Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 15:42:20 (4854)

1997-03-21 15:42:20# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[15:42]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka fyrir þessa skýrslu sem hér hefur verið lögð fram. Í henni er að finna margvíslegar upplýsingar. En ég get tekið undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram varðandi mat á því hvað þessir biðlistar þýða. Ég held að það væri afar þýðingarmikið að átta sig á því hvað það kostar þegar hundruð sjúklinga eða hundruð manna sem bíða eftir aðgerðum af ýmsu tagi eða hreinlega að komast í meðferð, þegar það fólk verður að vera á lyfjum, missir vinnu og allt það sem þessu fylgir. Hvað kostar þetta samfélagið og hver er sparnaðurinn? Það er auðvitað sparnaður sem ég tel að sé meginorsökin fyrir þeim mörgu biðlistum sem hér er að finna.

Nú má um það deila hvað er langur biðlisti, hvað er hugsanlega eðlilegur biðlisti, ef tala má um slíkt. Það er afar erfitt að leggja mat á það en ég held að það sé ekki hægt að horfa fram hjá því að á nokkrum sviðum eru biðlistar eins og þeir standa nú, allt of langir og þar eru þessar háu tölur þeirra sem bíða eftir bæklunaraðgerðum himinhrópandi, 1.300 manns samkvæmt síðustu tölum.

Nú er nauðsynlegt að greina þessar tölur niður og líka að reyna að átta sig á því hvers vegna það ástand ríkir hér á landi að 1.300 manns bíða eftir bæklunaraðgerðum. Þá er ég ekki síst að horfa á þá hlið sem snýr að fólkinu sjálfu og ég spyr: Hvað er það sem býr að baki? Hvers vegna eru svona margir í þessari neyð og þá minnist ég þess að þegar við nokkrir þingmenn fórum í heimsókn á Landspítalann í haust að verið var að spyrja einn sérfræðinganna í bæklunarlækningum um það hvaða hópur þarna væri á ferð og það vakti athygli mína að hann sagði að þarna væri býsna stór hópur karlmanna á aldrinum 30--40 ára, verkamenn. Það er þetta að vinnuslit og ýmsar afleiðingar hins langa vinnutíma hér á landi eru að koma fram þannig að það er ekki aðeins að vinnutímatilskipun Evrópusambandsins muni hafa hugsanleg áhrif innan spítalanna sem er auðvitað hárrétt ábending hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni heldur finnst mér að þessi hlið, þetta mikla vinnuálag og þar af leiðandi þeir miklu álagssjúkdómar sem er að finna hér á landi hafi einnig ekki svo lítil áhrif á heilbrigðiskerfið og birtist það m.a. í þessum langa, langa lista. Ég ætla að slá þessu hér fram.

Þessir biðlistar sem við eigum við að stríða hér á landi eru mjög mismunandi alvarlegir. Það er einn þeirra sem ég vil gera sérstaklega að umtalsefni. Ég hef mjög stuttan tíma. Það mætti tala um þetta margt og ég vil ekki síst vekja athygli á þeim fjölda kvenna sem bíður eftir lýtaaðgerðum, m.a. brjóstaminnkun. Þar hefur verið mjög langur biðlisti og allt upp í þriggja ára bið. Þetta er algerlega óviðunandi og stafar m.a. af því að lýtalækningadeildin á Landspítalanum hefur verið lokuð um alllangt skeið. En sá biðlisti sem ég vil vekja sérstaka athygli á er ekki sá lengsti en kannski sá allra alvarlegasti, þ.e. biðlistinn á geðdeildunum, fjöldi þeirra sem bíða eftir meðferð á geðdeildunum og alveg sérstaklega börn og unglingar. Það er okkar samfélagi til mikils vansa hvernig staðið er að þessum málum og þetta á eftir að verða okkar samfélagi alvarlegt og dýrt ef ekki er tekið nógu snemma á vandamálum barna sem eiga við geðræna kvilla að stríða og málin eru bara látin versna og versna. Ég get sagt það hér að ég hef á vegi mínum alltaf öðru hverju hitt konur sem eru að vinna í þessu kerfi, bæði á barnageðdeildinni og ýmsum þeim heimilum sem eru sérstaklega að fást við börn sem eiga í vandræðum og þær eru svo áhyggjufullar yfir þessu ástandi og hvers konar einstaklingar komi út úr þessu og standandi frammi fyrir því að geta ekki veitt meðferð nema þeim allra bráðveikustu. Þetta eru svo hræðilega erfið tilfelli. Það er svo erfitt fyrir fjölskyldur og aðstandendur að hafa bæði geðveik börn og unglinga á heimilunum og einnig fullorðna að þetta er alveg sérdeilis alvarlegt mál og er ég þá ekki að gera lítið úr hinum biðlistunum. Við vitum það öll að þeir sem eiga við geðviki að stríða leiðast oft út í ýmislegt annað vegna sinnar miklu vanlíðunar, mikla misnotkun á lyfjum og fíkniefnum, sumir leiðast út á glæpabrautir og fyrir utan allt það sem í kringum þá skapast. Samfélag sem lætur veik börn bíða eftir slíkri þjónustu, hvers konar samfélag er það? Hvers konar forgangsröðun er þar á ferð? Ég vil vekja alveg sérstaka athygli á þessu, hæstv. forseti.

