Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 12:34:31 (4932)

1997-04-03 12:34:31# 121. lþ. 98.6 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[12:34]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann vel að vera að Hollustuvernd sé ekki í stakk búin til að sinna eftirliti. Ég þekki það ekki. Það kann einnig vel að vera að á þeim bæ hafi ekki verið staðið að eftirliti gagnvart járnblendiverksmiðjunni eins og ætti að gera. Staðreyndin er hins vegar sú að á vegum Íslenska járnblendifélagsins vegna starfseminnar á Grundartanga, hefur verið leitast við að standa eins vel að málum eins og nokkur kostur hefur verið eins og þeir þekkja sem hafa komið á Grundartanga og hafa kynnt sér starfsemina þar.

Mér er það fullkunnugt að starfsmenn járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga taka mjög nærri sér þá gagnrýni og þær fullyrðingar og í sumum tilvikum stóryrði í garð starfseminnar. Sem betur fer hefur það ekki heyrst hjá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur hér en engu að síður hafa mörg stór orð verið höfð uppi um mengandi starfsemi. Engu að síður vil ég segja það, hæstv. forseti, að auðvitað eigum við að gera miklar kröfur um mengunarvarnir í okkar landi. Við eigum hins vegar að gera það þannig að ekki sé farið neinu offari og að sanngirni sé sýnd. En við eigum að gera ríkar og miklar kröfur um mengunarvarnir og velja þá iðju og þá framleiðslu inn í landið sem skapar ekki hættu fyrir náttúru landsins. Ég tel að stjórnvöld, í tilviki hæstv. iðnrh. og hæstv. umhvrh., hafi lagt metnað sinn í að standa bærilega að. Enda tel ég að það sé skylda þeirra og vilji eins og komið hefur fram.