Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 12:04:15 (4924)

1997-04-03 12:04:15# 121. lþ. 98.6 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[12:04]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins í meginatriðum taka undir það frv. sem hér er til umræðu, um breyting á lögum um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Lögin lúta að afnámi skilyrðis varðandi meirihlutaeign íslenska ríkisins í félaginu og að heimild til sölu á eignarhlut ríkisins í hlutafélaginu. Það er ástæða til að nefna það, í umfjöllun um málið, að líklegt er að á samdráttartímanum 1992 og 1993 hafi meirihlutaeign íslenska ríkisins skipt höfuðmáli hvað varðar áframhaldandi rekstur Íslenska járnblendifélagsins. Aðstæður voru þá mjög snúnar og það var kannski í raun það sem réði því að verksmiðjureksturinn stöðvaðist ekki. Ég hallast almennt að því, herra forseti, að það sé skynsamlegt að ríkisvaldið dragi sig úr rekstri þar sem því verður við komið. Möguleikar íslenska ríkisins í þessu tilviki voru bundnir við það að um stækkun verksmiðjunnar yrði að ræða þannig að rekstur og orkusala væri tryggð í framtíðinni. Ég tel að við krappar aðstæður hafi tekist að ná viðunandi samningum og ég vil fagna því að þessum áfanga er náð.

En ég vil auðvitað minna á það, um leið og ég segi þessi orð, að starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins lögðu mikið á sig á samdráttartímum. Eiga þeir ásamt stjórnendum þakkir skildar fyrir dugnað, fórnfýsi og samstöðu í markaðsþrengingunum á árunum 1992 og 1993.

Ég tel ekki ástæðu til þess að óttast aukna eignaraðild Elkem í fyrirtækinu. Með stækkun verksmiðjunnar um einn ofn og í framhaldinu jafnvel um fleiri er, eftir því sem ég best get séð, rekstrargrunnur fyrirtækisins varanlega tryggður í framtíðinni. Og þetta skiptir höfuðmáli. Atvinnuöryggi starfsmanna er meira eftir þessa breytingu en áður. Hins vegar skil ég að sjálfsögðu áhyggjur starfsmannanna. Þeir vita auðvitað hvað þeir hafa búið við en ekki hvað framtíðin ber í skauti sér nákvæmlega frekar en aðrir. En það sem ég tel að skipti máli við þessa samningsgerð og við þessa lagabreytingu er að núna er a.m.k. tryggt að íslenskur forstjóri verður við stjórn. Rannsóknir og þróunarstarf munu eflast. Það verður um fjölgun starfa að ræða í fyrirtækinu. Afkoma sveitarfélaganna í nánasta nágrenni mun styrkjast verulega. Rekstrargrunnurinn er tryggður eins og vera má. Þess vegna styð ég þetta frv. og fagna þeim áfanga sem hefur náðst undir forustu hæstv. iðnrh.