Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 17:36:51 (4881)

1997-03-21 17:36:51# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:36]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í neinn samanburð við hæstv. heilbrrh. um hvort okkar sé líkara Ragnari Reykás á velli. Ég læt aðra dæma um það. En nú féll mér allur ketill í eld því að nú kom hæstv. ráðherra fram með þriðju kenninguna, sem þó hvergi er sett fram í þessari skýrslu og það er meira en Ragnar Reykás hefur nokkurn tíma getað gert, en það er í sambandi við stöðu biðlistamála á Norðurlöndum þar sem segir svo í skýrslunni, með leyfi forseta:

,,Meginástæða þess að biðlistar myndast í heilbrigðisþjónustunni er í stórum dráttum sú að eftirspurn eftir þjónustu er meiri en framboðið á henni,`` en til viðbótar þessu setti hæstv. ráðherra fram þá staðhæfingu að því meira sem framboðið væri, þeim mun meiri væri eftirspurnin. Sú staðhæfing skýtur gersamlega skökku við það sem segir í tilvitnaðri setningu. Hæstv. ráðherra er kominn hvorki meira né minna en þriðju fullyrðinguna og fer nú að verða erfitt að líkja hæstv. ráðherra við Ragnar Reykás og fjölskyldu hans með sinn fjallabíl því að Ragnar Reykás hefur aldrei komist lengra en svo að setja fram tvær gagnstæðar fullyrðingar á sama tíma. En hæstv. ráðherra hefur afrekað að setja þær fram þrjár.