Útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu á Grundartanga

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 14:09:11 (4939)

1997-04-03 14:09:11# 121. lþ. 98.95 fundur 269#B útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[14:09]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hæstv. umhvrh. og hæstv. iðnrh. ganga nú samhentir fram í því að koma Columbia-álverinu fyrir á Grundartanga enda þótt umhvrh. hafi í máli sínu áðan viljað skilja algerlega á milli verkefna þeirra. En svo mikið liggur við að eðlileg atvikaröð virðist ekki skipta þá nokkru máli og allt þetta ferli er í rauninni orðinn einn allsherjarskrípaleikur.

Hæstv. iðnrh. lætur vinna umhverfismat sem framkvæmdaraðila ber að gera lögum samkvæmt og þetta umhverfismat er að mörgu leyti mjög gagnrýnivert þótt ráðherra láti alla gagnrýni sem vind um eyru þjóta. Þá skrifar iðnrh. undir samninga við Columbia og óskar því næst eftir lagalegri heimild fyrir þeim samningum. En áður en Alþingi hefur afgreitt það frv. gefur hæstv. umhvrh. út starfsleyfi til verksmiðjunnar og þá er ekki beðið boðanna með að hefja framkvæmdir án þess að búið sé að hanna byggingar. Það næsta sem fréttist er að nú séu menn í óða önn að hanna og útboð sé á næsta leiti þó þegar sé byrjað á verkinu. Er nema von að öllum almenningi blöskri þessi vinnubrögð og menn viti í raun ekki hvaðan á þá stendur veðrið?

Hlutur hæstv. umhvrh. í þessu máli er til lítillar fyrirmyndar. Allt þetta ferli hefur sætt mikilli og rækilega rökstuddri gagnrýni og þá ekki síst tillaga Hollustuverndar að starfsleyfi sem hann hefur nú haft til meðferðar í nokkrar vikur. Öll sú gagnrýni og rökstuðningur hafa lítil áhrif haft á ráðherrann og hann lét það verða sitt síðasta verk fyrir skírdag að gefa út starfsleyfi fyrir álverksmiðju Norðuráls hf. á Grundartanga öllum á óvart. Það var að vísu með nokkrum fyrirvörum um hugsanlega endurskoðun með tilliti til niðurstaðna úrskurðarnefndar sem á næstu vikum mun fjalla um kærur vegna starfsleyfisins. Sjálfur lýsir hann því svo að hann hafi að ýmsu leyti hert skilyrðin í þessu starfsleyfi en þau skilyrði felast einkum í hertu eftirliti sem Hollustuvernd er bersýnilega ekki í stakk búin til að hafa með höndum. Þá stærir hæstv. ráðherra sig af því að hafa sett skilyrði um aukin fundahöld þar sem Norðurál hf. á að skýra hver árangur sé af mengunarvörnum. Úrræði við hugsanlegum brotum í sambandi við mengunarvarnir eru eingöngu fólgin í fundahöldum og meiri fundahöldum.

Þetta eru nú þau hertu skilyrði sem hæstv. umhvrh. telur sig hafa sett og eftir stendur að enn þrjóskast hæstv. umhvrh. við að setja fram kröfur um vothreinsun sem fjölmargir sérfræðingar telja nauðsynlega til að tryggja bestu varnir gegn mengun. Ég skil satt að segja ekki vinnubrögðin í þessu máli. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvar í heiminum annars staðar en hér svona lagað gæti gerst. Það gæti ekki gerst að minni hyggju í öðrum ríkjum en þeim sem ekki eru langt komin á þróunarbraut.

Eitt af síðustu verkum Alþingis fyrir páskaleyfi var einmitt að ræða frv. til laga um heimild til samninga um byggingu og rekstur álbræðslu á Grundartanga og það var að sjálfsögðu aðeins 1. umr. um málið. Það er nú komið til hv. iðnn. sem þarf sinn tíma til umfjöllunar. Síðan eru 2. og 3. umr. eftir þannig að með tilliti til allra annarra mála sem þingið hefur með höndum verður það ekki afgreitt fyrr en í næsta mánuði. Af einhverjum ástæðum þykir ríkisstjórninni það einhvers vert að hafa heimild Alþingis til málsins og það eru harla einkennileg vinnubrögð að rjúka síðan af stað með starfsleyfi og upphaf byggingarframkvæmda áður en heimildin hefur verið afgreidd og minnir nú helst á það títtnefnda atferli að skjóta fyrst og spyrja svo. Auk þess er fjármögnun verksins ekki enn frágengin og ekki var til þess vitað að farið hafi fram útboð af neinu tagi vegna framkvæmda, hvað þá að búið væri að hanna byggingar eða skipuleggja verkþætti. Þrátt fyrir þetta mæta framkvæmdaaðilar þegar á laugardag milli hátíðisdaga, föstudagsins langa og páskadags, og hefja jarðrask á álverslóðinni á Grundartanga eins og til þess að helga sér svæðið. Reyndar fylgdi sögunni að einhver hefði áður mætt á staðinn með skóflu og sótt sér mold í krukku en allt með mikilli leynd og sýnir það kannski best hvernig allt þetta mál er vaxið og hvert mark menn taka á eðlilegum vinnubrögðum og leikreglum í þessu efni.

Allt þetta ferli og öll þessi atburðarás sýnir einfaldlega að álver skal rísa á Grundartanga hvað sem hver segir. Hæstv. iðnrh. og hæstv. umhvrh. eru gjörsamlega skotheldir gegn öllum rökum og gagnrýni í málinu. Eftir stendur að þeirra framtíðarsýn í umhverfis- og atvinnumálum er ófögur og metnaðarlaus sem spillir fyrir möguleikum til uppbyggingar annarra og umhverfisvænni atvinnukosta og betra mannlífs í þessu landi.