Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 10:41:26 (4908)

1997-04-03 10:41:26# 121. lþ. 98.5 fundur 493. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (heildarlög) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[10:41]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu ráðherra í gær fyrir þessu frv. þá er ekki um að ræða neinar grundvallarbreytingar á skipan þeirra mála sem frv. kveður á um. Engu að síður eru nokkrar breytingar í því sem mér þykir ástæða til að fara nokkrum orðum um og setja fram hugleiðingar mínar um það efni sem frv. tekur á.

Ég vildi fyrst spyrja, hæstv. forseti, hvort ráðherra verði ekki viðstaddur umræðuna.

(Forseti (ÓE): Ráðherra var í salnum rétt áðan. Við gerum ráðstafanir til að hann komi.)

Hann kemur þá þegar hann er til þess búinn þannig að ég mun halda áfram máli mínu.

Ég vil fyrst segja um þetta mál að það er athyglisvert að nokkru leyti í ljósi þeirra laga sem menn hafa sett um stjórn fiskveiða að öðru leyti. Þarna er verið með lögum að skipa veiðum í íslenskri fiskveiðilandhelgi, setja leikreglur um þær veiðar sem byggjast að öllu leyti á öðrum forsendum en aflamarkskerfinu. Þar er verið að setja leikreglur sem byggjast á því að takmarka sóknargetu einstakra skipa og skipaflokka. Með öðrum orðum felast fyrst og fremst sóknartakmarkanir í þessu frv., annars vegar gagnvart fiskiskipunum og hins vegar með takmörkunum á þau veiðisvæði sem þau mega beita sér á á hverjum tíma.

Þetta þykir mér ástæða til að draga fram, virðulegi forseti, til þess að undirstrika að stjórn fiskveiða hér við land getur aldrei byggst einvörðungu á svonefndu aflamarkskerfi þrátt fyrir ýmsa kosti sem það kerfi hefur en auðvitað má líka minna á að það kerfi hefur líka verulega galla. Samhliða því kerfi sem menn hafa stuðst við við stjórnun fiskveiða verður að verða heildstæð löggjöf sem grípur á sóknargetu flotans og möguleikum hans á að beita sér á einstökum veiðisvæðum með einstök veiðarfæri gagnvart einstökum fisktegundum. Það verður því að skoða þessa löggjöf í heild sinni, annars vegar löggjöfina um stjórn fiskveiða og hins vegar þessa löggjöf um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Þá sjáum við að samanlagt er um að ræða samfellda stjórnun bæði á sókn og með aflamarkskerfi.

Í þessu frv., sem lagt er til að verði heildstæð löggjöf um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem leysi af hólmi gildandi lög um það efni, er þetta undirstrikað af hálfu flm., hæstv. sjútvrh., sem er eins og kunnugt er mjög ötull talsmaður aflamarkskerfisins. Með þessu frv. er því undirstrikað af hans hálfu að það eitt getur ekki verið stjórntæki við stjórn fiskveiða hér við land. Hitt þarf að koma með líka.

[10:45]

Þær takmarkanir sem eru í frv., og ráðherra er veitt heimild til að beita, eru mjög víðtækar. Í fyrsta lagi takmarka þær möguleika skipa á að beita veiðarfærum, einkum stórra skipa. Það þýðir að menn telja að aflamarkskerfið eitt og sér dugi ekki til þess að hamla sókn skipanna og vernda fiskstofnana eins og nauðsyn krefur. Það þurfi auk þess að setja í lög heimildir fyrir ráðherra til að beita mjög víðtækum takmörkunum á möguleikum skipa til þess að beita veiðarfærum sínum. Einkum á þetta við um togveiðarfæri sem greinilegt er að vísindamenn telja að séu skaðleg í íslenskri fiskveiðilandhelgi sé þeim beitt óhóflega að þeirra mati og því er talin ástæða til að setja nokkuð stífar reglur um hvernig þeim er beitt, á hvaða svæðum, á hvaða miðum og jafnvel á hvaða tímum ársins.

Síðan er líka að finna ákvæði sem veita ráðherra heimild til þess að takmarka sókn á tiltekin veiðisvæði. Það er ekki bara með hagsmuni fiskstofna í huga sem þessar takmarkanir eru settar fram heldur kemur fram í frv. að það er líka verið að verja aðra hagsmuni en fiskstofnana, hagsmuni fisksins, ef við megum taka svo til orða. Það er líka verið að verja hagsmuni þeirra sem gera út á tilteknum svæðum og veita þeim rétt umfram aðra til þess að stunda veiðar á þeim svæðum. Ég vil benda á ákvæði 6. gr. frv. um dragnót þar sem tekið er mjög skýrt fram í fyrri málsgrein þeirrar greinar að ráðherra geti, varðandi dragnótaveiðar, ákveðið að aðeins hljóti leyfi til veiða á tilteknu svæði tiltekinn fjöldi skipa, skip sem skráð eru á því svæði, skip af ákveðinni stærð eða gerð eða skip sem áður hafa stundað dragnótaveiðar. Með öðrum orðum er sett inn í frv. það sem við getum kallað byggðasjónarmið. Það er verið að verja atvinnuhagsmuni þeirra sem hafa nytjað þessi fiskimið frá örófi alda, ef svo má segja. Þessa sér stað í 1. gr. frv. þar sem tekið er fram að tilgangur þess sé að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Með öðrum orðum að þessu leytinu til, sem ég hef rakið, er að finna í frv. ákvæði sem tengja veiðarnar við byggðarlögin.

