Breyting á umferðarlögum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 18:11:15 (4889)

1997-03-21 18:11:15# 121. lþ. 96.14 fundur 336. mál: #A breyting á umferðarlögum# þál., Flm. GMS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[18:11]

Flm. (Gunnlaugur M. Sigmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir frekar vinsamlega afstöðu til þessa máls. Þingmaðurinn vék nokkuð að öryggisþætti málsins og ég átti svo sem von á því að það væri helst það atriði sem menn hefðu við málið að athuga, þ.e. að menn óttuðust að með þessu móti væri verið að fórna öryggisþættinum nokkuð. Ég vil þó ítreka að þar sem þessi tilhögun er leyfð þegar komið er að gatnamótum þar sem beygja má til hægri á móti rauðu ljósi, þá er stöðvunarskylda. Það er ekki biðskylda, það er hrein stöðvunarskylda þannig að menn verða að líta bæði til hægri og vinstri áður en ekið er af stað.

Af því að verið er að fjalla um slysahættu þá vil ég ekki láta hjá líða að nefna aðeins að mér þykir Umferðarráð að mörgu leyti vera frekar íhaldssamt í því hvernig það tekur á málum. Mér hefur lengi fundist að það eina sem í rauninni standi upp úr hjá því fólki sem þar starfar sé það að hafa áhyggjur af of hröðum akstri. Það hefur verið svo í mörg ár að Umferðarráð hefur frekar reynt að einbeita sér að því að ná ökuhraðanum niður heldur en að reyna að stuðla að almennt bættari umferðarmenningu meðal landsmanna, sem mér finnst að það ætti frekar að gera, og stuðla að því að landsmenn aki eftir aðstæðum, aki af varfærni þar sem það á við en geti hins vegar líka ráðið við það að meðhöndla ökutæki þó ekið sé á yfir 60 km hraða. Mér finnst verulega skorta á að þetta hafi verið kennt á Íslandi. Yfirleitt er ég ekki hræddur maður en ég minnist þess eftir búsetu í Bandaríkjunum að ég var einfaldlega hræddur í umferðinni í Reykjavík fyrstu vikurnar eftir heimkomu því mér fannst umferðin glannafengin og óskipulögð. Á gatnamótum fóru menn fram úr hvort heldur var hægra eða vinstra megin við mann þó maður væri á sinni akrein. Mér þykir skorta á að Umferðarráð geri meira í því að kenna fólki að aka.

Það vakti líka nokkra furðu mína í vetur þegar talað var hér í þinginu fyrir því að leyfa aukinn hraða í umferðinni á vegum sem það bæru, þá snerust starfsmenn Umferðarráðs mjög öndverðir gegn slíkum hugmyndum, ekki í nafni Umferðarráðs reyndar heldur sem einstaklingar með skrifum í blöð. Mér þykir mjög sérkennilegt þegar opinberir starfsmenn sem eru að fjalla um tiltekinn málaflokk, sem er til meðferðar á Alþingi, skuli með þessum hætti blanda sér í málið og hafa áhrif á ákvarðanatöku Alþingis.

Hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, vék að því sem ég vil leyfa mér að kalla vandamál í Reykjavík þ.e. offjölgun umferðarljósa. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Það gætir offjölgunar umferðarljósa á götum Reykjavíkur. Ég hygg að það sem ráði þessu sé einhvers konar skortur á skilningi á því að þörf sé fyrir akstursleiðir þar sem eigi að vera ótruflað umferðarflæði. Ég kann eiginlega ekki lengur að telja hvað eru orðin mörg umferðarljós á leiðinni úr Breiðholti og niður í miðbæ Reykjavíkur. Fyrir nokkrum árum var þetta tiltölulega greið akstursleið. Þarna fara um 30 þúsund manns um á hverjum morgni. Nú er búið að drita þarna niður svo mörgum ökuljósum að menn komast varla 300 metra í einu áður en kemur að næsta ljósi á verstu köflunum.

Ég ítreka þakkir til hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar fyrir að taka undir að skoða þurfi þessi mál. Þessi þáltill. er fyrst og fremst flutt til að vekja athygli á málinu, vekja athygli á að þessi háttur er hafður á í öðrum heimsálfum og gefist þar vel. Ég í sjálfu sér vænti ekki meira á þessu stigi málsins heldur en að vekja athygli á málinu og það fái þá umfjöllun hjá þar til bærum aðilum.