Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 16:30:51 (4955)

1997-04-03 16:30:51# 121. lþ. 98.6 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[16:30]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Aðeins um þróunar- og markaðsgjöld sem ég svaraði áðan, þá er það alveg ljóst að Elkem getur ekki tekið nein slík gjöld á óeðlilegan hátt. Það er hins vegar ekkert að því að járnblendifélagið borgi Elkem fyrir einhverja slíka þjónustu sé hún veitt og að þau viðskipti eigi sér stað eins og á milli óskildra aðila.

Það að fulltrúar Elkem og Sumitomo komi í heimsókn í iðnn. þá fyndist mér það í sjálfu sér vera sjálfsagt ef hægt er að koma því við á þeim tíma sem nefndin er starfandi. Nú er það svo að fulltrúar Elkem eru staddir hér á landi þessa stundina og forstjóri járnblendideildarinnar þar verður hér þangað til á laugardaginn. Ef iðnn. vill halda fund fyrir helgi þá er ég viss um að fulltrúi fyrirtækisins væri tilbúinn til að koma til fundar við nefndina á þeim tíma. Það er aftur talsvert lengri veg að fara fyrir fulltrúa Sumitomo, eða yfir hálfan hnöttinn, til að koma hingað. (SvG: Nefndin gæti farið.) Já, það mætti hugsa sér að nefndin færi í heimsókn en þetta er nú eitt að því sem nefndin þarf að fara yfir síðar meir.

Varðandi meirihlutaeignina er það alveg rétt að hún hefur tryggt að fyrirtækið er enn starfandi og ég held að við séum sammála um það. En það hefur líka kostað okkur ákveðna fjármuni eins og ég gerði grein fyrir. Nú held ég að öldin sé önnur í þessum efnum. Það eru aðrar aðstæður uppi. Nú er það ákvörðun Elkem að fjárfesta hér þegar í þessum ofni fyrir tæpan 1 milljarð kr. og hagsmunir þeirra við að halda þessu fyrirtæki gangandi verða eftir það miklu meiri þannig að meirihlutaeign þeirra mun núna að mínu viti verða að draga þann vagn sem við íslendingar í meirihlutaeign höfum þurft að draga hingað til, að tryggja á erfiðleikatímum að rekstri þessa fyrirtækis verði haldið áfram. Ég trúi því að það muni verða gert af þeirri ástæðu að sá samningur sem er milli Landsvirkjunar og járnblendifélagsins um orkukaup fyrirtækisins af Landsvirkjun er fyrirtækinu hagstæður miðað við það sem fyrirtækið gæti fengið annars staðar, þ.e. Elkem gæti fengið annars staðar, en hann er líka gríðarlega hagstæður Landsvirkjun og um það erum við hv. þm. Svavar Gestsson sammála. Þetta eru í kringum 1.800 millj. kr. á núvirði sem þessir tveir samningar, samningurinn við Columbia og samningurinn við járnblendifélagið gefa Landsvirkjun í núvirtan hagnað. Af því er járnblendisamningurinn um 600 millj. kr. þannig að þarna er um mjög hagstæðan samning að ræða sem gerður hefur verið og það er auðvitað mikill ábati fyrir þjóðarbúið og fyrirtækið í heild sinni.