Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 17:13:48 (4873)

1997-03-21 17:13:48# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:13]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir las upp úr útvarpsfrétt orð sem eftir mér eru höfð en því miður er ég ekki með það sem hv. þm. sagði í öðru útvarpsviðtali kvöldið áður og þetta eru svör við því þar sem hv. þm. sagði að við værum undir öryggismörkum og hafði mjög sterk orð um það. Ég var einungis að benda á að sem betur fer hefðum við náð utan um erfiðustu biðlistana sem við vorum með í hjartaskurðaðgerðirnar og taldi upp líka þær nýjungar sem við höfum verið að gera á undanförnum tveimur árum og þær eru ýmsar.

Varðandi seinna málið að þetta hafi ekki leyst vandann á Norðurlöndum, hvaðan ég eiginlega hafi það. Ég fylgist auðvitað með því sem er að gerast á öðrum Norðurlöndum og hef samband við aðra ráðherra. T.d. segir heilbrigðisráðherra Noregs að þetta hafi ekki leyst nokkurt vandamál hjá þeim og þeir eru núna að endurskoða sín mál vegna þess að þetta er verulegt vandamál í Noregi þrátt fyrir að þetta svokallaða ,,garanti`` hafi verið um nokkuð langan tíma í gildi.