Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 14:41:56 (4850)

1997-03-21 14:41:56# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[14:41]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Bið eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu er þungbær öllum sem að málinu koma. Hún er að sjálfsögðu örðugust þeim einstaklingum sem bíða og þarf í raun ekki að fjölyrða um það hér, allir gera sér grein fyrir því. Biðin er einnig erfið aðstandendum sem oft axla þungar byrðar. Ekki er víst að allir geri sér grein fyrir að bið einstaklinga eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu er líka erfið mörgu starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar sem þarf að láta sjúklinga sína bíða. Þá er hún stundum kostnaðarsöm fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélag. Því er að sjálfsögðu forgangsverkefni að fylgjast vel með biðlistum og bregðast við lengingu biðtíma með þeim hætti sem talinn er árangursríkastur hverju sinni.

Þeim sem ekki þekkja til mála kann að virðast að einfalt sé að stytta biðlistana eða losna við þá. Það verði gert með auknu fjármagni til viðkomandi sjúkdómaflokks. Því miður er málið engan veginn svo einfalt. Biðlistar hafa verið viðvarandi vandi á undanförnum árum hér á landi eins og annars staðar. Leitað hefur verið ýmissa leiða til að stemma stigu við lengingu þeirra. Ýmis átaksverkefni hafa verið reynd, oft með góðum árangri tímabundið, en þegar átakinu lýkur fer oft í sama horfið aftur. Þetta þrennt, þ.e. óþægindi og þjáningar einstaklinga, takmarkaður varanlegur árangur af þeim aðgerðum sem reyndar hafa verið og óljóst samband fjárveitinga og biðtímalengdar hefur leitt til þess að mikil áhersla hefur verið lögð á markvissa og faglega vinnu að biðlistamálum í heilbrigðisþjónustunni hér á landi að undanförnu til að greina vandann og skoða hugmyndir um varanlegar lausnir.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir þessari vinnu.

Í maí 1996 skipaði ég nefnd sem falið var að fjalla um biðlista eftir heilbrigðisþjónustu hér á landi. Var nefndinni falið að kynna sér fyrirkomulag biðlista í nágrannalöndum, kanna hvort þær tilraunir sem nú er verið að gera víða gagnist Íslendingum og gera tillögur til ráðherra um úrbætur í biðlistamálum hér á landi. Skýrsla sú sem hér er fylgt úr hlaði er afrakstur þeirrar vinnu.

Í október sl. lögðu 11 þingmenn fram beiðni um skýrslu frá heilbr.- og trmrh. um úttekt á áhrifum langrar biðar eftir læknisaðgerðum. Beðið var um upplýsingar um biðlista eftir aðgerðum á sjúkrahúsum og utan þeirra og áhrif biðlistanna á útgjöld hins opinbera, félagslegt öryggi og fjárhag sjúklinga og fjölskyldna þeirra sem á biðlistum eru sem og áhrif langrar biðar eftir aðgerð á framvindu sjúkdóma og sjúkdómseinkenna. Voru lagðar fram níu yfirgripsmiklar spurningar um þetta efni. Skýrslan var lögð fram í lok febrúar. Ekki reyndist unnt að svara öllum spurningum jafnítarlega og æskilegt hefði verið því skráningar á biðlista eins og þeim er nú háttað gefa ekki kost á slíkri úrvinnslu. Hins vegar er í undirbúningi ítarlegri skráning sem gerir slíkar upplýsingar aðgengilegri. Ég tel mjög mikilvægt að Alþingi taki þetta mál til málefnalegrar umfjöllunar og að hv. alþm. þekki margvíslega þætti þessa flókna máls.

[14:45]

Virðulegi forseti. Ég mun í eftirfarandi umfjöllun gera grein fyrir með hvaða hætti biðlistamálin eru til skoðunar og nokkrum staðreyndum sem vert er að hafa í huga þegar fjallað er um biðlista. Þá mun ég skýra frá þróun biðlista hér á landi og stöðu mála í ýmsum flokkum sjúkdóma. Síðan verður greint frá þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til í því skyni að minnka bið eftir þjónustu í heilbrigðiskerfinu og að lokum geri ég grein fyrir framhaldi þeirrar vinnu sem innt hefur verið af hendi.

