Meðferð sjávarafurða

Miðvikudaginn 02. apríl 1997, kl. 15:38:43 (4899)

1997-04-02 15:38:43# 121. lþ. 97.11 fundur 476. mál: #A meðferð sjávarafurða# (innflutningur, landamærastöðvar) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[15:38]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Frv. sem ráðherra hefur nýlega lokið við að mæla fyrir er hér til umræðu við fremur sérkennilegar aðstæður því eins og fram kom hjá hæstv. forseta þá er öll sjútvn. Alþingis nú í dag stödd í Færeyjum í skoðunarferð og kemur ekki fyrr en í kvöld. Því er mjög óvenjulegt að taka mál þetta til umræðu að nefndinni fjarstaddri en sjútvn. er, má segja, trúnaðarmenn Alþingis í þessu máli. Nefndarmenn eiga að taka við málinu úr höndum ráðherra. Þingið vísar málinu til sjútvn. að lokinni 1. umr. og eftir það hefur sjútvn. Alþingis meðferð málsins í sínum höndum. Það er því nauðsynlegt að nefndarmenn séu viðstaddir 1. umr. máls. Það segir sig sjálft að þeir sem eiga að taka við málinu af hálfu þingsins verða auðvitað að vera viðstaddir umræðuna, geta hlýtt á hana og tekið þátt í henni eins og aðstæður og efni leyfa.

Við þessar aðstæður er því að mínu mati óeðlilegt að hefja umræðu um mál á sviði sjútvn. Það eru fleiri sömu skoðunar. Þingflokksformaður Alþb. hefur mótmælt því að þessi tvö þingmál verði tekin til umræðu í dag. Því miður hefur forseti ekki orðið við þeirri áskorun þingflokksins og hefur því heimilað að umræðan hefjist. En mér skilst að samkomulag hafi orðið um að umræðunni ljúki ekki heldur haldi áfram á morgun.

Ég sé nú ekki hvers vegna er verið að strekkjast við að mæla fyrir málum í dag þegar ljóst er að umræðu getur ekki lokið fyrr en á morgun þegar sjútvn. er komin heim til starfa og getur tekið þátt í umfjöllun um málið í þingsölum. Það hlýtur að leiða af málsmeðferðinni að þeir þingmenn sem hugsa sér að tala í málinu spari við sig ræðuhöld þar til að sjútvn. er mætt. Ég sé að minnsta kosti ekki, virðulegi forseti, mikinn tilgang í því að úttala mig um þetta þingmál yfir hæstv. sjútvrh. einum, þó hann sé alls góðs maklegur í þessu efni og er ég ekkert að gera lítið úr honum eða hans skoðunum í þessu efni. Það er einfaldlega þannig að hann er að skila málinu af sér en ég vil helst tala við þá sem eru að taka við málinu og hafa áhrif á skoðanir þeirra og viðbrögð þeirra við því hvernig þeir hugsa sér að halda á málinu í þingsölum.

Virðulegi forseti. Ég mun því í þessum tveimur málum spara ræðuhöld af minni hálfu sem mest og huga að því að segja hug minn í málunum fremur við umræðuna þegar þeir alþingismenn eru mættir til þingfunda sem sæti eiga í hv. sjútvn.