Það er þýðingarmikið að halda því til haga því það skiptir máli að mönnum sé ljóst að það er ekki einvörðungu verið að skipuleggja veiðarnar út frá hagsmunum útgerðarmanna einna og án tillits til þess hvaða skipum þeir beita fyrir sig til þess að sækja sinn afla. Það er talið skipta máli að tiltekinn bátafloti frá tilteknum stöðum hafi rétt til veiða á þeim miðum sem hann hefur stundað um árabil. Þetta þykir mér þýðingarmikið að draga fram því öll umræða að undanförnu hefur má segja um of verið bundin við að tala fyrir sjónarmiði hámarksarðsemi veiðanna án tillits til hagsmuna annarra sem að veiðunum koma og án þess að líta á að hvaða leyti hámarksarðsemi eins takmarkar eða skaðar hagsmuni annars. Þannig hafa menn mjög haldið því á lofti að það ætti að stjórna veiðum þannig að þeir sem eiga stór skip eða geta komist yfir þau eigi að fá að veiða hvar sem er og hvenær sem er af því það séu hagkvæmustu veiðarnar. Og helst jafnvel að það væru frystiskip líka sem ekki bara veiddu fiskinn heldur ynnu hann um borð.

Þetta sjónarmið sem kemur fram í 6. gr. frv. og ákvæði í 1. gr. brýtur upp þetta sjónarmið sem um of, að mínu mati, hefur verið haldið á lofti. Ef hagsmunum eins aðila er gert of hátt undir höfði þá er það gert á kostnað annars. Það sem hefur kannski einna helst vakið óróa um núverandi aflamarkskerfi er að það hefur mismunað um of hagsmunum fólks sem stundar sjávarútveg. Það hefur þannig mismunað og gengið um of á hagsmuni byggðanna í landinu einkum og sér í lagi þorpanna, smábyggðarlaganna sem hafa ekki haft efnahagslegt bolmagn til að keppa við stóru úrgerðirnar sem eiga stóru togarana og hafa orðið undir í samkeppninni um aflaheimildir. Af þeim sökum hefur verið mikil ólga um stjórnun fiskveiða á þeim stöðum og byggðarlögum landsins sem þannig háttar til, m.a. kannski aðallega á vestanverðu landinu.

Ég vildi, herra forseti, draga þetta sjónarmið fram og benda á þetta ákvæði í frv. af því það gengur gegn hinni hefðbundnu umræðu um stjórn fiskveiða sem við höfum mátt heyra á undanförnum árum og einkum kannski undanfarið ár. Það er greinilegt að hagsmunir þeirra sem búa í litlu byggðarlögunum og hafa stundað veiðar með dragnót áttu í upphaflegu drögum frv. að vera fyrir borð bornir en því hefur verið breytt í endanlegri gerð frv. Það hafa orðið átök um þessa hagsmuni og þar hafa þeir haft betur að nokkru leyti sem hafa stundað dragnótaveiðar á minni bátum. Það er að vísu kannski ekki að öllu leyti fullnægjandi niðurstaða fyrir þá. Þannig er t.d. einkennilegt fyrir þá sem hafa stundað dragnótaveiðar eða snurðvoðaveiðar við Grímsey um langt árabil á litlum bátum og með litla snurvoð að þurfa að sæta því, ef þetta frv. verður að lögum, að heimildin er tekin af þeim og færð í hendur ráðherra og það er á hans valdi hvort hann heimilar þeim að halda áfram að stunda sínar hefðbundnu veiðar og þá hvernig. Það er betri niðurstaða en var í upphaflegu útgáfu frv. þar sem þeim var var einfaldlega hent út en það er lakari staða en þeir hafa núna að þessu leyti til þó ég hafi svo sem ekki ástæðu til að ætla annað en að ráðherra hafi fallist á það og muni framkvæma þetta frv. þannig, verði það að lögum, að þeir fái að veiða áfram eins og verið hefur. Það er hins vegar ástæða til að inna ráðherra eftir því hvort það sé ekki réttur skilningur og væri fróðlegt ef ráðherrann upplýsti það.

