Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 15:02:04 (4949)

1997-04-03 15:02:04# 121. lþ. 98.6 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[15:02]

Svavar Gestsson (frh.):

Herra forseti. Ég hafði fyrr í umræðum í dag farið aðeins yfir framtíðarsýn í íslenskum atvinnumálum sem mér fannst skorta í málflutningi ríkisstjórnarinnar í sambandi við stóriðju í Hvalfirði. Ég fór yfir eignarhaldið á járnblendiverksmiðjunni og rakti aðeins kosti þess, sem ég tel að séu ótvíræðir út af fyrir sig og ég vil ekki að gleymist, og bað hæstv. ráðherra um að fara um það nokkrum orðum og var þar kominn máli mínu og átti eftir að fjalla um nokkur önnur atriði.

Áður en lengra er haldið vil ég leyfa mér að segja í tilefni af þeirri umræðu sem var áðan sem tengist þó þessu máli, að þegar hæstv. iðnrh. er farinn að bregða mér eða öðrum talsmönnum Alþb. um að við viljum atvinnuleysi, en það hefur hann gert fjórum sinnum í þessum ræðustól, þá sýnir það bara að hann er í vörn og hefur slæma samvisku. Sérstaklega þó þegar hann botnar ræðu sína eins og hann gerði áðan, eins og hv. forveri hans gerði ævinlega, eins og hv. fyrrv. heilbrrh. Sighvatur Björgvinsson, þegar mjög þrengdi að í umræðum okkar í milli stökk hann ævinlega til Sovétríkjanna sálugu og það gerir eftirmaður hans líka. Það má út af fyrir sig segja að það sé ekki leiðum að líkjast og ég er ekkert að gagnrýna ráðherrann fyrir það, en ég segi: Þetta er til marks um að hann er í vörn. Mér finnst hins vegar að þetta sé ekki málflutningur sem þjónar þeim markmiðum sem málflutningur hér á að gera, þ.e. að komast að rökréttri niðurstöðu.

Varðandi járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga sem hér er til umræðu ætla ég að koma í þriðja lagi að samningsaðferðinni og vinnubrögðunum og segja: Ég gagnrýni þau mál. Mér finnst að hlutur Íslands sé of lágt metinn. Mér finnst að við gefum of mikið með dæminu. Mér fannst óþarfi að gefa yfirlýsinguna um fjórða og fimmta ofninn fyrir fram eins og í raun og veru var gert, m.a. í stjórn Landsvirkjunar þar sem ég greiddi atkvæði á móti því, og mér fannst líka að það hefði mátt hafa starfsfólkið betur með í ráðum um þróun mála en gert var.

Ég vil hins vegar endurtaka það sem ég sagði í morgun að ég tel að stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga geti ekki flokkast undir það sem kalla má stórmál vegna þess að hér er um að ræða tiltölulega litla viðbót við fyrirtæki sem við þekkjum. Hér verður um að ræða um það bil 30 manna starfslið þegar fram í sækir. Það eru öll ósköpin sem eru að bætast við í varanlegum störfum. Það er út af fyrir sig gott það litla sem það er, en það sem er erfitt í málinu og flókið er að þetta skuli endilega þurfa að bera upp á sama tíma og menn eru hér að ræða um álverið á Grundartanga og það spillir fyrir, liggur mér við að segja, þessu máli sem er stækkun járnblendiverksmiðjunnar.

Ég ætla, herra forseti, aðeins að víkja að því atriði í þessu máli sem við vorum að nokkru leyti að ræða hér utan dagskrár áðan, en það eru umhverfismálin. Ég gagnrýni að þau eru ekki nefnd í frv. Mér finnst það ekki gott. Mér finnst að það ætti að vera skýrsla um umhverfismálin í þessu skjali eins og er í frv. um álver á Grundartanga, hvort sem menn eru sammála því eða ekki. Mér finnst að hér hefði þurft að fara aðeins betur yfir þau mál en er gert í örfáum línum á bls. 13. Ég ætla að vekja athygli á þessu í sambandi við umhverfismálin í heildarsamhengi, ég ætla ekkert að tala um þetta fyrirtæki eingöngu.

Á árunum 1995--2000 eykst útstreymi ígildis koltvíoxíðs um 292 þús. tonn á ári. Það er fyrst og fremst vegna stækkunar álversins í Straumsvík. Þetta er í fyrsta lagi, um 290 þús. tonn á ári.

Í öðru lagi er álver á Grundartanga og þar eru menn að tala um að bæta við 370 þús. tonnum af koltvíoxíðsígildi á ári.

