Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 16:22:41 (4860)

1997-03-21 16:22:41# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[16:22]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurning mín er svo sannarlega ekki ósk um það að við tökum upp það fyrirkomulag bandarískt að gera vel við fáa. En ég bendi á að þar, í því fyrirkomulagi sem bent var á á ráðstefnunni, er þetta kerfi, þ.e. að reyna að ná hagkvæmni, góðri hjúkrun og aðgerðum, samt talið kalla á 12,8 daga og ég var bara að benda á nauðsyn þess að fara ofan í þessi mál og skoða hvernig hæfingarþættinum verður fyrir komið.

Má skilja ráðherrann þannig að með því að hæfing verði á Grensási og að verið sé að finna líknarhjúkrun nýtt form, þá sé fallið frá áformum um að gera Kópavogshælið að hæfingardeild fyrir Landspítalann?

Í öðru lagi: Í skýrslunni stendur á bls. 10 að gert hafi verið átaksverkefni m.a. í hryggspengingum og það segir: ,,Þetta átak er dæmi um skipulagsbreytingu og breytta forgangsröðun innan spítalans en ekki hefur verið veitt sérstök fjárveiting til þessa verkefnis.`` Ég hef fengið þær upplýsingar að þetta var ákvörðun ofan frá. Það átti að koma fjármagn. Það er beðið eftir fjármagni og það hefur ekki komið.

Spurning númer tvö: Kemur fjármagn núna út af þessu átaki sem gert var?

Í þriðja lagi hef ég lagt mikla áherslu á barna- og unglingageðdeildina og það kemur fram varðandi geðlækna að hér á landi starfa sérmenntaðir barna- og unglingageðlæknar nær eingöngu á stofnunum og þá fyrst og fremst á barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Á síðasta ári var þjónusta á þessu sviði bætt og aukin með fastráðningu barnageðlæknis til Akureyrar. Aðeins tveir barnageðlæknar starfa að hluta á einkastofum, annar aðeins nokkra tíma á viku.

Virðulegi forseti. Þetta segir okkur að barna- og unglingageðdeildin er eitt það mikilvægasta fyrirbyggjandi atriði sem við höfum og að óhuggulega langir biðlistar barna og unglinga sem bíða eftir að komast að á barna- og unglingageðdeild eru óviðunandi þáttur í okkar velferðarþjóðfélagi.