Biðlistanefndin sem áður er getið hefur starfað frá því í maí á síðasta ári. Er lokatillagna nefndarinnar að vænta innan skamms. Landlæknisembættið hefur undanfarin ár haldið saman upplýsingum um biðlista á sérhæfðum sjúkradeildum. Landlæknir hefur gefið út skýrslur um málið nokkuð reglulega. Þessar skrár gefa upplýsingar um þróun biðlista og ná til hluta af starfsemi heilbrigðisþjónustunnar. Unnið hefur verið að samræmingu á skráningunni og eru það nauðsynlegar endurbætur. Biðlistar hafa að sjálfsögðu einnig verið til umfjöllunar í svokallaðri forgangsröðunarnefnd heilbrrh. sem unnið hefur ágætt og nauðsynlegt starf við að undirbúa skýrslu og tillögur um áherslur í heilbrigðisþjónustu á komandi árum. Nefnd sem falið var að endurskoða heilbrigðisáætlun Íslendinga, og skipuð er m.a. fyrrverandi heilbrigðisráðherrum, mun setja mælanleg markmið fyrir þennan árangur sem við ætlum að ná.

Í hinu mikilvæga frv. til laga um réttindi sjúklinga sem nú er til umfjöllunar í heilbr.- og trn. Alþingis og kemur vonandi til 2. umr. hér í þinginu innan skamms, eru tvö ákvæði er lúta að biðlistum. V. kafli 18. gr. heitir bið eftir meðferð og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Þurfi sjúklingur að bíða eftir meðferð skal heilbrigðisstarfsmaður, sem hann leitar til, gefa skýringar á biðinni ásamt upplýsingum um áætlaðan biðtíma.

Ef unnt er að fá meðferð sem sjúklingur þarfnast fyrr hjá annarri heilbrigðisstofnun eða öðrum heilbrigðisstarfsmanni er skylt að gera honum grein fyrir því.``

Þessu ákvæði er m.a. ætlað að tryggja að ekki myndist biðlistar á einu sjúkrahúsi ef unnt er að framkvæma sömu aðgerð á öðru innan skemmri tíma. Þetta mundi því hafa einhverju styttingu biðlista í för með sér. Í 19. gr. um forgangsröðun segir:

,,Ef nauðsynlegt reynist að forgangsraða sjúklingum vegna meðferðar skal fyrst og fremst byggt á læknisfræðilegum sjónarmiðum og eftir atvikum öðrum faglegum forsendum.``

Þessi grein skiptir máli fyrir þróun biðlista því lagaákvæði um faglega röðun í forgang hefur ekki verið til í löggjöf áður og mundi frv. tryggja réttarstöðu sjúklinga og hafa áhrif á hvernig raðað er á biðlista, yrði það að lögum.

Það er alveg ljóst að mikil áhersla er lögð á að vinna að þessu máli á þessu missiri. Ég mun gera grein fyrir nokkrum staðreyndum um biðlista. Minnt skal á að á biðlista eru einungis skráðir þeir sem talið er að geti beðið að undangengnu faglegu mati læknis. Bráðasjúklingar fara að sjálfsögðu ekki á biðlista. Þá er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að ný starfsemi eða ný tækni hefur oft og einatt í för með sér myndun biðlista. Það kann að hljóma þverstæðukennt en staðreyndin er sú að í þróuðum heilbrigðiskerfum þar sem stöðugt er leitast við að taka inn nýjungar og stuðla að framförum eru alls staðar biðlistar. Hjá þjóðum þar sem stöðnun ríkir eru ekki langir biðlistar. Hvergi hefur reynst mögulegt að eyða biðlistum enda er talið að það sé jafnvel ekki æskilegt. Þessu til skýringar má nefna íslenskt dæmi um bið eftir hryggspengingu. Biðin er löng, hún er of löng, en þó er það svo að við gerum mun fleiri slíkar aðgerðir hlutfallslega en nágrannaþjóðir okkar.