Ég vil, herra forseti, benda á að miðstjórn Alþb. gerði samþykkt á fundi sínum í september á síðastliðnu ári um þetta sjónarmið sem ég hef helst gert að umtalsefni, þ.e. veiðar á heimaslóð, sem er þannig, með leyfi forseta: ,,Miðstjórn telur að styrkja eigi stöðu bátaútgerðar á grunnslóð og tryggja aukinn rétt þeirra sem stunda veiðar á heimamiðum. Það er raunhæfasta leiðin til að efla sjávarplássin og stuðla að aukinni atvinnu í landinu.`` Þetta sjónarmið nýtur stuðnings í okkar stjórnmálaflokki og er vonandi að í fleiri stjórnmálaflokkum séu stuðningsmenn um þetta viðhorf. Það má benda á að erlendis er viðtekin skoðun stjórnmálaflokka að það eigi að stjórna fiskveiðum með þeim hætti að réttur þeirra sem búa í sjávarplássum um landið sé tryggður þannig að þeir hafi svipaðan rétt og verið hefur, að ekki sé gengið á atvinnulega stöðu þeirra. Þar vil ég nefna ákvæði laga í Bandaríkjunum um stjórn fiskveiða þar sem sérstök ákvæði eru um grunnslóðaveiðar og enn fremur ákvæði laga á Nýja-Sjálandi um sama efni sem tryggir sjávarplássum tiltekinn rétt til veiða á svonefndum grunnmiðum. Það er mismunandi í löggjöf þessara landa, og reyndar fleiri sem ég nefni ekki, hversu hátt hlutfall af heildarveiðinni er á grunnslóðarmiðum en það getur verið allt frá 7% og upp í liðlega 20%. Með öðrum orðum að þegar ákveðinn er heildarafli í fiskitegundum er honum skipt á milli grunnslóðarmiða og ytri miða sem þýðir að sá bátafloti sem hefur rétt til að sækja grunnslóðarmiðin gengur að því vísu að það er ákveðið hlutfall af heildarkvótanum sem er þar til veiða en öðrum bannað að sækja þau mið. Skiptingin á þessu er yfirleitt miðuð við stærðir skipa þannig að stórum skipum og fullvinnsluskipum er ekki hleypt upp á grunnslóðina. Ég tel það ætti að skoða í þeirri nefnd sem fær þetta mál til athugunar hvort ekki væri rétt að taka inn í þessa löggjöf ákvæði sem fela í sér annars vegar að stórum skipum, og þá einkum vinnsluskipum, verði ýtt út fyrir ákveðna línu sem afmarkar grunnslóðina. Þar hef ég helst í huga að eðlilegast sé að miða við 20 mílur. Enn fremur hvort ekki ætti að styrkja þau ákvæði frv. sem kveða á um rétt minni báta til veiða innan þessa svæðis, þ.e. á grunnslóðinni.

Herra forseti. Ég hef gert að umtalsefni afmarkaðan þátt í frv. og tel að ekki sé tími til eða mér sé fært að fara yfir það í heild sinni. Til þess þyrfti meiri tíma og er kannski ekki ástæða til að gera það við 1. umr. málsins. Í frv. er ekki að finna mjög byltingarkenndar breytingar frá því sem verið hefur. Helstu breytingarnar lúta að dragnótaveiðum. Ég tel að þingnefndin ætti að gefa sér góðan tíma til að skoða þetta mál, m.a. í samhengi við stjórn fiskveiða og framkvæmd þeirra í öðrum löndum eins og ég hef bent á og hvort ekki væri rétt að styrkja atvinnulega og byggðarlega stöðu ýmissa sjávarplássa með þeim hætti sem ég hef rakið. Ég bendi á að það er einmitt tekið fram í 1. gr. frv. að tilgangur þess sé að styrkja byggð í landinu. Við vitum að hún hefur verið að veikjast um allt land að undanskildu höfuðborgarsvæðinu. Hugsanlega mætti segja um Eyjafjarðarsvæðið að það hafi haldið sínum hlut en að öðru leyti hefur byggð verið að veikjast á undanförnum áratug. Svipaðar leikreglur um veiðar í íslenskri fiskveiðilögsögu munu ekki breyta þeirri stöðu á næstu árum og því er þörf á því að skoða þetta frv. með því hugarfari hvernig hægt sé að breyta þessum leikreglum þannig að markmiði frv. verði náð, að styrkja byggð í landinu. Það tel ég að þingnefndin ætti að gefa sér nokkuð góðan tíma til að athuga. Það getur auðvitað tekið sinn tíma og er ekki ástæða til að hrapa að niðurstöðu í þeim efnum. Ég legg því áherslu á að menn skoði málið vandlega út frá markmiðum þess og láti vera að afgreiða málið í flýti fyrir þingfrestun í vor, eins og hæstv. ráðherra fór fram á. Það mun ekki ná þeim markmiðum sem ég hef bent á og eru að finna í 1. gr. frv. ef það verður samþykkt óbreytt.