Í þriðja lagi erum við að tala um stækkun járnblendiverksmiðjunnar og þar er um að ræða 160--170 þús. tonn á ári. --- Ég sé að hæstv. umhvrh. er hér, en ég ætla svo sem ekki að gera tilraun til að kyrrsetja hann í sjálfu sér. Ég veit að hæstv. iðnrh. kann þessi fræði að einhverju leyti. --- Samtals er hér um að ræða 700--800 þús. tonna aukningu á ári á koltvíoxíðsígildum frá 1995 til þess að þessum framkvæmdum er lokið. Ég man eftir því að á mínum yngri árum í stjórnmálum voru t.d. landbúnaðarráðherrar að mæla dyggð sína og afrek í því að þeir höfðu látið rækta svo og svo mikið og byggja svo og svo mikið af fjárhúsum og svo og svo marga súrheysturna. Einn landbúnaðarleiðtogi Sjálfstfl. gagnrýndi okkur í ákveðinni ríkisstjórn mjög harðlega fyrir að sauðfé í tilteknum kjördæmum hefði verið fækkað svo mikið. Sumir hæla sér fyrir að þeir hafi látið byggja svo og svo mikið af heilsugæslustöðvum, skólum eða leggja svo og svo mikið af vegum. En ég spyr, herra forseti: Finnst mönnum líklegt að Framsfl. muni hæla sér sérstaklega fyrir það í kosningabæklingum sínum 1999 að hann hafi tryggt að 700--800 þús. tonn af koldíoxíðsígildum bætist við á ári af gróðurhúsalofttegundum? Finnst mönnum það líklegt? En þetta er þó veruleikinn og það þýðir ekkert fyrir hæstv. iðnrh. að ætla sér að líta fram hjá því að um er að ræða stórkostlega aukningu á þessum eituráhrifum. Ef maður telur öll þau verksmiðjuáform sem nú er verið að tala um mundi það þýða að aukningin frá 1995 í þessum lofttegundum --- yrði hver? Hún yrði 144%. Menn sjá auðvitað hvað hér er um hrikalega hluti að ræða, það er verið að auka koldíoxíðsútblástur eða ígildi þess í ýmsum lofttegundum um 144% hér á landi á tiltölulega mjög stuttum tíma. Það getur vel verið að einhverjir hristi hausinn og telji þetta minni háttar mál eða menn telji stærðirnar svo miklar að það sé óskiljanlegt. En þetta er samt veruleikinn. Spurningin er þá sú: Er þetta ekki óhjákvæmilegt til þess að borga fyrir framfarirnar? Er þetta ekki óhjákvæmilegt til að borga fyrir lífskjörin? Mitt svar við því er nei. Vegna þess að ef við tökum t.d. það mál sem við erum að ræða hér, þá skilar það annars vegar 170 þús. tonnum af koldíoxíðsígildum út í andrúmsloftið á ári. En hins vegar skilar það --- hvað miklum hagvexti til frambúðar? 0,2%. Í mörgum siðuðum löndum í kringum okkur eru menn óðum farnir að reikna út hagvöxt m.a. með hliðsjón af umhverfiskostnaði, umhverfisútgjöldum. Ég er alveg sannfærður um að ef þetta mál yrði skoðað með þeim hætti sem ég er hér að rekja kæmust menn að þeirri niðurstöðu að það væri álitamál hvort þetta borgaði sig. En því miður, herra forseti, að tala um þá hluti er að tala fyrir daufum eyrum hér inni en úti í þjóðfélaginu er vaxandi skilningur á umhverfissjónarmiðum.

Ég heyrði það á hv. 9. þm. Reykn., vini mínum sem situr að baki mér núna í forsetastól, hæstv. forseti, að það væri nauðsynlegt að taka inn þessi atvinnufyrirtæki til þess að tryggja hér lífskjör og framfarir. Út af fyrir sig liggur það nákvæmlega þannig í mínum huga að við eigum að nýta orkuna og ég tek það fram og hef staðið að því sjálfur með skipulegum hætti að það verði gerðar áætlanir og teknar ákvarðanir um nýtingu orkunnar. Það er ekki spurningin. Spurningin snýst ekki um það heldur snýst spurningin um í hverju heildarsamhengi hlutirnir eru séðir. Ég tel t.d. að það að setja málflutning okkar alþýðubandalagsmanna upp með þeim hætti að við séum t.d. á móti þátttöku útlendinga í rekstri atvinnufyrirtækja á Íslandi sé rangt. Við höfum aftur og aftur lýst því yfir, m.a. með aðild okkar að alls konar frumvörpum sem hafa verið afgreidd á Alþingi, að það sé ekki þannig. En af einhverjum undarlegum ástæðum telja menn þörf á því að sverta okkur einmitt um þessar mundir með orðaleppum og því að leggja okkur í munn afstöðu af því tagi sem ég er hér að lýsa, afstöðu sem er ekki rétt. Hún er röng.

Þetta var um umhverfismálin, herra forseti, og þá kem ég næst að raforkusamningnum og ætla að segja: Ég tel mikla framför fólgna í því að hækka gamla raforkusamninginn. Ég tel að það sé verulegur ávinningur því að það er allt of lágt verð í þeim samningi. Það sem gerist í raforkusamningnum, eins og hann liggur hér fyrir, er að verið er að hækka rafmagnsverðið mjög verulega til ofnanna tveggja og síðan er gert ráð fyrir því að rafmagnsverðið breytist lítið eitt eftir að þriðji ofninn er kominn inn í myndina. Ég tel því að miðað við það sem við höfum í höndunum sé þessi samningur góður.