Því miður eru flestir biðlistar hér á landi eins og víðast annars staðar ekki nægilega áreiðanlegar heimildir um aðgengi íbúa landsins að heilbrigðisþjónustu og kemur þar margt til. Skráð hefur verið til skamms tíma á biðlista með mjög mismunandi hætti og hafa þeir verið í umsjón margra einstaklinga. Eðli margs konar þjónustu, t.d. barnalækninga, lyflækninga og geðlækninga er þannig að biðlistar myndast síður en í öðrum greinum. Biðlistar eru misjafnlega endurnýjaðir og geta því gefið villandi mynd þótt skráning hafi batnað verulega undanfarin ár. Þá hefur verið tíðkað hér í sumum sérgreinum að setja fólk á biðlista sem t.d. þarfnast eftirlits að einhverjum tíma liðnum en er ekki beinlínis að bíða eftir ákveðinni aðgerð eða þjónustu í venjulegum skilningi. Sumir biðlistar eru uppfærðir reglulega og þar forgangsraðað, t.d. biðlistar eftir hjartaþræðingum, og eru lýsandi fyrir þörfina eins og hún raunverulega er. Forgangsröðun á biðlista eftir þörf er réttlætismál en mat og samanburður á þörf er að sjálfsögðu erfitt í framkvæmd. Aðalatriðið er að fólki sé ekki mismunað eftir t.d. stétt, þjóðfélagsstöðu eða tengslum en athuganir hafa ekki bent til að um slíka mismunun sé að ræða.

Stuttir biðlistar eftir ýmsum aðgerðum eða jafnvel engir segja ekki alltaf alla söguna. Hugsanlega eru skilmerki fyrir aðgerð orðin mjög víðfeðm, þ.e. til aðgerða er gripið í tilvikum þar sem aðrir staðir, önnur sjúkrahús eða aðrir læknar mundu nota aðra tækni. Sums staðar hefur því verið reynt að skilgreina eðlilega eða ásættanlega lengd biðar fyrir tiltekna sjúklinga.

Að þessu sögðu um skráningu biðlista hér á landi vil ég ítreka að ekki er verið að gera lítið úr vandanum heldur benda á mikilvægi þess að skráning sé samræmd, nákvæm, í stöðugri endurskoðun, forgangsröðuð og gefi raunsanna mynd á hverjum tíma á þeim vanda sem við er að glíma. Takist okkur að skipuleggja biðlistana eins og stefnt er að geta þeir reynst ómetanlegt hjálpartæki við skipulag heilbrigðisþjónustu. Þeir varpa þá ljósi á þörfina og geta leitt til betri nýtingar og úrræða. Þá geta þeir haft í för með sér hagræðingu með markvissari úthlutun fjármagns og nýst sem stjórntæki við ýmsar ákvarðanir.

Í framlagðri skýrslu minni er gerð grein fyrir þróun biðlista hér á landi. Á Íslandi eru gerðar a.m.k. jafnmargar aðgerðir við flestum vandamálum á 100 þúsund íbúa og annars staðar, jafnvel nokkuð fleiri. Dæmi eru þess að ákveðnar aðgerðir séu hér allt að þrisvar til fjórum sinnum algengari en í nágrannalöndunum. En þar er þó hugsanlega, í einhverjum tilvikum, verið að taka upp aðgerðir sem ekki hafa verið gerðar hérlendis áður.

Ekki gefst kostur á að fjalla um nema hluta skýrslunnar og tímans vegna einskorða ég mál mitt við þá sjúkdómsflokka sem kvað mestum erfiðleikum er háð að sinna án langrar biðar. Jafnframt geri ég grein fyrir þeim aðferðum sem verið er að beita eða fyrirhugað er að beita til þess að stytta biðlistana á hverju sviði. Aðferðirnar eru margvíslegar og endurspegla að ekki er um einfaldan vanda að ræða.

Of löng bið hefur verið eftir bæklunaraðgerðum hér nú um nokkurra ára skeið. Um 1.400 manns voru á biðlistum árið 1996. Biðlistinn skiptist eftir eðli aðgerða í þungar aðgerðir, miðlungs þungar og léttar. Þeir sem bíða eftir þungum aðgerðum eru á milli 400--500 manns.

