndum. Og stjórnarandstaðan er í öllum helstu nefndum sem eru á vegum heilbr.- og trmrn.

Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttur spurði um lögheimili, þ.e. hvort hér væri um rýmkun að ræða varðandi lögheimilisrétt. Það má segja að svo sé. Þetta gefur okkur möguleika til að taka tillit til sérstakra aðstæðna varðandi lögheimili.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir spurði nokkurra spurninga, m.a. um hvað yrði um fæðingarorlof ef um andlát barns væri að ræða. Þá er því til að svara að fæðingarorlof skerðist ekki við andlát barns.

Hv. þm. spurði einnig um vökudeildina og varð tíðrætt um þrengslin sem þar eru. Ég held að við getum lítið úr bætt fyrr en nýr barnaspítali rís. Það verður vonandi innan tíðar. Hv. þm. gerði einnig að umtalsefni að ekki hefðu borist svör við fyrirspurn sem hefur legið nokkrar vikur í heilbr.- og trmrn. varðandi fæðingarorlofsrétt á öðrum Norðurlöndum. Það svar er tilbúið og þess vegna gæti hv. þm. fengið það í dag. Það tók nokkurn tíma að fá svör frá öllum Norðurlöndunum um það sem um var spurt.

Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir spurði einnig nokkurra spurninga. Hún spurði að því hvar veikar mæður væru staddar varðandi þetta frv. Eins og fram kemur í frv. lengist orlof veikra mæðra. Hún spurði einnig um ferðakostnað og gerði að umtalsefni að aðeins er greidd ein ferð í viku. Í Tryggingastofnun er verið að endurskoða málefni langveikra barna og þar á meðal þetta atriði. En það er yfirleitt þannig að þegar börn eru á vökudeild þá er móðir hjá barninu nánast allan daginn. Sú er nú venjan. (PHB: Eða faðir.)

Hér hefur ýmsilegt verið rætt um jafnréttismál sem ég ætla ekki að gera að umtalsefni núna. Mér finnst aðalatriðið að þetta frv. komist til hv. heilbr.- og trn. og verði þar afgreitt. Við getum rætt um jafnréttismálin almennt. Það er málefni sem er ótæmandi. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson beindi ekki til mín neinum sérstökum beinum spurningum. Hann vildi að ég lýsti hér úr ræðustól yfir að feður fengju stórbættan rétt til fæðingarorlofs. Ég á von á því að það gerist. Það tekur nokkurn tíma. Hv. þm. var nú ráðherra á sinni tíð og var þá kannski ekki kominn með þann mikla reynsluheim sem hann býr yfir núna og þess vegna var kannski ekki nógu mikill kraftur í honum þá (ÖS: En ég var ekki heilbrrh.) til að breyta því sem breyta þurfti og breyta þarf. En það er unnið ötullega að því. Ég tel að hér séum við að stíga skref í rétta átt og ég vona að menn tefji þetta mál ekki með því að blanda allt of mörgum málum inn í það. Eins og ég sagði áðan er endalaust hægt að gera betur en einhvers staðar þurfum við að byrja og einhvers staðar þurfum við að enda. Menn eru sammála um að þetta er gott frv. og ég bið hv. þm. að hraða afgreiðslu þessa máls eins og hægt er.