Það vaknar spurning: Hvar er flöskuhálsinn í okkar kerfi? Hvers vegna eru þessir biðlistar til staðar? Er það skortur á sérhæfðu fólki eða skurðstofurými? Ég held að svo sé ekki. Er það skortur á legurými? Við vitum að deildum hefur hreinlega verið lokað og þær teknar úr notkun. Eru það þessar lokanir á sumrin og reyndar yfir jól líka sem valda því að biðlistar lengjast? Er það skortur á starfsfólki eða hvað er það? Auðvitað vitum við að þetta er fyrst og fremst spurning um forgangsröðun og það að veita peninga í það að leysa þessi vandamál.

Ég vil vekja athygli á því, hæstv. forseti, að ég fékk ekki betur heyrt á ræðu hæstv. heilbrrh. en það væri býsna víða verið að fjalla um þessi mál og m.a. hefur töluvert verið um þetta rætt í þeirri nefnd sem ég sit í á vegum heilbrrn. sem fjallar um forgangsröðun í heilbrrn., en skiljanlega koma þessi mál þar mjög inn í því að biðlistar og það hvernig eigi að forgangsraða í kringum þá er mikið mál. Ég spyr hæstv. heilbrrh.: Hver er afstaða hennar til þess að settar verði reglur hér varðandi biðlista, að þeir skuli að öllu jöfnu ekki vera eða fólk þurfi ekki að bíða að öllu jöfnu lengur en 3--6 mánuði, nokkuð eftir því hvað málin eru alvarleg? Vandinn er auðvitað sá að ef við setjum slíkar reglur, þá er ekki svo auðvelt að fara eitthvað annað. Í Noregi t.d., þar sem slíkar reglur hafa verið settar, á fólk þess kost að fara þá í aðgerð utan síns heilsugæslusvæðis eða utan þess svæðis sem það á eðlilega að sækja til. Menn geta farið til Bergen, Þrándheims eða Óslóar. Þeir eiga rétt á því og fá þá aðgerð greidda. En hér er hreinlega ekki um það að ræða. Listar eru að vísu mismunandi langir á þessum þremur stóru, þeir eru reyndar fleiri ef maður telur St. Jósefsspítala í Hafnarfirði með, þá er þetta Sjúkrahús Reykjavíkur, Landspítalinn, St. Jósefsspítali og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem afkastar langsamlega mestu í þessum efnum. En ég held að alls staðar séu biðlistar og þar af leiðandi ekki beinlínis lausn að senda fólk hér á milli landshluta, en öllum hlýtur að vera ljóst að það yrði gífurlega dýrt að fara að senda fólk til útlanda og þess vegna eru þetta mál sem þarf að taka á. Það þarf að gera átak í því að stytta biðlistana og þar bendi ég sérstaklega á bæklunaraðgerðirnar og svo það sem ég gerði að sérstöku umtalsefni, stöðu geðveikra hér á landi.