Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 11:55:03 (4923)

1997-04-03 11:55:03# 121. lþ. 98.6 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[11:55]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 802, um breyting á lögum nr. 18 11. maí 1977, um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta er flutt til að afla ríkisstjórninni lagaheimildar til að unnt verði að ganga frá samningum um stækkun Íslenska járnblendifélagsins hf. við Elkem í Noregi og Sumitomo Corporation í Japan. Samningar þessir fela í sér tvö atriði sem afla þarf samþykkis Alþingis fyrir. Í fyrsta lagi lækkar eignarhlutur íslenska ríkisins í Íslenska járnblendifélaginu hf. vegna fyrirhugaðrar hlutafjárhækkunar í tengslum við stækkun verksmiðjunnar um einn viðbótarofn, úr 55% eignarhlut í 38,5%.

Þetta á sér stað þar sem hlutafjárhækkunin er af öllu leyti fjármögnuð af Elkem. Þetta kallar á breytingu á 2. gr. laga um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði sem kveðið er á um að ekki minna en 51% af hlutafé félagsins skuli að jafnaði vera í eigu ríkisins og stjórn þess skipuð fulltrúum ríkisins að meiri hluta.

Í öðru lagi þarf heimild til að ráðstafa þeim 38,5% eignarhlut sem ríkið heldur þá eftir. Er ætlunin að félagið verði gert að almenningshlutafélagi að undangengnu hlutafjárútboði með skráningu á hlutabréfamarkaði hér á landi. Hefur verið samið um breytingar á samþykktum félagsins sem tryggja að skilyrði slíkrar skráningar séu uppfyllt. Hlutafé íslenska ríkisins verði síðan selt á markaði í áföngum að undanskildum 12% sem hinir erlendu samstarfsaðilar eiga kauprétt á til 1. júlí 1999.

Meginmarkmið samningsins er að styrkja samkeppnisstöðu járnblendifélagsins, auka erlenda fjárfestingu í atvinnulífinu og leggja þar að auki grundvöll að frekari stækkun félagsins. Staða Elkem og Sumitomo helst að öðru leyti óbreytt og halda sölusamningar járnblendifélagsins við þessi fyrirtæki gildi sínu. Jafnhliða er þó samið um breytingu á umboðssölusamningi við Sumitomo þar sem tekið er tillit til þess mikla mismunar sem er á verðlagi á kísiljárni í Japan annars vegar og í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum hins vegar.

Nafnverð hlutafjárhækkunarinnar er 423,9 milljónir króna eða 40,8 millj. norskra króna, en fjárhæð sú sem Elkem greiðir fyrir þann hlut er 932,5 milljónir króna. Byggist fjárhæð þessi á samkomulagi hluthafa um að meta heildarverðmæti alls hlutafjár í verksmiðjunni á 2.548 milljónir króna áður en greiddur er út arður fyrir árið 1996.

Matsverð fjárfestingarbankans Salomon Brothers á verðgildi heildarhlutafjár í Íslenska járnblendifélaginu hf. var á bilinu 2.300--2.600 millj. ísl. kr. Tvö íslensk verðbréfafyrirtæki, Kaupþing og Íslandsbanki, mátu hlutafé á 2.600--3.000 millj. kr.

Í tengslum við umræðu um verðmæti hlutafjár Íslenska járnblendifélagsins hf. var Kaupþing einnig fengið til að meta verðmæti hlutafjár í Íslenska járnblendifélaginu hf. ef ekki yrði af frekari stækkun og verksmiðjan yrði áfram rekin með tvo ofna. Í niðurstöðum fyrirtækisins kemur fram að verðmætið sé um 2.000--2.200 millj. ísl. kr. Af þessu sést hversu miklir hagsmunir voru við það bundnir að samkomulag næðist um stækkun verksmiðjunnar.

Samhliða samkomulagi um stækkun náðist einnig samkomulag um nokkur mikilvæg rekstraratriði, m.a. að rannsóknar- og þróunarstarf verði fest í sessi og eflt í fyrirtækinu á Grundartanga, að óháður mælikvarði sem byggist á viðskiptum milli óskyldra aðila eigi við um öll viðskipti félagsins, að hver hluthafi hafi rétt til að skipa óháðan löggiltan endurskoðanda til að yfirfara slík viðskipti og að fyrirtækið verði rekið sem sjálfstæð rekstrareining.

