Umferðarlög

Miðvikudaginn 02. apríl 1997, kl. 15:20:39 (4896)

1997-04-02 15:20:39# 121. lþ. 97.10 fundur 487. mál: #A umferðarlög# frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[15:20]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á umferðarlögum. Þessar breytingar eru sundurleitar en þær miða að því að ná fram tilgangi laganna um umferðaröryggi og að tryggja hag þeirra sem verða fyrir tjóni í umferðinni.

Í fyrsta lagi er lagt til að niðurstaða mælingar á vínandamagni í lofti sem ökumaður andar frá sér verði að lögum metin sem fullnægjandi sönnun um ölvunarástand hans á sama hátt og þegar vínandamagn í blóði er mælt. Mælingu af þessu tagi er nú unnt að framkvæma af ekki minni nákvæmni en við blóðrannsókn. Sýna rannsóknir að fullt samræmi er milli vínandamagns í blóði manns og vínandamagns í því lofti sem hann andar frá sér við mismunandi ölvunarástand. Þessi aðferð er einföld í framkvæmd og gengur fjótar fyrir sig en rannsókn á blóðsýni. Með þessu verður einnig létt af ökumanni þeirri kvöð að vera færður af lögreglu til læknis. Sparast með þessu verulegur tími hjá lögreglu auk þess sem starfsfólk heilsugæslu og á rannsóknarstofum getur þá sinnt öðrum verkefnum.

Í öðru lagi er lagt til að vátryggingarfjárhæðir vegna ábyrgðartryggingar ökutækja og slysatryggingar ökumanns verði hækkaðar. Vátryggingarfjárhæðir umferðarlaga hafa árlega tekið breytingum í samræmi við verðlagsbreytingar. Umfram það verða þær hins vegar ekki hækkaðar án lagabreytinga. Með skaðabótalögum, nr. 50/1993, og breytingu á margföldunarstuðli þeirra hafa hámarksbætur hækkað verulega. Nauðsynlegt er að vátryggingarfjárhæðir umferðarlaga séu það háar að þær hrökkvi almennt fyrir bótum sem leiðir af tjóni og að tillit sé tekið til vaxta og kostnaðar sem við kann að bætast. Þessar breytingar einar sér eru ekki taldar hafa teljandi áhrif á iðgjöld fyrir vátryggingar þessar.

Þá er lagt til að heimilað verði að setja almenna reglu um undanþágu fyrir hreyfihamlaða frá reglum um stöðvun og lagningu ökutækja. Þannig verður unnt að setja almennar reglur fyrir landið allt í stað þess að settar séu reglur í hverju umdæmi fyrir sig.

Loks eru lagðar til viðeigandi breytingar á umferðarlögum vegna skiptingar Bifreiðaskoðunar Íslands hf. í tvö fyrirtæki, annars vegar Bifreiðaskoðun hf., sem starfar að skoðun bifreiða, og hins vegar Skráningarstofuna hf., sem annast skráningu ökutækja og ýmis tæknileg málefni sem varða ökutæki og búnað þeirra. Þessi skipting kom til framkvæmda 4. febrúar sl.

Herra forseti. Ég hef þá gert grein fyrir meginefni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.