Eins og áður hefur verið minnst á eru hryggspengingar algengari hér en víðast annars staðar. Fjöldi brjósklosaðgerða hér er einnig meiri en á Norðurlöndum. Unnið er að nýjum viðmiðunarreglum um þessar aðgerðir á vegum landlæknisembættisins. Margt þarf að koma til svo að stytta megi biðlistana eftir bæklunaraðgerðum, endurskipuleggja þarf forgangsröðun innan sjúkrahúsanna sjálfra. Nýta þarf betur möguleika sjúkrahúsanna úti á landi og gera þar smærri aðgerðir. Gera þarf sérstakt átak til að minnka kúf sem myndast hefur og er þegar byrjað að vinna að því.

Opnun nýrrar hjartarannsóknarstofu sem áformað er að taki til starfa í vor á Landspítalanum mun bæta aðstæður fyrir hjartaaðgerðir og kransæðavíkkanir til muna. Sérfræðingar á þessu sviði telja að þá komist þeir biðlistar í enn betra horf og ekki líklegt að þeir reynist erfiðir viðureignar eftir þá breytingu. Síðustu fimm ár hefur aðgerðafjöldi vegna kransæðaþrengsla verið svipaður ár frá ári en til viðbótar aðgerðum fyrir þennan sjúklingahóp hafa komið kransæðavíkkanir þannig að í heild er mun meira gert.

Sérfræðingar í þvagfæraskurðlækningum telja ástandið í þeim sjúkdómaflokki viðunandi og hefur tekist sl. þrjú ár að halda biðlista innan þeirra marka sem ásættanlegt má teljast.

Biðlistar eftir háls- nef- og eyrnaaðgerðum á sjúkrahúsum í Reykjavík hafa ekki styst. Í undirbúningi er að fjölga aðgerðadögum um einn í viku til að stytta biðtíma.

Biðlistar fyrir almennar skurðlækningar hafa lengst á síðustu árum, einkum á Landspítala, en enginn slíkur listi er á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Ný og fljótvirkari tækni í ýmsum aðgerðum hefur í því tilviki aukið væntingar fólks og aðgerðum hefur fjölgað.

Á biðlista eftir lýtalækningaaðgerðum eru rúmlega 600 manns. Opnun lýtalækningadeildar er í undirbúningi á Landspítalanum og er ekki talin þörf annarra aðgerða að svo stöddu. Opnun deildarinnar mun líka hafa þau áhrif að almennar handlækningar munu fá meira svigrúm því deildin fær aukið rými þar sem lýtalækningadeildin hefur hingað til verið til húsa.

Styrkja þarf ýmis úrræði fyrir geðsjúka, ekki síst fyrir börn og unglinga með geðræna kvilla. Sérstakar fjárveitingar til barna- og unglingageðdeildarinnar hafa létt róðurinn með auknum tækifærum til fjölgunar sérfræðinga á sl. ári, en enn er við vanda að glíma.

Á biðlista eftir hjúkrunarrými fyrir aldraða eru um 145 manns í Reykjavík. Þar af fá nú 60 manns þjónustu á öldrunarlækningadeildum bráðasjúkrahúsanna á Reykjavíkursvæðinu en raunverulega bíða heima í kringum 85 manns. Notað er vistunarmat aldraðra til þess að meta þörf fyrri innlögn en það er í raun forgangsröðun sem tekur mið af læknisfræðilegum og öðrum faglegum viðmiðunum. Mjög misjafnt er eftir byggðarlögum hver þörfin og biðin er eftir hjúkrunarrými. Sums staðar tekst ekki að fylla þau rými sem til eru. Í Reykjavík verður opnað nýtt hjúkrunarheimili nú í vor sem þjóna mun 70 einstaklingum þegar það er komið að fullu í not. Verið er að undirbúa breytingu Víðinessheimilisins í hjúkrunarheimili. Verður þetta allt góð viðbót þegar það er komið í not. Ég vil líka benda á að um þessar mundir er að hefjast bygging við vistheimilið Ás í Hveragerði en þar á að byggja hjúkrunarheimili fyrir 30 aldraða.

Sjúkrahúsin úti á landsbyggðinni hafa yfirleitt enga biðlista og er unnið að því að nýta þessar stofnanir betur.

