Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 16:19:55 (4859)

1997-03-21 16:19:55# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[16:19]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. sem talaði síðast og sagði að sjúkrahúsin á Reykjavíkursvæðinu hafi ekki fengið neitt aukafjármagn til þess að bregðast við þeim vanda sem við er að glíma, þá vil ég minna á að í haust fengu sjúkrahúsin á Reykjavíkursvæðinu 300 millj. kr. til að bregðast við þeim vanda sem þau stóðu frammi fyrir. Og af því að við vorum að tala um biðlistana og hvernig við getum létt á þeim, þá kom það fram í máli mínu áðan að við höfum 100 millj. kr. í sérstökum hagræðingarsjóði fyrir sjúkrahúsin á Reykjavíkursvæðinu sem verða sérstaklega nýttar til þess að létta á þessum biðlistum þannig að það er fjármagn bak við þær tillögur sem hér eru fram bornar.

Varðandi fyrirspurn hv. þm. vegna aðildar okkar að EES, þá taldi hún að það gæti verið að sjúklingar eigi kost á því að fara til þessara landa og fá meðferð og Tryggingastofnun borgi, en það er nú þannig að þær aðgerðir sem við ekki gerum, borgar að sjálfsögðu Tryggingastofnun og það veit hv. þm. jafnvel og ég. En sjúklingar sem bíða eftir aðgerð eru yfirleitt bundnir þeim lækni sem þeir hafa fyrst farið til. Oft á tíðum er hægt að leiðbeina sjúklingum þannig að þeir geti farið til Akureyrar, á Akranes, St. Jósefsspítala o.s.frv., en þeir vilja heldur bíða eftir sínum lækni þannig að það verður að koma líka fram.

Hvað varðar þá kjörmeðferð sem Bandaríkjamenn eru með í bæklunaraðgerðum, þá skulum við muna að Bandaríkjamenn eru með góðar aðgerðir fyrir fáa, þá sem borga, og þá aðferð viljum við ekki nýta okkur.

Varðandi Grensásdeildina og Kópavogshælið eða endurhæfingarstöðina í Kópavogi, þá var gert sérstakt samkomulag um endurhæfingu á sl. sumri þar sem lögð var áhersla á að endurhæfingin færi fram fyrst og fremst á Grensásdeildinni en líknarmeðferðinni sem hv. þm. spurði um, er verið að finna rekstrarform. Það eru nýjar hugmyndir.