Útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu á Grundartanga

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 14:41:01 (4945)

1997-04-03 14:41:01# 121. lþ. 98.95 fundur 269#B útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[14:41]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Undanfarnir mánuðir, vikur og dagar hafa verið dökkir fyrir þá sárafáu hv. þingmenn og aðra sem frekar velja atvinnuleysi en aukin atvinnutækifæri, sem frekar velja stöðnun en efnahagslegar framfarir og frekar velja versnandi lífskjör en aukinn kaupmátt. Þessir menn hafa því miður ekki séð til sólar undanfarnar vikur nema rétt þá sárafáu daga sem vonin kviknaði hjá þessum sárafáu mönnum, bæði innan þings og utan, um að samningarnir um járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga gengju ekki eftir. (SvG: En það er sól í Hvalfirði.)

Með þeim samningum sem þarna hafa verið gerðir hefur tekist að rjúfa áratuga kyrrstöðu sem hefur verið í stóriðjumálum á Íslandi, sem m.a. var komið á fyrir tilstuðlan Alþb. í ríkisstjórn á sínum tíma. Aftur er nú hafin nýting orkuauðlindanna til efnahagslegra framfara í landinu því þeir samningar sem eru í burðarliðnum við byggingu álvers á Grundartanga og stækkun járnblendiverksmiðjunnar fela í sér fjárfestingu upp á 36 milljarða kr., 1.600 ársverk, aukinn útflutning upp á 8,5 milljarða, aukna fjárfestingu, sem annars hefði ekki orðið, um 14%, hagvöxt, sem hefði verið 2,5% en verður 4% ef þessir samningar ganga eftir, og varanlega heildaraukningu þjóðarframleiðslunnar um tæpt 1%. Þessar aðgerðir leggja grunninn að bættum efnahag fólksins í landinu sem svo sannarlega er þörf á.

Það er vert að benda á af því að málsmeðferðin við útgáfu starfsleyfisins hefur verið gerð hér að umtalsefni að sú ákvörðun sem liggur fyrir um útgáfu starfsleyfis fyrir álver Norðuráls hf. er sú sama og vegna útgáfu starfsleyfis fyrir Ísal haustið 1995 og enginn gerði athugasemdir við á Alþingi. Þ.e. leyfið var gefið út af hæstv. umhvrh. þegar tillögur Hollustuverndar lágu fyrir en áður en kærufresturinn rann út, áður en hann var liðinn. Málsmeðferðin er því öll fullkomlega eðlileg. Tillögur um starfsleyfi lágu fyrir þegar starfsleyfið var gefið út. Ekkert í stjórnsýslulögum, ekkert í mengunarvarnareglugerð mælir fyrir um að hugsanlegur kærufrestur vegna tillagna lægra setts stjórnvalds verði að líða áður en ákvörðun æðra setts stjórnvalds á grundvelli slíkra tillagna er tekin.

Í 10. gr. stjórnsýslulaganna er beinlínis gert ráð fyrir grundvallarreglunni um málshraða og í ákvæðum greinarinnar segir: ,,Ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er.`` Tillögur stjórnar Hollustuverndar voru settar fram í framhaldi af úrvinnslu athugasemda sem stofnuninni bárust með starfsleyfistillögunum og þær lágu fyrir 11. nóvember 1996 til 13. janúar 1997. Þær höfðu hlotið mjög ítarlega umfjöllun í stjórn Hollustuverndar áður en stjórnin afgreiddi málið. Með hliðsjón af grunnreglum stjórnsýslulaga var umhvrh. bæði rétt og skylt að gefa leyfið út svo fljótt sem unnt var.

Í 11. gr. stjórnsýslulaganna kemur fram sú regla sem nefnd hefur verið jafnræðisreglan og menn hafa gert mikið úr í umræðu hér bæði fyrr og nú. Þar segir að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í reglunni felst að mál sem eru sambærileg í lagalegu tilliti skuli njóta sams konar úrlausna. Hér er því fylgt fordæmi við útgáfu starfsleyfis Ísals á grundvelli meginreglunnar um jafnræði. Það var ekki hægt að meðhöndla starfsleyfi Norðuráls á Grundartanga með öðrum hætti, og enginn gerði athugasemdir við á sínum tíma, en starfsleyfi Ísals var meðhöndlað á þeim tíma. Ákvörðun umhvrh. er því að mínu viti fullkomlega eðlileg og byggir á þessum tveimur megingrundvallarreglum stjórnsýslulaganna, þ.e. um málshraðann og jafnræðið. Þetta er það sem hv. þingmenn hafa mest gert úr í flestum málum, þ.e. jafnræðisreglan og málsmeðferðin. Svo eru auðvitað til þeir einstaka hv. þingmenn sem finnst að alla hluti þurfi að gera eins flókna og nokkur kostur er því þeir lifa enn á þeim gömlu hugmyndum sem Sovétríkin byggðu á, að koma engu í gegn, hafa hlutina eins flókna og láta þá taka eins langan tíma og nokkur kostur er.