Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 11:43:42 (4921)

1997-04-03 11:43:42# 121. lþ. 98.5 fundur 493. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (heildarlög) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[11:43]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir athugasemdir hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar við 12. gr. frv. Hún er óeðlileg að mínu mati, þ.e. að gera skipstjóra skylt að verða við tilmælum veiðieftirlitsmanns. Það er ekki óeðlilegt að veiðieftirlitsmaður geti borið fram tilmæli við skipstjóra um að hann setji út veiðarfæri á tilteknum stað eða tiltekinni slóð, en það er óeðlilegt að gera skipstjóra skylt að verða við tilmælum. Þetta þýðir með öðrum orðum að stjórnun skipsins er tekin úr höndum skipstjórans og færð í hendur veiðieftirlitsmanns. Það er mjög óeðlilegt að stíga það skref að mínu viti. Ég leggst gegn því að þetta verði í frv. í endanlegum búningi.

Þá finnst mér líka að þarna sé verið að blanda saman tveimur hlutum sem eru ekki endilega skyldir, þ.e. annars vegar hlutverki veiðieftirlitsmanns sem á að fylgjast með að skip hagi sér eins og lög og reglur kveða á um og hins vegar rannsóknum á einstökum fiskislóðum sem er hlutverk Hafrannsóknastofnunar. Sú stofnun sem fer með rannsóknir á miðunum á auðvitað að sjá um þær. Hún getur svo sem fengið til sín, ef um semst, fiskiskip til að gera fyrir sig tilraunir, en það er óeðlilegt að rannsóknaþáttur sé færður í hendur veiðieftirlitsmanns sem hefur allt annað hlutverk en að rannsaka fiskimið. Ég tek því undir að það er að mínu viti óeðlilega frá þessum texta gengið í 12. gr. frv.

[11:45]

Ég vil ítreka spurningu mína til hæstv. sjútvrh. um hvernig hann hygðist framkvæma ákvæði frv. um dragnótaveiðar á grunnslóðinni, hvort það yrði þá ekki svipað og verið hefur, þannig að t.d. litlir bátar við Grímsey sem hafa stundað sínar dragnótaveiðar megi búast við að svo verði áfram sem verið hefur en breytingin sem menn eru að sækjast eftir með þessu frv. sé sú að stórum togbátum er ýtt út fyrir þessi dragnótasvæði. Það hefur satt að segja verið mörgum þyrnir í augum eins og t.d. á Vestfjörðum að sjá yfir 300 tonna skip draga snurvoð langt inn á firði þar sem ekki má ýta bátum úr vör nema þeir hafi aflamark sitt lagi. Og þegar þeir hafa verið búnir með sínar veiðiheimildir, hvort sem þær eru samkvæmt aflamarki eða sóknardögum, og sitja í höfn á 5--6 tonna bátum sjá þeir yfir 300 tonna skip dragandi snurvoð á eftir sér langt inn á fjörð og jafnvel kemur það skip úr allt öðrum landsfjórðungi. Þetta hefur valdið mikilli ólgu. Ég tel ekki ráðlegt að stjórna fiskveiðum þannig að mönnum sé beinlínis storkað á þennan hátt enda skil ég niðurstöðuna í þessu máli og tillöguna í frv. þannig að þetta verði ekki leyft áfram.

Það þarf að hafa í huga við stjórnun veiða, hvort sem það er gagnvart skipunum sjálfum eða að menn hugleiði að lágmarka skaða þeirra á miðum og veiðislóðum, stjórni þessum fiskveiðum þannig að sem mestur ábati verði fyrir þjóðarbúið í heild, að þetta snýst fyrst og síðast um efnahagsmál, hver hin efnahagslega staða fiskvinnslunnar og útgerðarinnar er undir þeim lögum sem um sjávarútveginn eru sett. Ég sé ekki beint samhengi milli þess kerfis sem menn velja sér, hvort sem það heitir aflahlutdeildarkerfi eða sóknardagakerfi, og efnahagslegrar afkomu. Ég man ekki betur en að á árunum 1988 og 1989 hafi verið svo komið hjá útgerðinni í landinu að hún var nánast að fara á hausinn hringinn í kringum landið. Það þurfti að grípa til sérstakra björgunaraðgerða til að halda á floti lykilfyrirtækjum í mörgum byggðarlögum. Menn höfðu þó væntanlega stjórnað veiðum af mikilli skynsemi fram að því. Það þarf því ekki að fara saman og ég tel ekki rétt að draga þá ályktun að ákvörðun Færeyinga um að styðjast við sóknardagakerfi leiði af sér hrun fiskstofna eða efnahagsleg áföll í sjávarútvegi hjá þeim. Það er fyrst og fremst magnið sem menn veiða upp úr sjónum og síðan afurðaverðið á erlendum mörkuðum sem ráða gæfu í þessari atvinnugrein.

