Útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu á Grundartanga

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 14:03:27 (4938)

1997-04-03 14:03:27# 121. lþ. 98.95 fundur 269#B útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[14:03]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Það eru þrír þættir þessa máls sem aðallega hafa verið til umræðu. Það er í fyrsta lagi starfsleyfið, annars vegar með tilliti til staðbundinnar mengunar og hins vegar nú með tilliti til útgáfu leyfisins. Í öðru lagi er það staðsetning álversins og í þriðja lagi eru það þær alþjóðlegu skuldbindingar í umhverfismálum sem við höfum undirgengist.

Ef ég fjalla fyrst um það hvernig álverinu var valinn staður, þá er það mín skoðun að á gerð svæðisskipulags, á breytingum á skipulagi á svæðinu sjálfu þar sem álverið á að rísa og á umhverfismatinu, séu hnökrar. Hversu alvarlegir þeir eru er ekki mitt að dæma um eða okkar hér á hv. Alþingi. Við höfum falið öðrum það verkefni og það verður að koma í ljós hvernig úr þeim málum rekst. En það breytir ekki því að hnökrar eru á framkvæmd þessara atriða.

Það getur leitt til þess að ímynd þessa svæðis sem landbúnaðarsvæðis og svæðis til útivistar og ferðamennsku getur breyst. Þetta eru þættir sem ekki hefur verið tekið tillit til í þessari vinnu. Ég hef lagt áherslu á að við endurskoðun laga sem um þessi mál fjalla höfum við hliðsjón af þessum atriðum og leitumst við að breyta lögunum á þann hátt að þessi vandamál muni ekki koma upp aftur.

Hvað varðar þær alþjóðlegu skuldbindingar á umhverfissviðinu sem við höfum undirgengist þá er fyrst og fremst um að ræða rammasamning um loftslagsbreytingar. Eins og fram hefur komið þá eiga sér nú stað viðamiklar alþjóðlegar samningaviðræður um það hvernig þessi rammasamningur verður útfærður hvað varðar einstakar þjóðir og þjóðahópa og væntanlega mun á þessu ári verða gengið frá samningi í Kyoto í Japan um þetta efni. Og þá munum við fyrst sjá hverjar eru hinar raunverulegu skuldbindingar sem við þurfum að undirgangast. Það breytir ekki því að okkur ber að fara varlega í þessum efnum og hafa í huga hvað framtíðin gæti borið í skauti sér, en við þurfum líka að hafa í huga að það er ekki stöðnun á þessu sviði, allt er breytingum undirorpið og verið er að vinna að ýmsum málum sem geta bæði létt okkur og öðrum þjóðum að gera breytingar á þessu sviði í framtíðinni, m.a. hvað varðar brennsluefni til þess að framleiða orku og eins hvernig uppgræðsla á landi getur komið inn í þessa mynd. Það má kannski segja að það séu hlutir sem við ættum hvort sem er að sinna hér á landi í miklu ríkara mæli en við höfum gert til þessa og það væri þá einungis gott ef alþjóðlegir samningar munu þrýsta á okkur til þess enn frekar.

Um starfsleyfið efnislega er það að segja að um það hefur verið fjallað af umhvn. Alþingis og vil ég vísa til þeirrar skýrslu sem liggur hér frammi. Í stórum dráttum er niðurstaða nefndarinnar sú að ekki sé ástæða til að óttast það að þessi starfsemi hafi beinlínis hættu í för með sér og að því leyti sé starfsleyfið í samræmi við aðstæður á þessum stað. Raunar er niðurstaðan sú að starfsleyfið er mun strangara en það starfsleyfi sem nú er í gildi í Straumsvík og það starfsleyfi sem lagt hafði verið til að gefið væri út fyrir Keilisnes. Reyndar veit ég ekki til þess að það séu starfsleyfi í gildi sem eru strangari en þetta.

Hvað varðar útgáfuna þá má auðvitað segja að það sé skrýtið að starfsleyfið sé gefið út að kvöldi dags daginn fyrir skírdag. En hvenær hæstv. ráðherra velur að uppfylla sínar embættisskyldur getur ekki verið stórt mál í þessu samhengi og hvort hann kýs að vinna á daginn eða nóttunni gildir einu fyrir mig. Hins vegar er ljóst af umræðunni um málið og því sem fram hefur komið á undanförnum vikum að full ástæða er til þess að endurskoða lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, en samkvæmt þeim lögum er þetta starfsleyfi gefið út. Ég veit ekki betur en sú vinna sé þegar hafin og það mun þá væntanlega verða hlutverk umhvn. Alþingis að fjalla um það frv. þegar og ef það kemur fram. Þeim mun fyrr sem það kemur, þeim mun betra því þá getum við tekið til óspilltra málanna.