Meginatriði samningsins er að sjálfsögðu að settur verður upp þriðji bræðsluofninn í verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf. á Grundartanga sem mun auka afkastagetu verksmiðjunnar um rúmlega 50%. Framkvæmdir við þriðja bræðsluofninn verða fjármagnaðar að nálægt þriðjungi með auknu hlutafé sem Elkem leggur til að öllu leyti eins og fyrr segir. Framkvæmdakostnaður verður að öðru leyti fjármagnaður með lánsfé.

[12:00]

En samningnum er ekki síður ætlað að leggja grundvöll að frekari stækkun verksmiðjunnar með fjórða bræðsluofninum og síðar hugsanlega þeim fimmta. Í því sambandi er samið um að ef ákvörðun er tekin um byggingu á fjórða bræðsluofninum fyrir 1. júlí 1999 eigi Elkem kauprétt á 9% hlut í félaginu af ríkinu. Umsamið kaupverð þess hlutar verður 318 millj. ísl. kr. sem samsvarar genginu 2,5. Miðað við það gengi verður markaðsverð heildarhlutafjár í félaginu eftir stækkun um 3,5 milljarðar ísl. kr. Sumitomo hefur að sama skapi kauprétt á 3% við sömu aðstæður og sömu skilmálum.

Til að árétta þennan vilja hluthafanna hafa þeir undirritað sameiginlegt minnisblað þar sem þeir ásamt Landsvirkjun lýsa yfir sameiginlegum hagsmunum af frekari stækkun verksmiðjunnar. Minnisblað þetta tekur til þess möguleika að verksmiðja járnblendifélagsins verði stækkuð umfram þá stækkun sem nú hefur verið tekin ákvörðun um. Í minnisblaðinu er gert ráð fyrir möguleika á fjórða ofni og hugsanlega fimmta ofni í framtíðinni.

Frv. þetta snertir einungis þann þátt laganna sem snýr að eign íslenska ríkisins á meiri hluta í járnblendifélaginu. Jafnframt er leitað heimildar til sölu á eignarhlut ríkisins á almennum markaði. Aðrar breytingar sem verða á samstarfinu kalla ekki á lagabreytingar en sérstaklega skal tekið fram að eldri samningar og gildandi lög um járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði gera ráð fyrir að verksmiðjan stækki án þess að lagabreytingar þurfi til. Hefur þetta m.a. þau áhrif að ekki er nauðsynlegt að fram fari sérstakt mat á umhverfisáhrifum í samræmi við lög nr. 63 21. maí 1993, um mat á umhverfisáhrifum. Félagið þarf hins vegar að afla starfsleyfis fyrir þriðja ofninn og í því hefur verið kveðið á um skilmála þar að lútandi.

Eðlilegt þykir þó að félagið láti á eigin vegum framkvæma mat á umhverfisáhrifum og kynna það hlutaðeigandi staðbundnum stjórnvöldum og nágrönnum verksmiðjunnar. Slíkt mat á umhverfisáhrifum sem fram fer á vegum félagsins er einnig mikilvægur grundvöllur að útgáfu starfsleyfis fyrir félagið. Ráðuneytið hefur þegar rætt við forsvarsmenn félagsins um mikilvægi þess að vel verði að umhverfismálum staðið og vandað verði til útgáfu starfsleyfis. Jafnframt má búast við að í starfsleyfinu sem útgefið verður vegna stækkunarinnar sé hert á eftirliti með framkvæmd skilmála.

Þjóðhagsstofnun hefur metið þjóðhagsleg áhrif 40 þúsund tonna aukningar á framleiðslugetu Íslenska járnblendifélagsins hf. á ári. Áætlað er að fjárfesting vegna stækkunarinnar nemi um sex milljörðum kr. Aukning fjárfestinga í heild frá því sem annars hefði orðið er um 2%. Ársverk vegna framkvæmdanna á árunum 1999--2000 verða u.þ.b. 300 en 30 frambúðarstörf skapast. Hagvöxtur ársins 1999 verði 3% í stað 2,5% og varanleg heildaraukning þjóðarframleiðslu u.þ.b. 0,2%.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frv. verði vísað til iðnn.