Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 11:16:37 (4911)

1997-04-03 11:16:37# 121. lþ. 98.5 fundur 493. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (heildarlög) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[11:16]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það hjá hv. síðasta ræðumanni, Guðnýju Guðbjörnsdóttur, að það er undarlegt að þetta mál skuli hafa verið sett á dagskrá í gær á meðan öll sjútvn. var á ferð í Færeyjum. Og það er eins með mig og hv. þm. að ég hef ekki haft nægan tíma til að kynna mér þá umræðu sem þegar hefur farið fram. En þar sem ég sit í sjútvn. mun ég fá tækifæri til þess síðar.

Almennt virðist mér að ekki felist neinar byltingarkenndar breytingar í þessu frv. að undanskildu því að miklu meira og mun víðtækara vald er fært til ráðherra en verið hefur. Þó er reynt að skilgreina það líka. Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt og í sjálfu sér nauðsynlegt þegar þessi málaflokkur er annars vegar að stjórnvöld geti brugðist við með skömmum fyrirvara.

Það er eitt sem ég hnýt um sérstaklega og mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. því að ég fæ tilefni til að skoða þetta mál miklum mun betur í sjútvn. og ég get sannfært hv. 5. þm. Vesturl. um að nefndin mun vinna vel og fara vel yfir þetta frv. En mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. um 12. gr. en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Sé veiðieftirlitsmaður Fiskistofu um borð í veiðiskipi getur hann óskað eftir því að skipstjóri láti kasta eða leggi veiðarfæri á tilteknu svæði í tilraunaskyni, enda hafi hann rökstudda ástæðu til að ætla að önnur skip stundi skaðlegar veiðar á því svæði. Skipstjóri skal verða við tilmælum veiðieftirlitsmannsins, enda verði tilraunin gerð með þeim hætti að hún tefji veiðar skipsins sem minnst og valdi útgerðinni sem minnstu óhagræði. Skal framkvæmd tilraunarinnar ákveðin í samráði við skipstjóra skipsins.``

Mig langar að beina því til hæstv. sjútvrh. hvort þarna sé á ferðinni einhver ný hugsun varðandi stjórn skipa og hversu langt þetta nær því vitaskuld eru það merkileg nýmæli að tiltekinn starfsmaður stjórnvalda geti kveðið svo á um að skipstjóri skuli leggja eða draga veiðarfæri á ákveðnum svæðum. Og mig langar að biðja hæstv. sjútvrh. að skýra frekar en gert er í þessari grein og athugasemdum við þessa grein hvað þarna er átt við.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, hef ég ekki haft nægan tíma til þess að fara ítarlega yfir þetta og mun því ekki lengja þessa umræðu en óska eftir því við hæstv. sjútvrh. að hann geri frekari grein fyrir þessu ákvæði.