Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 15:17:50 (4950)

1997-04-03 15:17:50# 121. lþ. 98.6 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[15:17]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það frv. sem hér er lagt fram annað en benda á að þeir atburðir sem gerst hafa varðandi stækkun járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði og þær umræður sem staðið hafa á milli eignaraðila sýna auðvitað og sanna hve afspyrnuslæmur samningur var á sínum tíma gerður þegar til þessarar verksmiðju var stofnað. Vegna þess að reynslan hefur leitt í ljós að sá samningur sem gerður var um meirihlutaeign Íslendinga í fyrirtækinu var um óvirka meirihlutaeign, ef marka má orð hæstv. iðnrh. sjálfs, sem gerði það að verkum að þegar erfitt árferði var fyrir verksmiðjuna urðu Íslendingar að reiða af höndum verulega fjármuni til þess að tryggja starfrækslu hennar undir þeim hatti að þeir væru jú meirihlutaeigendur verksmiðjunnar og hefðu því mesta ábyrgðina, en þegar síðan átti að nota þá meirihlutaeign í samningum um stækkun verksmiðjunnar kom í ljós að meirihlutaeignin var óvirk. Með öðrum orðum urðu samningarnir sem gerðir voru á sínum tíma einfaldlega til þess að leggja Íslendingum á herðar skuldbindingar umfram aðra án þess að réttindi fengjust á móti.

Í öðru lagi hefur líka komið í ljós að þeir samningar sem gerðir voru við Elkem um 3% þróunargjald voru ekki hagfelldir okkur Íslendingum, enda var það svo um margra ára skeið áður en tókst að afnema það þróunargjald að verksmiðjan flutti tækniþekkingu og nýmæli í stjórnum og vinnubrögðum út til annarra verksmiðja Elkem en þáði ekki þróunaraðstoð af einu eða neinu tagi, hvorki varðandi skipulagningu vinnu né í tækniþróun frá Elkem þrátt fyrir greiðslu sérstaks gjalds til þess erlenda sameignaraðila. Niðurstaðan af þeim samningaviðræðum sem farið hafa fram er að mínu viti sú að þær sýndu fram á að þeir samningar sem gerðir voru þegar til stofnunar verksmiðjunnar var gengið voru ekki hagfelldir frá sjónarmiði okkar Íslendinga, því miður.

Þess vegna er nokkur ástæða til að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra um framhaldið. Í fyrsta lagi er það mín spurning: Er búið að tryggja að Elkem, sem verður meirihlutaeigandi að járnblendiverksmiðjunni gangi þeir samningar fram sem nú er leitað staðfestingu á, muni ekki krefja verksmiðjuna í framtíðinni um þróunargjald eða ígildi þess?

Nú er það vitað um margar aðrar verksmiðjur í eigu Elkem að þar er lagt á sérstakt stjórnunargjald til aðalstöðva Elkem sem er þróunargjald með öðru nafni, þ.e. hluti af arði verksmiðjanna sem Elkem rekur og á er færður til aðalstöðvanna með þeim hætti að verksmiðjurnar eru látnar borga að vísu ekki þróunargjald heldur sérstakt stjórnunar- og umsýslugjald til aðalstöðvanna. Það er sú aðferð sem Elkem hefur til þess að ná til sín í eigin umsvif verulegan hluta af arði þeirra verksmiðja sem reknar eru á vegum þessa fyrirtækis. Því ítreka ég spurningu mína: Er búið að tryggja að slík gjaldtaka verði ekki af hálfu Elkem þegar járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði er komin í þeirra hendur?

Í öðru lagi er líka eðlilegt að spurt sé: Er búið að tryggja að það þróunarstarf sem unnið hefur verið á vegum járnblendiverksmiðjunnar og hefur skilað gríðarlegum árangri sem hefur m.a. verið nýttur í þágu annarra sambærilegra verksmiðja á vegum Elkem verði áfram unnið á Íslandi? Hvernig hefur það verið tryggt?

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum fleiri orðum um þetta mál þó full ástæða væri til, m.a. vegna þess að ég á sæti í þeirri nefnd sem fær frv. til athugunar, en eins og sjá má eru það fremur önnur atriði sem valda þessum umþenkingum mínum heldur en endilega það sem kemur fram í hinum fáu frumvarpsgreinum frv., enda eru þær út af fyrir sig held ég ekki ágreiningsefni í þinginu, menn eru almennt sammála um það sem þar kemur fram, en ég tel að af þessum samskiptum við Elkem megum við Íslendingar ýmislegt læra. Ég tel vissulega ástæðu til þess og er ég ekki andstæðingur þess að leitað verði eftir erlendu áhættufjármagni í atvinnustarfsemi á Íslandi heldur því mjög fylgjandi, en engu að síður, miðað við reynsluna sem við höfum haft af samstarfinu við Elkem, þá hef ég nokkrar áhyggjur af því að það samstarf kunni að reynast okkur áfram mjög erfitt.