Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 16:47:49 (4868)

1997-03-21 16:47:49# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[16:47]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi gagnrýni, hvort sem hún er æsingalaus eða full af æsingi af hálfu stjórnarandstöðu og stundum líka hv. þingmanna stjórnarliðsins, hefur m.a. leitt til þess að hæstv. heilbrrh. hefur í rauninni horfið frá ákvörðunum sínum um að skera niður 160 millj. kr. á sjúkrahúsum dreifbýlisins á þessu ári. Ég tek þetta sem dæmi um að það er rangt sem hv. þm. sagði að það skipti engu þó að menn væru hér með gagnrýni á hæstv. heilbrrh.

Hv. þm. segir að hæstv. heilbrrh. megi ekkert gera án þess að þingið hlaupi upp til handa og fóta. Ef það er svo að hv. þm. er að biðja hæstv. heilbrrh. vægðar og reyna að biðja þingheim um að skjóta sér hjá því að gagnrýna hana, ef hann er að segja að það sé svo ástatt í heilbrrn. og hæstv. ráðherra þoli ekki meiri gagnrýni, þá er sjálfsagt að stjórnarandstaðan taki það til yfirvegunar í fyllstu vinsemd.