Ég hef fjallað um biðlista hér á landi sem erfiðastir hafa reynst viðfangs og greint hv. alþm. frá nokkrum af þeim aðgerðum sem verið er að grípa til styttingar þeirra. Við höfum skoðað það sem nágrannaþjóðir okkar eiga við að glíma í þessum efnum og skoðað biðlistana á öllum Norðurlöndunum og má segja að þrátt fyrir að þeir hafi gripið til ýmissa úrræða, eru þeir ekki í minni vanda en við.

Virðulegi forseti. Eitt af aðalsmerkjum góðrar heilbrigðisþjónustu er að tryggja sjúklingum sem sambærilegasta þjónustu og að þeim sé ekki mismunað. Því er lögð þung áhersla á það að aðgengi heilbrigðisstofnana sé sem best og jöfnast og þeir sem þurfa á þjónustunni að halda fái hana með eins skjótum og skilvirkum hætti og unnt er. Íslensk heilbrigðisþjónusta er að flestra mati góð. Þó er ljóst að við getum gert mun betur á nokkrum sviðum og það þarf að taka á. Stytting biðtíma fyrir ýmiss konar þjónustu er forgangsverkefni. Undanfarin ár hafa afköst í íslenska heilbrigðiskerfinu stöðugt aukist og árangur okkar er góður ef litið er til annarra þjóða. Biðin eftir nokkrum aðgerðum og þjónustu er hins vegar lengri en við viljum við una. Bæklunaraðgerðir eru þar erfiðastar við að eiga eins og fram hefur komið og er unnið að því að stytta þá biðlista. Verið er að fjölga aðgerðum á Akureyri, Akranesi og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Áformað er að nota hluta af 100 millj. kr. hagræðingarsjóði sjúkrahúsanna í Reykjavík til að fjölga aðgerðum.

[15:00]

Mjög mikið hefur unnist í biðlistamálum að undanförnu. Starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar á miklar þakkir skildar fyrir hve vel það hefur axlað þá ábyrgð sem á herðar þess hefur verið lögð. Mikið starf hefur verið unnið og framleiðni er líka mikil. Árangurinn sést víða.

En svo ég taki saman það helsta sem verið er að gera um þessar mundir varðandi biðlistana þá er áætlað að nýta þær 100 millj. kr. sem eru í hagræðingarsjóði fyrir sjúkrahúsin hér á Reykjavíkursvæðinu til að stytta biðlista, sérstaklega hvað varðar bæklunaraðgerðir. Í öðru lagi eru nýttar 30 millj. kr. til lýtalækningadeildar til að opna lýtalækningadeildina og um leið getum við nýtt betur almennu handlæknisdeildina sem lýtalækningadeildin hefur hingað til verið hýst í og stytt þar með biðlista í almennar skurðaðgerðir. Með opnun hjartarannsóknastofunnar í vor ættum við að ná algjörlega utan um þá biðlista sem eru í hjartaaðgerðir, en við höfum þegar náð verulegum árangri þar því fyrir einu og hálfi ári síðan biðu 270 sjúklingar eftir hjartaaðgerð en sem betur fer eru þeir í dag á milli 30--40. Þeim hefur fækkað verulega en sérstakt átak var gert varðandi þá biðlista.

Eins og fram hefur komið er fjölgun hjúkrunarrýma væntanleg og það strax í vor hér á Reykjavíkursvæðinu. Með bættu samstarfi sjúkrahúsanna á Reykjavíkursvæðinu næst betri nýting fjármuna, mannafla og tæknibúnaðar. Unnið er að betri skráningu biðlista og við reynum að stýra biðlistunum þar sem minni biðlistar eru. Það er stefnt að auknum réttindum sjúklinga með því að koma í gegnum þingið því réttindafrumvarpi sem liggur fyrir heilbr.- og trn.

Virðulegi forseti. Með samstilltu átaki og þeim aðgerðum sem lýst hefur verið hér að framan mun okkur væntanlega takast að hafa áhrif á að stytta biðtíma. Hafa ber í huga að allur árangur í þessu efni getur létt einstaklingum lífið til mikilla muna. Því er til mikils að vinna. Ég þakka hv. alþm., er óskuðu eftir skýrslu um biðlista í heilbrigðisþjónustu, fyrir áhuga á þessu máli.