Hitt verð ég hins vegar að segja, og biðja hæstv. ráðherra að fara um það nokkrum orðum: Talsmenn fyrirtækisins, m.a. í Noregi, hafa sagt: Þetta er góður samningur af því að við borgum helmingi lægra verð fyrir orkuna hér en í Noregi. (Gripið fram í: Ekki helminginn.) Það hef ég séð reyndar í fjölmiðlum. Ég held að nauðsynlegt sé að átta sig á því og svo líka hinu að meiri hluti stjórnar Landsvirkjunar hefur tekið um það ákvörðun að loka inni upplýsingar um orkuverðið. Mér hefur verið tjáð að upplýsingar um orkuverðið hafi komið fram í fjölmiðlum í Noregi. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. að því í hvaða samhengi hann sér þá hluti að verið sé að tala um þetta mál tiltölulega opinskátt í Noregi meðan gerð er tilraun til að hafa þau lokuð hér. Mér sýnist reyndar á fjölmiðlum og heyrist á fjölmiðlamönnum að þeir hafi þessar upplýsingar að talsverðu leyti þannig að það orki mjög tvímælis að hægt sé að halda því fram að orkuverðið sé trúnaðarmál með þeim hætti sem gert var ráð fyrir. En um þetta hefði ég viljað biðja hæstv. ráðherra að fara nokkrum orðum.

Ég vil þá að lokum, herra forseti, áður en ég kem að niðurstöðu minni, segja: Byggðasjónarmiðin skipta máli í þessu dæmi. Það er verið að fara út í stórframkvæmdir á suðvesturhorninu og við Hvalfjörð. Úti á landi horfa menn á þann veruleika og það er eðlilegt. Í umræðunum um Landsvirkjun hér rétt fyrir jólin var talað um að arður ríkisins af eignarhlutanum í Landsvirkjun upp á 80 millj. kr. ætti að fara í atvinnuuppbyggingu á köldu svæðunum, eða eitthvað því um líkt held ég að það hafi verið kallað. Ég tel þetta svo sem upp í nös á ketti miðað við tug milljarða fjárfestingu sem verið er að tala um hér, 30--40 milljarða. En byggðamálin eru vissulega þáttur í þessu máli og ég tók ekki eftir því að hæstv. ráðherra nefndi þau í ræðu sinni áðan.

Að lokum svo þetta, herra forseti, varðandi málið. Ég tel að kostir þessa máls séu eftirfarandi:

1. Hér er um að ræða starfsemi sem við Íslendingar þekkjum og kunnum á.

2. Hér er ekki um að ræða verulegan stóran áfanga heldur tiltölulega viðráðanlegan.

3. Hér er verðlagsviðmiðun allt önnur en byggt er á t.d. í samningunum í Straumsvík eða ætlunin er að gera varðandi álverið á Grundartanga. Það er ekki byggt á alþjóðlegum hráefnisvísitölum heldur byggt á heildsöluverði í Noregi eins og það þróast á hverjum tíma.

4. Ég tel að orkusamningurinn sé að því leytinu til góður að hann hækkar verðið á núverandi hluta fyrirtækisins mjög verulega en vandinn við orkusamninginn er að nokkru leyti sá að hann er tengdur við viðbótina upp á fjórða og fimmta ofninn og við vitum ekkert hvað út úr því dæmi getur komið.

5. Ég tel það kost í þessu máli að Íslendingar eru hér að semja við fyrirtæki sem þeir þekkja.

Þá kem ég að göllunum og þeir eru í fyrsta lagi að mjög slæmt orð fer af Elkem að því er varðar t.d. starfslið. Ég tel að Elkem hafi sýnt mikla harðdrægni við stjórnvöld á Íslandi í þessu máli og ég hef áhyggjur af því að vita af þetta stóru fyrirtæki í höndunum á Elkem. Elkem hefur þá kosti að vera stórt og þekkt fyrirtæki en hefur þann galla að vera að sama skapi harðdrægt fyrirtæki. Ég tel það einnig galla í þessu sambandi, herra forseti, að ætlunin er að fara út í þessa stækkun á sama tíma og álverið á Grundartanga verður byggt. Ég tel það galla við dæmið eins og það lítur út. Ég tel það að lokum galla við þetta dæmi að það er hluti af skelfilegri umhverfismynd sem verið er að draga upp hér á landi sem gæti orðið hættuleg fyrir framtíðarlífskjör á Íslandi ef illa fer og loks tel ég það galla við málið, herra forseti, að ég tel að það sé ekki sett fram sem hluti af framtíðarsýn heldur eitt og sér og án tengsla við það sem það í raun og veru tengist.