Útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu á Grundartanga

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 14:48:36 (4947)

1997-04-03 14:48:36# 121. lþ. 98.95 fundur 269#B útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[14:48]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þeim sem hér hafa talað fyrir þátttöku í þessari umræðu. Sumar ræður hafa mér fundist vera skynsamlegar og jákvæðar, þar sem menn hafa leitast við að fjalla um það sem er álitaefni í sambandi við þennan gjörning fyrst og fremst, þ.e. málsmeðferðin sem ég gerði að umtalsefni í upphafi sem er ástæða þessarar umræðu, réttarstaða fólksins í landinu, réttarstaða til þess að gera athugasemdir lögum samkvæmt og fá úrskurð sem geti haft áhrif á málsniðurstöðu. Og ég þakka fyrir stuðning við það sjónarmið sem hér hefur komið fram frá talsmönnum tveggja þingflokka fyrir utan Alþb., frá Kvennalista og Alþfl., og alveg sérstaklega ummæli hv. þm. formanns þingflokks jafnaðarmanna, Rannveigar Guðmundsdóttur, um það efni því að hún skildi hvað um var að ræða.

Við erum ekki að fjalla um innihald þessa starfsleyfis efnislega eins og einhverjir virtust halda, eins og t.d. formaður umhvn. Ég taldi það mjög verðmætt að hv. formaður umhvn. afhjúpaði sig hér fyrir framan alþjóð eins og hann gerði, ég tel það mikilsvert. En það er ekki mjög efnilegt fyrir Framsfl. ef þeir falla ráðherrarnir sem nú sitja, ef slíkir eiga að taka við. Það er ekki falleg framtíðarsýn, því miður, virðulegur forseti.

Það eru vissulega efnisþættir sem varða málsmeðferð sem hér hefur verið drepið á og ég kom ekki á framfæri í lok máls míns áðan og ætla að leyfa mér að hnykkja á, en var komið inn á af talsmönnum eins og hv. þm. Árna M. Mathiesen sem ræddi spurninguna um hin alþjóðlegu viðhorf sem tengjast þessu máli. Það eru nú ekki neinar smáspurningar sem þar eru uppi. Ég leyfði mér að spyrja hæstv. ráðherra, virðulegi forseti, í máli mínu hér í dag og ég endurtek hér: Telur umhvrh. réttlætanlegt að gefa nú út starfsleyfi sem hefur að mati ráðuneytisins í för með sér árlega viðbótarlosun á 373 þúsundum tonnum af gróðarhúsalofttegundum í ljósi þess að fyrir lok ársins 1997 er með þátttöku Íslands stefnt að lúkningu lagalega skuldbindandi alþjóðasamninga um verulegan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda? Og ekki síður spurningin um það hverjir í samfélaginu eigi að taka á sig niðurskurð á losun gróðurhúsalofttegunda vegna þeirrar viðbótar sem ráðherrann nú hefur heimilað með útgáfu starfsleyfis til álbræðslu á Grundartanga. Ég bið um svör við þessum spurningum. Þetta eru brennandi spurningar sem við getum staðið frammi fyrir í byrjun næsta árs.

Ég hlýt einnig að spyrja, virðulegur forseti, vegna þess að hæstv. ráðherra vék sér undan að svara því skýrt hvers vegna hann virðir ekki valdmörk milli ráðuneytisins og lögformlegrar úrskurðarnefndar. Hvernig leyfir hann sér það, hvernig rökstyður hann það að gera það ekki? Er það svo, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra ætli að leyfa sér það að virða niðurstöður slíkrar úrskurðarnefndar að vettugi, telji að hann geti komist upp með það að virða hugsanlega úrskurði að vettugi eins og hann greindi hér frá? Ég tel alveg augljóst að það verður að breyta starfsleyfi ef úrskurðir falla þannig hjá þessari nefnd, hvað svo sem hæstv. ráðherra segir því hann er ekki æðsta stjórnvald gagnvart úrskurðarnefndinni. Hún er sjálfstæð. Það er kjarni þessa máls. Og hvernig stendur þá ríkissjóður og íslenska ríkið gagnvart skaðabótakröfum? Hæstv. ráðherra vísar í gjörning sem hann hefur undirritað með Norðuráli og á að skjóta skildi fyrir ríkið. Hver sér út úr því sem þar stendur skrifað sameiginlegri yfirlýsingu að Norðurál, Columbia Corporation, hafi afsalað sér rétti til skaðabóta? Ekkert slíkt stendur þarna.

Það er satt að segja ömurlegt, virðulegur forseti, að verða vitni að því að ábyrgðaraðilar þessa máls leiða hjá sér að svara grundvallarspurningum sem hér eru fram bornar um leikreglur í landinu. Og það er ástæða til þess að hafa miklar áhyggjur af því að Framsfl. skuli nú svo komið sem raun ber vitni í sambandi við þessi mál og í sambandi við umhverfismál einnig efnislega. Það hefðu sumir sem töluðu öðruvísi á Alþingi fyrrum ekki viljað lifa þann dag að hlusta á þær raddir sem hér hafa hljómað í dag frá talsmönnum þessa flokks, því miður.