Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 12:58:05 (4833)

1997-03-21 12:58:05# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[12:58]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt hjá hæstv. ráðherra að þetta er að hluta til samningsatriði hvað varðar fæðingarorlof. Hæstv. ráðherra orðaði það þannig að það væri ekki rétt að vera að vinna að þessu máli í allar áttir núna. Það hefði hins vegar verið mjög æskilegt að þegar þessar samningaviðræður hófust þá hefði sú nefnd sem var skipuð öllum þessum fulltrúum, fulltrúum frá launþegasamtökum m.a., lokið störfum þannig að tillögurnar hefðu legið fyrir þegar samningaviðræður hófust.

Það sem ég ætla hins vegar að spyrja um er --- í fyrsta lagi svaraði ráðherra ekki öllum mínum spurningum og það snertir þetta mál beint --- hvort hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því að réttur foreldra vegna veikinda barna verði aukinn. Það snertir þetta mál beint. Síðan vildi ég gjarnan fá upplýsingar hjá hæstv. ráðherra af því að hún segir að fæðingarorlof skerðist ekki við andlát barns. Er þá átt við þetta sex mánaða fæðingarorlof eða þessa lengingu sem hér er boðuð í frv.? Munu foreldrar eiga rétt á sama tíma, sömu lengingu, við andlát barns? Mér finnst þetta skipta máli. Við erum ekkert að tefja þetta mál vegna þess að það hefur ekki verið boðaður fundur í heilbr.- og trn. fyrr en eftir rúman hálfan mánuð þannig að við höfum allan daginn í dag til að ræða þetta mál án þess að tefja það nokkurn skapaðan hlut. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherrann fyrst og fremst um þetta tvennt.