Öryggisþjónusta

Miðvikudaginn 02. apríl 1997, kl. 15:16:48 (4895)

1997-04-02 15:16:48# 121. lþ. 97.9 fundur 486. mál: #A öryggisþjónusta# frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[15:16]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um öryggisþjónustu. Um nokkra hríð hafa verið starfandi fyrirtæki sem veita viðskiptavinum sínum slíka þjónustu af ýmsu tagi. Hafa bæði einstaklingar og lögaðilar nýtt sér þá þjónustu í sífellt vaxandi mæli. Í lögum er ekki að finna reglur um öryggisþjónustu og eru engar takmarkanir gerðar á því hver getur haft hana með höndum. Öryggisþjónusta hefur nokkra sérstöðu, borið saman við aðra atvinnustarfsemi. Má helst nefna að þjónustan er um margt áþekk því hlutverki sem lögregla hefur lögum samkvæmt. Einnig varðar starfsemin oft mikla hagsmuni sem hæglega geta farið forgörðum ef þeirra er ekki gætt, eða sá sem hefur það verkefni með höndum sinnir því ekki af samviskusemi. Þá eru þess dæmi erlendis að menn með brotaferil hafa haslað sér völl á þessu sviði.

Með hliðsjón af þessu er mikilvægt að gerðar verði tilteknar kröfur til þeirra sem veita öryggisþjónustu þannig að þeir sem leita eftir henni geti treyst því að hún sé áreiðanleg svo sem frekast er kostur. Hefur reynslan einnig verið sú í flestum nágrannalöndum okkar og hafa verið sett lög þar um þessa starfsemi, eins og til að mynda á Norðurlöndum. Almennt verður ekki annað séð en að vel megi una við starfsemi þeirra sem nú bjóða öryggisþjónustu hér á landi. Hefur starfsemi þessi mikilvægu þjóðfélagslegu hlutverki að gegna til að stemma stigu við afbrotum og til að vernda eignir manna gegn vá af öðru tilefni.

Við samningu frv. hefur þess verið gætt að leggja engar óþarfar álögur eða íþyngjandi kvaðir á starfsemi þeirra sem annast öryggisþjónustu. Aftur á móti búa sjónarmið um neytendavernd að baki frv. og er það til þess fallið að efla þá tiltrú sem starfsemi þessi þarf að njóta.

Ég mun nú í stuttu máli gera grein fyrir helstu efnisatriðum frv. Samkvæmt 1. gr. þarf leyfi ráðherra til að annast öryggisþjónustu og er sérstaklega afmarkað til hvaða starfsemi frv. tekur. Þarf þjónustan að vera veitt í atvinnuskyni og því tekur frv. ekki til þeirra sem annast eigin öryggisgæslu. Einnig tekur frv. ekki til þess að nágrannar taki sig saman og gæti eigna hver annars.

Í 2. gr. eru lögð til nánar tilgreind skilyrði fyrir leyfi samkvæmt lögunum. Miða þau að því að koma í veg fyrir að þeir sem augljóslega eru ekki til þess fallnir sinni öryggisþjónustu.

Í 3. gr. er lagt til að leyfi verði veitt til fimm ára í senn og að í leyfisbréfi verði tiltekin sú þjónusta sem leyfið tekur til.

Skv. 4. gr. skal starfsmaður leyfishafa, sem sinnir öryggisþjónustu, vera a.m.k. 18 ára að aldri og til þess fallinn að rækja starfann. Þetta tekur einvörðungu til þeirra starfsmanna sem hafa með höndum framkvæmd þjónustunnar.

Í 5. gr. er mælt fyrir um heimild til að afturkalla leyfi við ákveðnar aðstæður og um eftirlit með þessari starfsemi.

Loks er í 6. gr. lagt til að sett verði reglugerð um nánari framkvæmd laganna og í 7. gr. ákvæði um að brot gegn þeim varði sektum.

Herra forseti. Ég hef þá gert grein fyrir efnisatriðum frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsh.