Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 11:39:15 (4918)

1997-04-03 11:39:15# 121. lþ. 98.5 fundur 493. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[11:39]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gerði 12. gr. frv. að umtalsefni í minni stuttu ræðu áðan og benti á að hætt er við því að ef þetta frv. verður að lögum óbreytt geti orðið árekstrar á milli veiðieftirlitsmanns og skipstjóra. Ég óskaði eftir því að hæstv. sjútvrh. útskýrði frekar hvaða hugsun lægi að baki þessu ákvæði. Það kom fram hjá honum að vitaskuld væri það endanleg ákvörðun skipstjóra hvernig hann brygðist við tilmælum veiðieftirlitsmanns. En á hinn bóginn er það líka skýrt hér í þessu umrædda ákvæði að verði hann ekki við þessum tilmælum, eins og þetta liggur hér fyrir, þá hljóti þau refsiákvæði sem er að finna í frv. að koma til kastanna. Það hlýtur að vera brot á þessum lögum ef skipstjóri verður ekki við tilmælum viðkomandi veiðieftirlitsmanns. Ég vara við því að setja ákvæði sem þetta í lög, þar sem verið er að fela öðrum en skipstjóra ákvörðunarvald um hvar skuli veitt. Ég er hræddur um að þeir árekstrar sem af þessu kunna að hljótast, verði þetta að lögum, gætu orðið miklir og erfitt að sjá hvernig þeir verða leystir. Ég mun þess vegna gera það að tillögu minni í framhaldinu að þessu ákvæði verði breytt og út verði felld orðin: ,,Skipstjóri skal verða við tilmælum veiðieftirlitsmannsins``, vegna þess að í þeim orðum felst að ef skipstjóri verður ekki við þeim varðar það refsingu. Ég held að við getum ekki gert lögin þannig úr garði.