Ég minni líka á að síðan þessi alvarlega staða var uppi í sjávarútveginum á Íslandi hefur sem betur fer ræst úr en það hefur fyrst og fremst verið vegna þess að verð á afurðunum hækkaði erlendis. Annað gerðist sem var ákvörðun stjórnvalda, að draga mjög úr þorskveiðum á árunum eftir 1991. Áhrifin af þeim samdrætti urðu mjög alvarleg á sumum stöðum vegna þess að fyrirtækin voru ekki það efnahagslega sterk að þau gætu staðið af sér þennan mikla samdrátt í tekjum. Lykilfyrirtæki hafa farið á hausinn í hverju byggðarlaginu á fætur öðru frá þessum tíma sem við höfum stuðst við aflahlutdeildarkerfið. Ég get nefnt Patreksfjörð, Bíldudal, Bolungarvík, Suðureyri og Grenivík. Og ekki er beisin staða atvinnufyrirtækisins á Þingeyri og ýmis fyrirtæki á Ísafirði og víðar eru mjög skuldsett og hafa átt í erfiðleikum á undanförnum árum og safnað skuldum einmitt á þeim tíma þegar menn skáru niður aflaheimildirnar. Ég tel það því ekki rétta ályktun að draga línuna þannig að þeir sem velji sóknardagakerfi kalli fram efnahagsleg áföll í sínum sjávarútvegi. Það teldi ég ályktun sem styddist ekki við rök. Þvert á móti benda staðreyndir til þess að sambærileg staða hefur komið upp hér á landi undir núverandi stjórnkerfi. En ég ætla ekki að kenna því einu um þau áföll, heldur er það eins og ég gat um, fyrst og fremst magnið sem menn mega veiða og verðið sem menn fá fyrir afurðirnar sem ræður því hvernig afkoman er. Það er fullmikil einföldun að halda því fram að kerfið ráði úrslitum í þessu efni. Það sem hefur reynst mörgum þyngst í skauti og kannski fyrst og fremst verið erfiðast á Vestfjörðum, er þessi gríðarlegi samdráttur á veiðiheimildum án þess að fyrirtækin fengju nokkurn stuðning til að standa af sér þennan efnahagslega samdrátt upp á nærri 50%. Mér er sem ég sæi fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem það er í verslun, heildverslun eða opinberar stofnanir standa það af sér að þurfa að veita sömu þjónustu fyrir helminginn af því fé sem þau hafa haft og þurft til að reka sína stofnun eða sitt fyrirtæki. Ætli það yrði ekki slæmt ástandið ef mönnum yrðu búin þau skilyrði eins gert var á þeim stöðum sem byggðu mikið á þorskveiðum? Þetta er reyndar ekki einvörðungu bundið við Vestfirði því nefna má staði eins og Grenivík og Snæfellsnes, og á Suðurlandi má nefna Þorlákshöfn og Stokkseyri sem að hafa farið mjög illa út úr þessum samdrætti. Þetta er fyrst og síðast efnahagsmál. Þessi löggjöf sem við erum að fjalla um er auðvitað bara partur af öllu því spilverki. Löggjöfin um stjórn fiskveiða er annar partur og þannig má halda áfram að telja.

Virðulegi forseti. Mér fannst hæstv. ráðherra fara offari í ályktunum sínum um stöðu útgerðar og fiskvinnslu í Færeyjum og draga þá ályktun að hún væri tilkomin af því að menn styddust við eitthvað annað fiskveiðistjórnarkerfi en hann telur að þeir ættu að gera.